Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 10:57:20 (2744)


[10:57]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta frv. er í 18 greinum auk ákvæða til bráðabirgða. Ég tek fram að auk þessa frv. liggur fyrir þinginu frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar sérstaklega um skatt barna og ungmenna og verður það til umræðu síðar í dag. Jafnframt er hugmyndin að leggja fram fyrir jólaleyfi frv. til laga um breytingar á þessum sömu lögum sem snerta refsiþátt skattalaganna, refsiramma og viðurlög en það er gert í tengslum við breytingar sem fyrirhugaðar eru á almennu hegningarlögunum, nánar tiltekið 262. gr. almennra hegningarlaga, og eins breytingum sem verið er að undirbúa og eru til umræðu í hv. efh.- og viðskn. á refsikafla eða viðurlagakafla laga um bókhald og ársreikninga. Þessi frumvörp eiga samleið. Þar er fjallað um svokölluð hvítflibbabrot en skattalagabrot er verulegur þáttur í svokölluðum hvítflibbabrotum. Með þeim frumvörpum er verið að koma til móts við kröfur sem eðlilegar eru og hafa komið fram af meiri þunga á undanförnum árum en það eru kröfur þess efnis að ríkisvaldið þurfi að taka fastar á svokölluðum skattsvikum.
    Fyrir um það bil ári síðan skilaði skattsvikanefnd áliti og í því áliti kom fram að eitt virkasta meðalið til þess að ná fyrir rætur skattsvika væri að setja skýrari viðurlög og hækka botn refsirammans. Þetta frv. fjallar ekki um þau atriði, en í þessu frv. eru ýmsar breytingar allt frá minni háttar lagfæringum upp í atriði sem munu hafa verulega þýðingu fyrir framkvæmd skattalaga hér á landi.
    Í fyrsta lagi er um að ræða breytingar í samræmi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því í vor og má þar nefna yfirlýsingar vegna húsaleigubóta, flýtifyrningar og fjárfestingu manna í atvinnurekstri. Í öðru lagi eru þetta breytingar í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því 10. des. sl. um lækkun eignarskatta, skattalega meðferð lífeyrisgreiðslna, framlengingu sértaks tekjuskatts og ýmislegt fleira. Í þriðja lagi eru á ferðinni ýmsar tæknilegar lagfæringar sem ástæða þykir að gera nú þegar fjallað er um þessi mál á hinu háa Alþingi.
    Mér er það ljóst, virðulegi forseti, að frumvarpið er nokkuð seint fram komið. Það er þó vitað að mörg atriði sem í frumvarpinu eru hafa verið ljós um nokkurra mánaða skeið og þess vegna hefur almenningur í landinu --- ekki síst snýr þetta að fyrirtækjunum --- getað hagað verkum sínum með tilliti til þess að þetta frumvarp yrði flutt og það væntanlega gert að lögum í lok þessa árs. Önnur atriði í frumvarpinu eru þess efnis að í raun skiptir kannski ekki höfuðmáli hvort afgreiðsla fæst akkúrat núna á næstu dögum, þó væri það til bóta ef hv. efh.- og viðskn. telur að hún hafi tækifæri og tíma til þess að skoða þær brtt. verulega.
    Í fyrsta lagi er ástæða til þess að nefna, sem efnislega breytingu í þessu frv., að svokallaður ekknaskattur er felldur niður, en með því heiti er verið að tala um hæsta þrep eignarskattsins svokallaða. Þessi ráðstöfun er talin kosta ríkissjóð í tekjutapi u.þ.b. 120 millj. kr. á ári og ástæðan er auðvitað sú að fyrirhugað er að taka upp fjármagnstekjuskatt í upphafi ársins 1996, en það hefur ávallt verið ráðgert að þegar það gerðist mundu eignarskattar lækka, enda er verið að breyta grundvallarviðhorfum í skattarétti með því að færa skattheimtuna af eignum yfir á eignatekjur og líkja þannig eftir skattheimtu í tekjuskattinum þar sem tekjur eru fyrst og fremst skattstofn en ekki eignir. Þetta eru sambærilegar breytingar við þær sem helst hafa verið að gerast í okkar nágrannalöndum á undanförnum árum og áratugum.
    Í öðru lagi er lagt til í þessu frv. að svokölluð tvísköttun lífeyrisgreiðslna verði afnumin. Þetta mál er flókið, erfitt viðfangs og alls ekki einhlítt hvernig á að leysa það, en í frv. er farin ákveðin leið sem talin var sanngjörn, ekki síst vegna þess að þar er komið til móts við þarfir og kröfur og óskir þess fólks sem komið er á lífeyrisaldur og fær greitt út úr lífeyrissjóðum.
