Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:10:03 (2708)


[02:10]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt til getið hjá hv. þm. að þessi niðurstaða hv. landbn. hefur vakið athygli mína og að sjálfsögðu þarf að skoða þessi mál og fá úr því skorið. En að mínu mati gerist það ekki nema með einum hætti, þ.e. að Alþingi afgreiði framlög á fjárlögum til þessara hluta. Hins vegar kom það fram í viðtölum fjárln. við fulltrúa úr landbrn. að af hálfu ráðuneytisins hefur verið lögð á það áhersla að bændum væru kynnt þessi ákvæði í jarðræktarlögum þannig að það væri ekki verið að gefa bændum falskar vonir um styrki sem e.t.v. væru og yrðu ekki til staðar.
    Einnig má á það líta að það kann að vera að einstaka bændum sé þetta ljóst og hafi verið ljóst, öðrum ekki og þeir sem þetta hafi verið ljóst hafi ekki ráðist í framkvæmdir sem kynnu að vera styrkhæfar. En síðan voru veitt framlög til þeirra sem höfðu þrátt fyrir þessi ákvæði og þrátt fyrir aðvaranir ráðist í framkvæmdir og fengið þá bætur þannig að þetta er mjög erfitt og flókið og viðkvæmt úrlausnarefni sem ég held að sé afar mikilvægt að fá úr skorið hvernig eigi með að fara. Ég vænti þess að Alþingi geti nú fyrir þinglok tekið á þessu máli.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, get ég ekki komið að fleiri athugasemdum við ágæta ræðu hv. þm. en það sló mig þegar hann talaði um að höfð væru í frammi lögbrot vegna þess að ekki væri farið að vegáætlun. Því vil ég minna hv. þm. á að athugasemdirnar árið 1991 eða 1990 sem hann nefndi um að framkvæmdir í vegamálum beindust að því að þá var verið að seinka framkvæmdum en nú snýst allt um það að við höfum verið að flýta framkvæmdum í vegamálum. ( Gripið fram í: Hvaða framkvæmdum?)