Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 11:52:23 (2749)


[11:52]

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Kjarajöfnun heitir það hjá hæstv. ráðherra en ASÍ og aðrir aðilar á vinnumarkaðnum eru búnir að fara yfir þessar tillögur og þeir telja að þetta sé ekki mikið til kjarajöfnunar. Hæstv. ráðherra er síðan að kvarta undan því að menn séu búnir að gleyma matarskattinum en það er nú bara liðin tíð. Síðan finnst honum að allir eigi að vera sammála því að vegna þess að það hafi verið í lögum að leggja niður hátekjuskattinn þá sé eðlilegt að tala um að taka hann upp aftur. Hvers vegna gleymir hæstv. ráðherra líka því atriði? Það eru nefnilega allir aðrir á annarri skoðun en hæstv. ríkisstjórn um þennan hátekjuskatt og það er þess vegna sem ríkisstjórnin hefur þurft að bogna í því máli þó hún hafi ekki bognað alveg.
    Ég held að það sé greinilegt af orðum hæstv. ráðherra að hæstv. ríkisstjórn, eða a.m.k. sá hluti hennar sem Sjálfstfl. skipar, finnst nóg komið í kjarajöfnun. Og hæstv. ráðherra fór að tína hér fram einhverjar kannanir sem hefðu verið gerðar á því að á Íslandi væri orðin allt of mikil kjarajöfnun. Ég er hræddur um að það þurfi að skoða þessar tölur eitthvað betur sem hæstv. ráðherra var að nefna. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé til huggunar fyrir þá sem lægstu hafa launin þó þeir séu ekkert voðalega margir sem hafa þau hæstu. Svona tölum eiga menn ekki að sletta fram öðruvísi en sýna allan reikninginn þannig að hægt sé að átta sig á því hvað verið er að tala um.