Fjárlög 1995

57. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 02:14:38 (2710)


[02:14]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að halda til haga lokaorðum hv. 4. þm. Norðurl. e. þegar hann hvatti mjög til þess að menn yrðu duglegri við það að afla tekna fyrir ríkissjóð. Hv. þm. talaði um það áðan alveg sérstaklega og lagði mjög ríka áherslu á það að það væri, eins og hann orðaði það, sérstakur aumingjadómur að afla ekki tekna á móti þeim útgjöldum sem menn væru að stofna til í fjárlagafrv. og fjárlögunum hverju sinni. Þetta er nauðsynlegt að við höfum í huga og það er út af fyrir sig alveg rétt að það verður að reyna að ná því markmiði að ná meira samræmi á milli útgjalda og tekna. Hins vegar vil ég segja að ég held að það sé farið að reyna svo mjög á þanþol almennings, skattborgaranna í landinu, að við getum ekki gengið mikið lengra en við höfum gert.
    Nú veit ég að menn hafa oft uppi þessar almennu hugleiðingar um að það sé hægt að redda þessu öllu með því að leggja skatta á ríka fólkið og fjármagnseigendurna og það allt saman en sannleikurinn er nú samt sem áður sá að þegar farið er yfir þessi mál þá komum við alltaf að því sama að þessir vinsælu skattstofnar sem menn halda að komi eiginlega ekki við neina nema einhverja örfáa menn í landinu hafa ekki reynst gefa þær miklu fúlgur sem menn hefðu kannski trúað. Þess vegna varð það niðurstaðan, og það er kannski mikilvægt innlegg í þessa umræðu, í fjármálaráðherratíð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að mikilvægasta verkefnið í því sambandi væri fyrst og fremst það að stemma stigu við ásókn manna í þjónustu ríkisins og það væri best gert með því að auka þjónustutekjur og hvers konar gjöld af því taginu til þess bæði í senn að afla fjár fyrir ríkissjóð og draga úr þörfinni fyrir þessa þjónustu. Kannski var það það

sem hv. 4. þm. Norðurl. e. var að hvetja til, að menn gengju lengra í því að afla þjónustutekna fyrir ríkissjóð til þess að standa undir þessum útgjöldum.