    Ég vil taka það fram, virðulegi forseti, að það er umdeilanlegt hvort hægt sé að tala um yfir höfuð tvísköttun lífeyris, a.m.k. er ljóst að fram til ársins 1988 er ekki um tvísköttun að ræða. Á þeim tíma

voru gerðar breytingar á skattalögum. Breytingin var þess efnis að ekki var lengur hægt að draga frá tekjum manna ýmsa liði sem áður voru frádráttarbærir, þar á meðal framlög einstaklinga í lífeyrissjóði. Í staðinn gerðist það að persónuafsláttur var aukinn, skattleysismörk hækkuð og þeir sem undirbjuggu þessar breytingar sögðu frá því með skilmerkilegum orðum í greinargerðum frumvarpa, að til þess væri ætlast að persónuafslátturinn dygði til að koma til móts við alla þá frádráttarliði sem áður voru í lögum. Þetta þarf að taka fram sérstaklega og þegar minnst er á lífeyrinn í þessu sambandi verða menn að rifja það upp að í gömlu skattalögunum var heimild til að draga lífeyrinn frá tekjum en jafnframt var hægt að velja þá leið að nota svokallaða 10% reglu, sem ég veit að ýmsir hv. þm. kannast við frá þeim tíma, en hún féll úr gildi um leið og nýju skattalögin tóku gildi.
    Ef hægt er að tala um óréttlæti varðandi lífeyrisgreiðslur hygg ég að menn séu fljótir að koma auga á að vandamálið liggur kannski fyrst og fremst hjá einyrkjum, þ.e. atvinnurekendum sem starfa einir, þar sem skattar eru oft lagðir á eftir öðrum reglum, a.m.k. í staðgreiðslukerfinu, heldur en gengur og gerist og þar sem þessir einstaklingar greiða í lífeyrissjóði og verða að öllu leyti að standa sjálfir skil bæði á því sem talið er hjá öðrum vera framlag atvinnurekandans og lífeyrisþegans sjálfs eða launþegans.
    Það háttar þannig til í skattalögunum að ekki hefur verið talið heimilt að draga þau 6% frá hjá þessu fólki sem aðrir hins vegar fá frádregið í því formi að atvinnurekandinn getur dregið frá tekjum í fyrirtækinu framlög atvinnurekandans til lífeyrissjóðs, sem lagt er inn í lífeyrissjóð fyrir viðkomandi launþega fyrirtækisins. Á þessu vandamáli er ekki tekið í þessu frv. Það hefur verið höfðað mál vegna þessa atriðis og enn er ekki úr því skorið hverjar lyktir þess máls verða. Ég tek þetta hér fram vegna þess að það er alveg ljóst að þau 6% sem þessir aðilar greiða í lífeyrissjóð og fást ekki frádregin í rekstrinum, það má halda því fram með réttu að þar sé um tvísköttun að ræða. Ég tel hins vegar mikinn vafa á því að annars staðar sé um tvísköttun að ræða og þegar fjármagnstekjuskatturinn verður kominn á og verði það gert með þeim hætti að lífeyrissjóðunum verði hlíft við fjármagnstekjuskattinum tel ég að það sé hvergi um tvísköttun að ræða í lífeyriskerfinu og jafnvel eftir að sú breyting verður gerð sem hér er lagt til að þá sé frekar um ívilnun að ræða fyrir þá sem fá greitt úr lífeyrissjóðum. Þessi leið var farin vegna þess að hún var talin koma til móts við fjölmarga fullorðna aðila og eins vegna hins að þannig háttar til í almannatryggingakerfinu að um verulegar skerðingar á bótum er að ræða hjá þeim sem hafa tekjur, fyrst og fremst atvinnutekjur, en einnig tekjur úr lífeyrissjóðum, þó að viðmiðunarmörk séu ekki þau sömu í báðum tilvikum. Þetta verðum við að hafa í huga vegna þess að ýmsir þeir sem greiða skatta en eru komnir á fullorðinsár missa líka bótarétt. Það gildir hins vegar það sama hér eins og víða í tekjuskattslögunum að það er erfitt að ná til þeirra til jöfnunar sem ekki borga tekjuskattinn.
