3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:45:47 (2738)

[10:45]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. segir að hér sé komið einfalt frv. Það sé í flestum tilfellum ívilnandi og Alþingi sé ekkert of gott til þess að setja sinn stimpil á þetta svona á eins og einum eða tveimur dögum. ( Fjmrh.: Það voru ekki mín orð.) Hæstv. fjmrh. segir: Það eru ekki mín orð. En það eru þau vinnubrögð sem okkur þingmönnum er boðið upp á. Ég vil af þessu tilefni segja að í þessu einfalda frv. eru milli 50 og 60 atriði, hæstv. fjmrh., ef þú telur saman greinarnar og undirliðina þar og margir undirliðirnir eru í . . .
    ( Forseti (KE) : Forseti vill benda hv. þm. á að ekki skuli ávarpa þingmenn eða ráðherra í 2. persónu.)
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því en stundum er það einfaldlega þannig að manni er það ofboðið hér að manni verður fótaskortur á þeim reglum sem hér gilda og ég vil í sjálfu sér fara eftir.
    Hér er um það að ræða eins og ég sagði áðan að hér eru milli 50 og 60 atriði og þar ægir öllu saman, einföldum tæknilegum breytingum, grundvallarbreytingum í skattkerfi og ívilnandi leiðréttingum. Og það er náttúrlega ekki hægt að bjóða Alþingi upp á það að þetta eigi bara að stimpla einn, tveir og þrír. Ég bendi hæstv. fjmrh. á að það er algerlega út í hött að vera að benda á vinnubrögð langt aftur í tímann því að það var einlægur vilji Alþingis síðustu tvö árin að breyta um vinnubrögð en þar hefur hæstv. ríkisstjórn algerlega brugðist og heldur áfram þessum vana sínum að keyra yfir Alþingi, að framkvæmdarvaldið keyri miskunnarlaust yfir Alþingi og sýni Alþingi algert virðingarleysi. Á þessu verður að vera breyting.