Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 00:53:10 (2702)


[00:53]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég hygg að þegar samanburður er gerður á framlögum þessarar ríkisstjórnar til Kvikmyndasjóðs og svo þeirrar sem var starfandi á undan þeirri sem nú situr þá megi ekki aðeins líta á skerðingartölurnar heldur verði líka að taka inn í dæmið þær aukafjárveitingar sem veittar voru á sama tíma. Ég minnist þess að í tíð síðustu stjórnar voru veittar allháar aukafjárveitingar vegna norræna verkefnisins sem þá var á ferðinni. Það held ég að breyti töluvert þeim samanburði sem hæstv. ráðherra hafði uppi.
    Í sambandi við Menningarsjóð útvarpsstöðva þá var því lýst yfir af ráðherranum að ekki yrði úthlutað á því ári sem er að líða þrátt fyrir að auglýst hafi verið eftir umsóknum. Þetta eru auðvitað mjög ill tíðindi fyrir kvikmyndagerðarmenn í landinu. Vissulega geta það talist mikil mistök hjá stjórn sjóðsins að auglýsa án þess að hafa fé á hendi en gæti ekki verið að sjóðstjórnin hafi staðið í þeirri meiningu að hún mundi fá eitthvert ráðstöfunarfé á árinu? Satt best að segja finnst mér að hæstv. ráðherra hefði átt að beita sér fyrir því að svo hefði getað orðið og að honum hefði borið skylda til að útvega eitthvert fé þannig að hægt væri að úthluta að einhverju leyti á árinu þó að það hefði kannski orðið minna en áður var.