    Vissulega er það svo varðandi barnabótaauka og fleira sem er til útborgunar að hægt er að ná til slíkra aðila. Það eru þeir verst settu sem fá útborgað en greiða ekki skatta, þannig að í raun og veru skilar skattkerfið þeim peningum umfram það sem borgað er í skatta, en aðrir aðilar sem ekki greiða tekjuskatta njóta að sjálfsögðu ekki þeirrar jöfnunar sem felst í skattkerfinu. Þetta er þekkt og þess vegna er ekki hægt að ná til þeirra einstaklinga í mörgum tilvikum sem eru undir svokölluðum skattleysismörkum. Alþýðusamband Íslands, launþegahreyfingin, hefur þess vegna lagt til að það sé náð til þessa hóps með öðrum ráðum og síðasta þekkta dæmið, sem mikið var rifist um hér á hinu háa Alþingi um þetta atriði, var lækkun svokallaðs matarskatts, en sú breyting hafði þann eiginleika að ná til fólks sem er undir skattleysismörkum í tekjuskattinum en það fólk ver hærra hlutfalli af launum sínum til matarkaupa heldur en hinir. Það er hins vegar rétt sem á hefur verið bent að það má gera ráð fyrir því að hátekjufólkið greiði fleiri krónur þegar farið er út í búð til að kaupa í matinn. Samt sem áður er þetta gert í nafni tekjujöfnunar. Á þetta minni ég nú í þessari ræðu minni sérstaklega vegna þess að nú virðist þessi aðgerð gleymd þegar lesin er gagnrýni Alþýðusambands Íslands á þær ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur boðað með yfirlýsingu sinni hinn 10. des.
    Það er talið, virðulegi forseti, að afnám svokallaðrar tvísköttunar með þeirri aðferð sem hér er beitt kosti ríkissjóð 250 millj. kr. í tekjutap í tekjuskattskerfinu.
    Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv. að sérstakur tekjuskattur, sem stundum hefur verið kallaður hátekjuskattur, sé framlengdur um eins árs skeið, en skattleysismörk hækkuð úr 200 þús. í 225 þús. kr. á mánuði fyrir einstakling og úr 400 þús. í 450 þús. kr. fyrir hjón. Það skal tekið fram, sem öllum hv. þm. er ljóst, að þennan skatt átti að leggja niður um næstu áramót. Hefðu lögin verið óbreytt hefði skatturinn fallið niður. Það hefur verið kannað hverjir greiða þennan skatt og það kemur í ljós að að stórum hluta til er það ungt fólk, sjómenn, tekjuháir einstaklingar sem m.a. eru að byggja. Þetta hefur verið kannað úr skattframtölum, svo ég taki það enn einu sinni fram af því að menn virðast ekki trúa því, og það kemur í ljós að að stórum hluta til er þetta fólk sem ekki greiðir eignarskatt og oft fólk sem er greinilega að leggja á sig aukna vinnu til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Því miður er það svo að það geta ekki allir fengið slíka vinnu en það er til og það fólk lendir í þessum háa tekjuskatti. ( Gripið fram í: 70% jaðarskatti.) Og til viðbótar, eins og hv. þm., formaður efh.- og viðskn., kallar fram í, að þá er um að ræða miklu hærri jaðaráhrif vegna þess að hátekjufólkið missir af bótum sem lágtekjufólkið fær, eins og t.d. barnabótaauka og vaxtabætur, svo minnst sé á bætur í skattkerfinu sem hátekjufólkið fær ekki.
    Og það þarf að koma skýrt fram í þessari umræðu þegar talað er um kjarajöfnun hér á landi að líklega hefur Ísland sérstöðu í heiminum hvað kjarajöfnun snertir. Þjóðhagsstofnun hefur reiknað það út og

birt það nýlega í sinni yfirlýsingu, að séu teknir 20%, fimmtungur af gjaldendum í tekjuskattskerfinu, sem greiða hæstan skatt, hafa hæstar tekjur og hinir sem hafa lægstar tekjurnar og hafa minnst á milli handanna og þessir hópar bornir saman kemur í ljós að margfeldið á milli þeirra, þegar búið er að taka tillit til skatta, eru 2,7. Ég hygg að það sé ekki hægt að finna nokkurt land í heiminum þar sem minni munur er á tekjum þeirra hæstu og lægstu þegar búið er að taka tillit til skatta. Þetta þarf að koma fram þegar menn tala um kjarajöfnun vegna þess að einkenni íslenska tekjuskattsins eru þau að persónuafslátturinn er mikill, en hins vegar er skatthlutfallið mjög hátt sem hefur m.a. þessi einkenni í för með sér. Allt of sjaldan er minnst á þetta í umræðunni, en það er t.d. athyglivert, vegna þess að ýmsir sem hér eru inni þekkja til Svíþjóðar, sumir hafa meira að segja lært þar, að munurinn á þessum hópum þar, í þessu landi jafnaðarmennskunnar, er miklu meiri heldur en á Íslandi. Þetta segi ég hér vegna þess að nokkuð hefur verið gagnrýnt að þessi ríkisstjórn sem nú starfar hafi ekki sinnt nægilega vel kjarajöfnun í sínu starfi. Má þó ekki gleyma því að það tókst samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins fyrir u.þ.b. ári að lækka virðisaukaskatt á matvælum, en sú lækkun hefur skilað gífurlegum árangri, sannanlegum árangri, og komið sér best fyrir þær fjölskyldur sem hafa minnst á milli handanna en þurfa að verja stórum hluta launa sinna til matarkaupa.
