Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 11:56:29 (2751)


[11:56]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það réttlætir ekki óréttlætið þó það finnist eitthvað verra annars staðar. Mér finnst líka að ég þurfi að koma því að að þessi þula sem hæstv. ráðherra var með í sinni ræðu um það að sjómenn og húsbyggjendur yrðu sérstaklega fyrir barðinu á þessum hátekjuskatti er óþolandi. Það er verið að tala um heimilistekjur fólks sem voru 4,8 millj. eða meira. Og sjómenn eru líka með sjómannaafslátt þar ofan á. Það þarf ekki að segja venjulegu fólki á Íslandi að það sé fólk sem sé í vandræðum með að byggja yfir höfuðið á sér sem hefur slíkar tekjur. Sjómenn, þó svo að þeir eigi allt gott skilið, hafa sinn sjómannaafslátt og þeir þurfa ekki á því að halda að þurfa ekki að borga þessi 5% þegar þeir eru komnir í um 5 millj. kr. tekjur á ári eða fjölskyldur þeirra. Svona röksemdafærsla sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett fram til þess að rökstyðja að það eigi að fella niður hátekjuskattinn er bara ekki tæk í umræðunni á meðan það er ekki hægt að koma til móts við lágtekjufólkið í landinu. Það er ekki hægt að semja við sjúkraliða t.d. um lífvænleg launakjör. Þó að ríkið sé að brjóta jafnréttislög á sjúkraliðum þá fæst það ekki til þess að samþykkja hækkun launa. ( Gripið fram í: Brjóta jafnréttislög?) Já, jafnréttislög vegna þess að ríkið borgar sjúkraliðum af öðru kyni hærri laun annars staðar á landinu en hér á Reykjavíkursvæðinu. Og það munar ekkert litlu, 6--10 þús. kr. Ég tel að þetta sé brot á jafnréttislögunum og hæstv. ráðherra ætti að lesa þau ef hann hefur ekki kynnt sér málið.