3. umr. fjárlaga

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:50:21 (2740)


[10:50]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að mönnum er hér nokkur vandi á höndum um störf þingsins þessa daga fram að jólafríi og frammistaða hæstv. ríkisstjórnar hvað varðar það að koma þessum málum hér inn er auðvitað alveg hörmuleg. Eitt það versta við þessa stöðu er það að þetta leiðir til mikillar upphleðslu mála og mikillar upphleðsluvinnu hjá þeim nefndum þingsins sem um þetta fjalla, sérstaklega efh.- og viðskn. og fjárln. Þannig er það ljóst að þessi frumvörp sem ríkisstjórnin er hér nú að mæla fyrir lenda öll inni í efh.- og viðskn. á sama tíma og menn eiga þar að vera að veita umsögn um tekjuhlið fjárlagafrv. og ljúka fleiri störfum.
    Ég hlýt svo einnig að mótmæla því sem hæstv. fjmrh. segir hér, að þetta skattafrv. sé bæði sérstaklega einfalt og líka ívilnandi. Það er að vísu rétt að það er ívilnandi að vissu leyti fyrir ákveðna aðila, en spurningin er fyrir hverja. En það er ekki einfalt. Í þessu frv. eru, það mikið er ég búinn að skoða það, flókin tæknileg álitamál sem í raun er hrein óhæfa að afgreiða nema fá á þeim útreikninga og dæmi um hvernig þau koma út. Ég nefni þar t.d. ákvæði 7. gr. um skuldajöfnun og útreikning vaxtabóta. Það eru mjög flókin tæknileg atriði sem vefjast fyrir jafnvel mestu sérfræðingum í þessum málum að útskýra og taka dæmi um.
    Svo er það ekki heldur sæmandi hæstv. fjmrh. að segja við Alþingi: Vegna þess að mál er ívilnandi þá er ekkert mál að sulla því hér í gegn á nokkrum sólarhringum. Auðvitað er hæstv. fjmrh. að segja: Af því að í frv. felast lækkanir á sköttum, lækkanir til hátekjufólks og stóreignafólks, þá munu menn ekki þora að standa gegn því að afgreiða málin hér eða þora að taka sér tíma til að skoða þau að neinu ráði, heldur sulla þeim hér í gegn. Þetta er ósæmileg uppstilling mála, hæstv. fjmrh., og ég fer fram á að fjmrh. dragi þessi ummæli sín til baka. Það er ekki sæmandi að stilla Alþingi þannig upp við vegg.