    Það er athyglivert þegar menn gagnrýna ráðstafanir ríkisstjórnarinnar að þá ganga menn út frá því að hátekjuskatturinn hefði átt að halda áfram. Og ég vitna til í þessu sambandi yfirlýsingar Alþýðusambands Íslands sem reiknar síðan út hverjir fái kjarabæturnar út úr ráðstöfunum með því að gera ráð fyrir því að skattur héldi áfram sem alls ekki átti að halda áfram. Þannig er hægt að búa til falskan grundvöll til þess að bera saman við það sem þessar ráðstafanir raunverulega þýða.
    Í frv. er ekki að finna ákvæði frekar en venjulega um hækkun skattleysismarka. Því hefur verið lýst hvernig sú hækkun fer fram og ætla ég ekki að fara mörgum orðum um það, en það er reyndar eitt af því fáa sem Alþýðusambandið telur þó ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar til tekna.
    Í frv. er gert ráð fyrir því að húsaleigutekjur verði að nokkrum hluta undanþegnar skatti eða frádráttarbærar frá tekjum einstaklinga sem leigja út með tilteknum skilyrðum. Þessi upphæð getur orðið allt að 300 þús. á ári eða sem nemur 25 þús. á mánuði, en sú leið er farin í þessu frv. að skattfrelsið nær eingöngu til 80% leiguteknanna. Ástæðan fyrir því að þessi leið er farin er sú að með þessu er reynt að koma í veg fyrir að búnir séu til gervileigusamningar til þess að freista þess að ná fjármagni úr opinberum sjóðum eins og t.d. Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég vona að friður geti ríkt um þessa aðferð. En meginmarkmiðið með því að grípa til þessarar aðgerðar er auðvitað það að lækka leigu í landinu, að lækka húsaleigu í landinu, sem auðvitað kemur þeim best sem eru á leigumarkaðnum sem oft er lágtekjufólkið. Þetta kemur til viðbótar því að húsaleigubætur taka gildi um næstu áramót. Og það er furðulegt að hlusta á ýmsa sem koma nú fram og gagnrýna þessa ríkisstjórn fyrir það að hafa ekki stundað kjarajöfnun þegar á það er minnst að annars vegar hefur matarverðið verið lækkað og hins vegar er þessi ríkisstjórn að standa að húsaleigubótum. Skal þó sá sem hér stendur viðurkenna að hann var ekki mesti baráttumaður fyrir húsaleigubótunum og telur það reyndar vera gallagrip, en markmiðið er eigi að síður það að ná til þeirra sem verst eru settir, búa ekki í eigin húsnæði og geta þess vegna ekki notið þess m.a. að fá vaxtabætur út úr tekjuskattskerfinu. Það virðist vera gleymt þegar nú er verið að tala um það að hvergi sé að finna kjarajöfnun í ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar.
    Þá er í frv., virðulegi forseti, fjallað um flýtifyrningar. Hér er farin sú leið að þær fjárfestingar sem hafa orðið til á árunum 1994 og 1995 má flýtifyrna með þeim aðferðum sem lögin eða lagafrv. lýsir. Það er auðvitað umdeilanlegt og er þekkt í skattarétti og umfjöllun um skattamál hvort grípa eigi til flýtifyrninga eins og hér er gert. Það hefur þó verið gert við viss tilvik og mér sýnist í fljótu bragði t.d. að nýja sænska ríkisstjórnin grípi til slíkra aðgerða. Það er viðkvæmt að vera mikið að fikta í fyrningum, afskriftum í skattalögum og þróunin hefur ugglaust verið sú á undanförnum árum að gefa vissan sveigjanleika í fyrningum og afskriftum. En meginkjarninn í afskriftastefnu skattalaga yfir höfuð er að afskriftirnar séu valdar með tilliti til endingartíma eignanna, enda er hugmyndin sú að gjaldfærslur árlegar dugi fyrir þeirri endurnýjun. Það er auðvitað meginhugmyndin í lögum yfirleitt, en hér er farin þessi leið til þess að freista þess að hliðra til í því skyni að fyrirtækin fjárfesti frekar ef um þessa flýtifyrningu er að ræða á þessum árum þegar við mest þurfum á því að halda að skapa atvinnu fyrir þá atvinnulausu. Og það má ekki gleyma því þegar rætt er um þá atvinnulausu og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að einmitt það að stórauka framkvæmdir núna til vegamála er gert m.a. að ósk Alþýðusambandsins, að ósk aðila vinnumarkaðarins, til þess að búa til störf og koma þannig í veg fyrir að atvinnuleysi þrífist hér áfram eins og gerst hefur á undanförnum árum. Sem betur fer virðast tölur Þjóðhagsstofnunar sýna okkur að atvinnuleysið sé að minnka, það sé að draga úr atvinnuleysinu, kannski of hægt, en við erum þó á réttri leið þegar við skoðum tölur frá ári til árs nú um þessar mundir.
