Hópuppsagnir

58. fundur
Miðvikudaginn 14. desember 1994, kl. 14:00:25 (2729)

[14:00]
     Frsm. félmn. (Guðrún J. Halldórsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það frv. til laga um breyting á lögum um hópuppsagnir sem hér um ræðir hefur verið til umfjöllunar í félmn. Frv. hefur verið flutt einu sinni áður og er endurflutt núna. Með frv. er fyrst og fremst verið að aðlaga ýmis atriði að þeim stöðlum sem EES-samningurinn kveður á um. Við höfum borið öll þessi atriði undir nokkuð marga aðila sem við álítum að séu hagsmunaaðilar í þessu sambandi og alls staðar fengið jákvæð svör þannig að svo virðist sem bæði vinnuveitendur og líka starfsfólk í hinum ýmsu félagasamtökum séu á þeirri skoðun að þessi atriði sem hér eru færð inn séu til bóta.
    Um þetta frv. hefur áður verið fjallað hér í þinginu og ég ætla ekki að gera það í löngu máli. Í athugasemdum segir að verið sé að breyta núgildandi lögum. Í 1. gr. er tekið fram að uppsögn ráðningarssamnings einstakra starfsmanna skuli teljast með hópuppsögnum að því tilskildu að um minnst fimm uppsagnir sé að ræða.
    Aðrar breytingar sem þetta frv. felur í sér eru ákvæði um upplýsingaskyldu og samráð sem eru gerð ítarlegri og það kemur fram í 2. gr. frv.
    Meginbreytingin í þessu frv. felst samt sem áður í tilskipun sem snertir í minna mæli íslenskar aðstæður heldur en aðrar og miðar að því að koma í veg fyrir það að atvinnurekandi geti notað höfuðstöðvar eða dótturfyrirtæki erlendis sem afsökun fyrir því að geta ekki uppfyllt upplýsingaskyldu innan réttra tímamarka.
    Við höfum lagt þetta frv. í dóm þeirra aðila sem getið er um í nál. og alls staðar fengið jákvæð svör og leggjum því til að frv. verði samþykkt.