Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 14:11:04 (2755)


[14:11]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sl. mánudag urðu hér allítarlegar umræður í þingsalnum um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hún samdi um síðustu helgi og kostaði nokkur átök að því er gaf að skilja á fjölmiðlafréttum, þó að mönnum beri ekki saman um hversu alvarleg þau átök hafi verið. Við höfðum því fengið fregnir af þessum ráðstöfunum í skattamálum áður en sjálft frv. leit dagsins ljós. En nú er það komið og er hér til umræðu. Ég get nú ekki tekið undir þau orð hæstv. fjmrh. að þetta frv. sé sérstaklega einfalt í sniðum og það verði létt verk og löðurmannlegt að afgreiða það út úr efh.- og viðskn. því að hér eru ýmis atriði sem þarf að fara rækilega ofan í, t.d. þetta búsetamál, svo að ég taki nú dæmi, sem er nokkuð sérkennilegt mál að mínum dómi, vegna þess að í fyrra, á allra síðustu dögum þingsins, háði Búseti mikla baráttu fyrir því að komast inn í vaxtabótakerfið. Það var reynt að benda þeim á það að sú leið mundi skila þeim harla litlu en þeir stóðu fast við sitt og þeim var stillt upp gagnvart því að þeir yrðu að velja um annaðhvort vaxtabótakerfið eða húsaleigubætur. Nú er öldin önnur og þeir eru að leita eftir því að fá að vera með sitt fólk inni í báðum þessum kerfum og þetta mál þarf að skoða allrækilega.
    Eins er með hinn svokallaða ekknaskatt eða stóreignaskattinn. Það er ekki allt sem sýnist í þessu máli og þarf auðvitað að skoðast allrækilega. Þannig að ég ætla hér enn einu sinni að harma það hversu mjög hefur dregist að þessi skattafrumvörp komi hér fram. Fyrir utan skattafrv. erum við með til meðferðar frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, lánsfjárlögin. Við eigum eftir tekjugrein fjárlaganna og auk þessa erum við í hv. efh.- og viðskn. með mjög mikilvæg frumvörp til umfjöllunar um bókhald og ársreikninga,

hlutafélög og einkahlutafélög. En það verður bara að koma í ljós á næstu dögum hvernig gengur að vinna þetta og jafnframt hvort við þurfum að kalla saman fundi á milli jóla og nýárs út af þessum málum. Það verður bara að koma í ljós og ekki stendur á okkur nefndarmönnum að vinna, en við getum auðvitað ekki annað en kvartað yfir þessum vinnubrögðum. Og eins og ég kom hér inn á þegar umræður urðu um störf þingsins í morgun, þá vekur það auðvitað furðu að mál eins og ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem allt lá fyrir, það lá allt fyrir fyrir löngu hverju þyrfti að breyta, þá vekur það furðu hversu seint þetta kemur fram og ég bara skil ekki svona vinnubrögð.
    Ef ég vík svo að frv. sjálfu þá er það augljóst þegar farið er í gegnum þetta frv. að hér er um litlar bætur að ræða til láglaunafólks. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að hér er verið að slaka út hundruðum milljóna úr ríkissjóði en það er lítið um tekjuöflun á móti og það sem hér um ræðir eru atriði sem fyrst og fremst koma hátekjufólki og eignafólki til góða. Nú er auðvitað spurning hvernig við skilgreinum hátekjufólk. Ég er ekki sammála því sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns að þessi tekjuviðmiðun, 200--225 þús., séu eitthvað sérstaklega háar tekjur og ég hygg að í hópi þeirra sem borga hátekjuskatt séu t.d. allnokkrir opinberir starfsmenn sem vinna mikla yfirvinnu og þurfa að vinna þá vinnu. Hins vegar finnst mér að einhvers staðar þurfi að draga mörkin og það er spurningin hvar þau mörk eru. Í sjálfu sér fagna ég því að það skyldi fallið frá því að fella niður þennan skatt vegna þess að ástandið er einfaldlega þannig í málefnum þjóðarinnar og launamálum þannig háttað að það hefði horft afar sérkennilega við að fella niður hátekjuskattinn meðan verið er að skattleggja hrikalega lágar tekjur og mér finnst það í raun og veru vera stóra málið í þessu, að það skuli ekki vera komið hér til móts við láglaunafólk.