    Í frv. er fjallað um eftirstöðvar svokallaðra rekstrartapa, yfirfæranlegra rekstrartapa í atvinnurekstrinum, og þá einkum og sér í lagi í tengslum við sameiningu fyrirtækja. Það hefur komið í ljós ákveðinn veikleiki á ákvæðum laganna, sérstaklega núna í dómsmálum og málum sem rekin hafa verið fyrir yfirskattanefnd og með þeirri reglu sem lýst er í frv. er reynt að festa í sessi reglu sem sníður af megingallana og reynt að fara þá leið sem við teljum að flestir geti orðið sammála um. Þessi regla er ekki ívilnandi en hún er sett fram til þess að geta skýrt frekar við hvað er átt þegar heimilt er að sameina fyrirtæki og njóta í sameiginlegu fyrirtæki uppsafnaðs rekstrartaps þess fyrirtækis sem á slíkt rekstrartap til góða og getur notað það til þess að lækka skatta á næstu árum. ( HÁ: Er hún afturvirk?) Ég skal nú viðurkenna það vegna frammíkalls hv. 1. þm. Austurl., sem er einn helsti sérfræðingur þingsins í skattalögum og reyndur endurskoðandi og reyndar kennari í þeirri grein, að ég treysti mér ekki til á þessari stundu að svara þeirri spurningu, en beini henni hins vegar til formanns hv. efh.- og viðskn. og bið hann um að hafa þessa fsp. hv. þm. í huga þegar nefndin tekur málið fyrir í sínum störfum. Vonast ég til þess að samgöngur á milli þeirra tveggja, hv. 1. þm. Austurl. og formanns nefndarinnar, séu það góðar að svarið geti borist innan tíðar.
    Þá er í þessu frv. fjallað um frádrátt vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri. Það sem gert er í þessu frv. er að í stað þess að trappa niður frádráttarheimildir sem eru í núgildandi lögum, frádráttarheimildir sem eru á þann veg að fólk geti keypt hlutabréf og fengið skattafslátt eða frádrátt frá skatti vegna hlutabréfakaupa, hugmyndin var að taka þetta niður á fimm árum, þá er nú ákveðið að staðnæmast á því þrepi sem gildir í ár og það verður áfram hægt að draga frá skatti einstaklinga vegna hlutabréfakaupa, með þeim skilyrðum sem er að finna í lögum að sjálfsögðu, 80% af þeirri upphæð sem upphaflega var í lögunum, með þeim breytingum sem hafa orðið vegna vísitölubreytinga. Þetta atriði eins og flýtifyrningarnar voru atriði sem ríkisstjórnin lofaði að taka til athugunar í tengslum við kjarasamninga á sl. vori. Þá kom fram yfirlýsing frá ríkisstjórninni sem tók á þessum tveimur þáttum. Það var ekki loforð ríkisstjórnarinnar að leggja fram frv. heldur að taka þessi atriði til athugunar og til viðbótar var þar að finna atriði sem snerti töpuð hlutabréf og hvernig ætti að fara með það þegar fyrirtæki eiga í öðrum fyrirtækjum og tapa hlut sínum í þeim fyrirtækjum ef um gjaldþrot er að ræða.
    Í skattalögunum núna er að finna reglu sem er á þá leið að ef viðskiptaskuld, tapaðri viðskiptaskuld, er breytt í hlutabréf þá má fara með hlutabréfið eins og um tapaðar viðskiptaskuldir sé að ræða. Með öðrum orðum, að hlutabréf sem verða til með þeim hætti gegna sömu reglum eins og um tapaðar viðskiptakröfur sé að ræða. Það er flókið og erfitt að koma því við í skattalögum að heimilt sé fyrir fyrirtæki, venjuleg fyrirtæki, að draga frá tekjum sínum tap sem verður vegna þess að hlutabréf glatast í gjaldþrotum. Það er hæg leið og það hafa menn séð í skattalögum nágrannalandanna, að færa sér slíkt óhóflega í nyt og oft mjög erfitt að gera mun á eðlilegum afskriftum og þeim sem óeðlilegar gætu talist. Þetta atriði mun þurfa nánari skoðunar við og fjmrn. og lögfræðingar þess eru að kanna það með hvaða hætti og hvort hægt sé að breyta skattalögum á næstunni hvað þetta atriði varðar. En á það hefur verið réttilega bent af hálfu ýmissa sem starfa í atvinnurekstri að það sé ekki fallið til þess að örva fyrirtæki að setja fjármagn í ný fyrirtæki ef niðurstaðan er sú að ekki megi draga frá tekjum framlagsfyrirtækisins töp sem geta orðið þegar fyrirtæki lendir í gjaldþroti og eigendur fyrirtækjanna tapa öllu sínu. Þetta þarf að skoða betur en vissulega er þess virði að það sé athugað.
