Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 11:43:46 (2745)


[11:43]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. staðhæfði áðan að kjarajöfnun hér á landi væri mun meiri en gengur og gerist annars staðar. Það má vel vera að það sé að einhverju leyti rétt. En ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Er það ástæðan fyrir því að það er verið að draga úr kjarajöfnun núna? Það mátti skilja á hæstv. fjmrh. að hér hefði verið allt of langt gengið. Það er verið að lækka hátekjuskattinn hvað svo sem hæstv. fjmrh. segir og er með miklum vandræðagangi að reyna að útskýra það að að sjálfsögðu sé ekki verið að lækka hann vegna þess að áður hafi verið búið að ákveða að fella hann niður. Það er verið að lækka skatt hjá þeim sem fá hvað mestar lífeyrisgreiðslur, það liggur alveg fyrir. Það er verið að lækka eignarskatt þeirra sem eiga mestu eignirnar. Það er verið að draga úr kjarajöfnun. Og til þess að upplýsa hæstv. fjmrh. betur um þær aðgerðir sem hann stóð fyrir á sl. ári þá bið ég hann um að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Þau gögn sem skoðuð hafa verið og útreikningar sem gerðir hafa verið ásamt öðrum athugunum, jafnt innlendum sem erlendum, sýna að þó aðgerðin auki kaupmátt ráðstöfunartekna almennings þá er hún ekki skilvirk leið til tekjujöfnunar í samanburði við aðrar aðgerðir. Útreikningar benda til þess að einungis um 16% af tekjutapi ríkissjóðs við aðgerðina skili sér til lágtekjuheimila.``
    Það liggur sem sagt fyrir hvort sem aðilar vinnumarkaðarins samþykktu þetta eða ekki að þar var valin röng leið til tekjujöfnunar. Það er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. upplýsi það hér hvort það er orðið sérstakt stefnumál þessarar ríkisstjórnar, sem ég tel að sé í reynd, að draga úr kjarajöfnun í landinu. Er það innleggið í kjarasamningana sem á að gera á næsta ári?