    Virðulegi forseti, ég hef nú farið yfir helstu breytingarnar sem koma fram í þessu frv. Ég vil samt leyfa mér að fara yfir einstakar greinar. Það er ekki siður kannski í 1. umr. að fara mjög nákvæmlega yfir greinarnar, en ég tel það eðlilegt, a.m.k. að það komi fram í framsöguræðunni, ekki síst fyrst að menn vilja gefa sér mikinn tíma fyrir þessa umræðu, að segja um hvað greinarnar fjalla.
    1. gr. frv. fjallar um það að það megi draga frá tekjum í atvinnurekstri smávinninga og happdrættisvinninga ýmiss konar sem fyrirtæki gefa gjarnan í einhvers konar auglýsingaskyni. Þetta er til þess að taka af allan vafa, en skattalögin eru tiltölulega fortakslaus í þessu sambandi. Það hafa komið upp tilvik eins og þau að útvarpsstöðvar hafa auglýst, gefið boli og þess háttar og ég held að það sé ástæðulaust að vera að eltast við slík atriði því að faktískt ætti að telja slíkt til tekna hjá viðkomandi og menn sjá að það er nokkuð erfitt að koma því við og kannski út í bláinn að ætlast til þess að fyrirtæki dragi þetta ekki frá tekjum í rekstri. Vandamálið kemur kannski sérstaklega upp þegar um er að ræða samkeppni þar sem annars vegar eru opinber fyrirtæki sem greiða ekki skatta og hins vegar einkafyrirtæki sem greiða skatta.
    Í 2. gr. er fjallað um frádrátt frá tekjum manna, en þetta er grein sem breytir eða sem leggur til að breytt verði 30. gr. skattalaganna. Í a-liðnum er fjallað um staðaruppbót, en það er hugmyndin að staðaruppbót sé sett í skattmat þannig að einungis sé hún til frádráttar ef um sé að ræða sannanlegan kostnað. Í c-liðnum er fjallað um lífeyrismálið sem ég hef gert áður að umtalsefni og hefur verið kynnt í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Í d-liðnum er fjallað um hlutabréfafrádráttinn, þann sem var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sl. vor. Í e-liðnum er fjallað um húsaleiguna, en eins og ég hef sagt áður þá ætti slík breyting að stuðla að lækkun húsaleigu og jafnframt og vonandi til þess að þeir sem fá húsaleigutekjur gefi þær tekjur upp í stærri stíl en reyndin er og skal ég þó ekki fullyrða að hve miklu leyti slíkt er gert, því ef ég vissi þá mundi sjálfsagt vera reynt að koma betur í veg fyrir það heldur en gert hefur verið.
    Í 3. gr. frv. er þess freistað í a-liðnum að ná til svokallaðra undirverktaka með því að skylda þá sem hafa slíka í samningum að skila inn svokölluðum verktakamiðum. Mér er það fullkomlega ljóst að þetta kann að vera flókið og erfitt. Ég bið hv. nefnd að kynna sér þetta með því að ræða við einstaka aðila en ástæðan fyrir því að þetta er tekið hér inn þó þetta hafi lítið með skatttekjur ríkissjóðs að gera er að undan því hefur verið kvartað að svokallaðir undirverktakar stæðu í sumum tilfellum, alls ekki öllum, hvorki skil á sköttum né greiðslum til verkalýðsfélaga o.s.frv. Síðan fara þeir á hausinn og koma svo aftur undir nýju nafni, sömu eigendur aftur og aftur. Það er ekki nóg með að þetta hafi slæm áhrif á sjóði verkalýðshreyfingarinnar, lífeyrissjóði og ríkissjóð heldur hefur þetta haft skemmandi áhrif fyrir þá starfsemi sem fer að lögum að öllu leyti, þá sem gefa allt upp og standa skil á öllum sínum greiðslum. Því þeir sem leyfa sér að að standa ekki skil á sínum greiðslum geta að sjálfsögðu undirboðið verk hinna. Með þessu er reynt að bæta úr þessu vandamáli en ég viðurkenni að á því kunni að vera erfiðleikar.
    Í b-liðnum í 3. gr. er síðan fjallað um yfirfæranlegu rekstrartöpin, sem ég hef áður minnst á, sem nýta má til skattfrádráttar eftir sameiningu fyrirtækjanna.
    4. gr. er einungis tæknileg lagfæring.
    Í 5. gr. er fjallað um tækifærisgjafir og opnað fyrir möguleika fyrirtækja til að gefa tækifærisgjafir starfsmönnum og öðrum innan hóflegra marka.
    6. gr. er tæknileg lagfæring.
    En 7. gr., sem hefur verið gerð að umtalsefni fyrr í dag undir liðnum athugasemdir um störf þingsins, er lagfæring á bótaákvæðum vegna vaxtabóta. Það er hárrétt að sú tilhögun sem er í lögunum er mjög flókin og það eru margar girðingar í gangi. Það eru eignir, það eru tekjur, það er fjárhæð vaxta o.s.frv. Þarna er verið að leggja til að færa til girðingar. Ég segi við hv. nefnd: Ef þetta er svo flókið að menn ráða ekki við þetta á næstu dögum þá má þetta bíða mín vegna. Við töldum að þetta væri til bóta en þetta er ekki svo stórt mál að ástæða sé til þess að hlaupa til og breyta þessu ef mönnum þykir þetta vera afspyrnu flókið. Þetta vil ég taka fram vegna þess að þetta mál var sérstaklega rætt í þingskapaumræðum áður en umræðan hófst.
    8. gr. er um eignarskattinn sem ég hef áður fjallað um.
    9. gr. fjallar hins vegar um dánarbú. Hér er reynt að koma til móts við þá sem verða fyrir því að missa maka. Í núgildandi skattalögum ber á því að dánarbúum er jafnvel mismunað eftir því hvenær makinn fellur frá, eða arfleifandi réttara sagt fellur frá því hann getur verið arfleifandi án þess að vera í hjónabandi eða sambúð. Þetta er kannski tæknileg breyting ekki stórvægileg en ætti að stuðla að meira jafnræði á milli aðila og gera ekki þann mun sem nú er á eftir því hvenær dauðsfall ber að höndum, hvort það er fyrri hluta eða síðari hluta árs. Skal ég ekki fara nánar út í þetta atriði sem ég tel vera réttlætismál en hefur kannski ekki stórpólitíska þýðingu né heldur breytir sköttum til hins opinbera í stórum stíl.
    10. gr. er tæknileg breyting og hún er lögð fram og þarf að afgreiðast með hliðsjón af ákvæðum frv. til laga um bókhald og ársreikninga. Ég bið hv. nefnd um að láta þessa breytingu fylgja því frv. og taka mið af því frv. Verði það afgreitt fyrir áramót þarf að huga að þessari breytingu en ella er eðlilegt að hún sé látin bíða.
    Í 11. gr. er fjallað um launa- og verktakamiða sem ég hef reyndar áður vikið að og er afleiðing þeirrar breytingar.
    Í 12. gr. er verið að samræma kærufresti í lögum og þess vegna er kærufresturinn lengdur um einn dag.
    13. og 14. gr. eru tæknilegar breytingar vegna þess að lagatilvísanir eru rangar.
    15. gr. er líka reyndar tæknileg breyting. Það mátti misskilja lögin þótt ekkert hafi reynt á þetta. En með því að laga orðalag eins og gert er í 15. gr. þá er sagt að komið sé í veg fyrir að menn geti misskilið frádráttarbærnina og jafnvel haft hana tvöfalda eins og sumir hafa talið að mætti lesa úr núgildandi texta.
    Í 16. gr. er verið að setja húsaleiguupphæðina undir skattvísitölu skattalaganna.
    17. gr. þarf ekki að skýra, hún er gildistökugrein.
    Í 18. gr. eru ákvæði til bráðabirgða. Fyrst flýtifyrningin og ég vísa þar til greinargerðar með lagafrv. á bls. 13 og 14. Síðan er hugmyndin að varasjóður falli niður sem ekki hefur áhrif á skatt fyrirtækjanna vegna þess að það hefur verið hægt að gjaldfæra á móti. En í þessari tillögu er gert ráð fyrir að varasjóður samkvæmt eldri skattalögum sé leystur upp. Þetta hefur ekki mikla þýðingu einfaldlega vegna þess að upphæðin í varasjóðnum hefur ekki fengist verðuppbætt.
    Loks er í bráðabirgðaákvæðinu að finna sérstakan tekjuskatt, 5%-skattinn, sem framlengdur er í eitt ár, eða þar til fjármagnstekjuskatturinn tekur við.
    Ég hef í bland í mínu máli nokkuð komið að yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en jafnframt tekið nokkur atriði út úr gagnrýni Alþýðusambands Íslands. Mér finnst nokkuð bera á því þegar aðilar eru að gagnrýna ráðstafanir ríkisstjórnarinnar að það sé gefið í skyn að nú sé kjarajöfnun ekki á dagskrá o.s.frv. Ég vil leyfa mér að endurtaka það hér að ekki má gleyma því sem gert hefur verið. Matarskatturinn var lækkaður og það er ekki hægt að halda því fram að það að framlengja hátekjuskattinn í eitt ár sé engin breyting. Auðvitað var búið að ákveða og er í lögum að hátekjuskatturinn félli niður um næstu áramót. Það að framlengja þann hátekjuskatt er að sjálfsögðu breyting frá því sem er í lögunum. Og það er ekki sæmandi fyrir samtök finnst mér að bera það á borð að það sé engin breyting að hátekjuskatturinn sé áfram því hann hafi verið á þessu ári. Sömu aðilar sem aftur og aftur og aftur hafa lýst því yfir að ríkisstjórnin sé að ráðast á hina og þessa með því að leggja niður hátekjuskattinn.
    Í öðru lagi má ekki gleyma því að það er gert ráð fyrir því í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp um önnur áramót, eftir rúmt ár. Hvers vegna hefur það ekki verið gert fyrr? Jú, það er vegna þess að þegar vextir voru lækkaðir fyrir rúmu ári síðan mælti Seðlabankinn eindregið gegn því að fjármagnstekjuskatti yrði komið á um þau áramót og þess vegna var því frestað. Það

eru fyrirliggjandi frv. um málið. Með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru báðir stjórnarflokkarnir, bæði Sjálfstfl. og Alþfl., að lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir að standa að því að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp um önnur áramót. Þeir eru að bjóða öðrum stjórnmálaflokkum sem eiga aðild á Alþingi um þessar mundir að taka þátt í að móta þær reglur ef t.d. það gerðist að eftir kosningar kæmu aðrir flokkar að stjórn landsins. Jafnframt er verið að bjóða upp á að aðilar vinnumarkaðarins sem hafa sýnt sig vera viðkvæmir fyrir öllum breytingum á sköttum, eðlilega, komi að þessu máli enda hefur það verið áhugamál Alþýðusambandsins að leggja á fjármagnstekjuskatt og það er vitað að báðir aðilarnir, Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, hafa margoft lýst því yfir að þeir vilja að vöxtum sé haldið niðri. Þess vegna er verið að biðja um að allir þessir aðilar komi að málunum. Við erum ekki að biðja um það til að varpa ábyrgð á einhverja aðra. Auðvitað eru stjórnarflokkarnir ábyrgir fyrir þessari stefnuyfirlýsingu. Við erum að gera þetta vegna þess að lögin taka ekki gildi fyrr en eftir að ríkisstjórnin fer frá. Svo tala menn um að það sé einsdæmi að slíkt gerist. Má ég minna á öll atriðin áður og fyrrum þegar sett voru lög sem tóku ekki gildi fyrr en eftir kosningar og hækkanir sem tóku ekki gildi fyrr en eftir kosningar. Ég man eftir því að sumar hækkanir komu ekki fram fyrr en eftir kosningar þegar ég kom inn í fjmrn. Þá allt í einu hækkuðu hlutir og ég spurði: Af hverju er þetta gert? Jú, það var vegna þess að þetta var ákveðið af fyrri ríkisstjórn, þar á meðal bensíngjald, svo ég rifji eitthvað upp fyrir þeim sem báru að einhverju marki ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem þá sat.
    Það má ekki heldur gleyma húsaleigubótunum, ég hef minnst á það, sem voru settar á til kjarajöfnunar.
    Að öllu samanlögðu, virðulegur forseti, þá er hér á ferðinni frv. sem gerir ráð fyrir nokkrum breytingum og breytingarnar eiga flestar það sammerkt að vera ívilnandi. Að því leytinu til er þetta frv. öðruvísi en mörg þau frv. sem ég hef þurft að flytja á Alþingi á undanförnum árum og aðrir fjmrh. á undan mér. Þess vegna og í trausti þess finnst okkur að tími sé til að afgreiða þessar tillögur þó ég viðurkenni fúslega og hafi gert það áður að auðvitað hefði verið betra að fá þessar tillögur fyrr fram í þinginu. ( Gripið fram í: Af hverju komu þær ekki?) Mér er kunnugt um að hv. nefnd hefur aðeins litið á tillögurnar nú þegar og ég er þakklátur formanni nefndarinnar fyrir að hafa tekið málið til umræðu á fundi nefndarinnar í gær. En ég viðurkenni að það hefði verið betra að fá tillögurnar fram fyrr. Ugglaust er það rétt að það hefði verið hægt að setja sumar þeirra fram strax í haust eða a.m.k. fyrr en það var von mín allan tímann að hægt væri að leggja þetta fram í einu frv. Það hefur dregist. Frv. er hins vegar komið fram og ég vonast satt að segja til þess að um þessi mál í frv. geti myndast tiltölulega víðtæk og breið samstaða.
    Virðulegi forseti. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og jafnframt til hv. efh.- og viðskn.