    Sú breyting sem fyrirhugað er að gera á persónuafslætti gerir ekki meira en rétt að halda í horfinu þannig að skatthlutfall fólks verður mjög svipað því sem það er á þessu ári gangi þær launahækkanir eftir sem reiknað er með í forsendum fjárlagadæmisins. En það er svo sem ekkert sem segir að það gangi eftir.
    Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar ber yfirskriftina, með leyfi forseta: ,,Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun.`` Nú hefur ASÍ látið í ljós álit sitt á þessum aðgerðum og það verður ekki séð af þeim ummælum að þeir telji að hér sé um kjarajöfnun að ræða eða að þessar aðgerðir muni sérstaklega verða til þess að auka eða stuðla að frekari stöðugleika. Það eru mjög athyglisverð dæmi sem hagfræðingur Alþýðusambandsins tekur í sinni útlistun á þessum aðgerðum og bendir á m.a. að það að draga úr tvísköttun á lífeyri komi fyrrv. ráðherrum og þingmönnum til góða sem segir okkur auðvitað það að þessi aðferð sem hér er farin kemur fyrst og fremst þeim til góða eða kemur þeim meira til góða sem hafa hærri lífeyri. Það er því allt á sömu bókina lært í þessum aðgerðum.
    Þeir benda á fleira í sinni umfjöllun. Það segir t.d. í frétt í Tímanum í dag, með leyfi forseta:
    ,,Þannig hafa þessar tillögur að mati ASÍ engin áhrif á afkomu þeirra sem eru allra tekjulægstir og eignaminnstir. Hækkun persónuafsláttar um 500 kr. bætir ekki afkomu þeirra sem eru undir skattleysismörkum. Aftur á móti lækkar skattbyrðin með hækkandi tekjum og meiri eignum.
    Sem dæmi þá fá einstaklingar með 250 þús. kr. tekjur á mánuði um 1.750 kr. minni skatta á mánuði. Ef þeir eiga 15 millj. kr. skuldlausa eign yrði skattalækkunin tæplega 4.900 kr. á mánuði. Gagnvart hjónum með 500 þús. kr. mánaðarlaun nemur skattalækkunin frá 3.500 til tæplega 9.800 kr. á mánuði. Sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, þ.e. eftir skatt, vegur þessi skattalækkun 3% á mánuði en ekkert hjá þeim tekjulægstu.``
    Það gefur auga leið, virðulegi forseti, að þetta álit og þessi úttekt Alþýðusambandsins, sem við í hv. efh.- og viðskn. munum að sjálfsögðu fara yfir og kalla til bæði fulltrúa Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, en þessar yfirlýsingar segja okkur auðvitað það að Alþýðusambandið sér ekki í þessum aðgerðum leið til kjarajöfnunar frekar en við hin sem höfum tjáð okkur hér um þessi mál. Þannig að hér er auðvitað verið að gera út á væntanlegan efnahagsbata sem engin vissa er fyrir að skili sér. Hér er verið að veita peningum frá ríkissjóði til hinna efnameiri og hér er auðvitað verið að halda áfram á þeirri braut sem einkennt hefur þessa ríkisstjórn að það er ekki horft á hagsmuni hinna lægst launuðu.
    Á síðastliðnu ári var skattprósentan hækkuð og reyndar var virðisaukaskattur á matvælum lækkaður, en sú hækkun kemur þeim best sem eyða mestu í mat. Og vegna ummæla hæstv. fjmrh. hér fyrr í morgun, þá vil ég rifja það upp að það kom fram í skýrslunni um skuldastöðu heimilanna frá því í vor að skuldir og vextir vega svo ótrúlega þungt í útgjöldum láglaunaheimila. Og þegar við vorum að skoða þessi mál öll í fyrra, þá kom manni á óvart hvað einmitt matvæli vega létt í útgjöldum heimilanna. Ég held að við höfum ákveðnar ranghugmyndir um það í hvað tekjur heimilanna fara.
    Eins og ég segi hér þá hefur skattastefna þessarar ríkisstjórnar gengið út á það að lækka skatta á fyrirtækjum og velta þeim yfir á almenning í landinu. Barnabætur hafa verið lækkaðar, vaxtabætur hafa verið skertar, það hefur verið komið á þjónustugjöldum og skólagjöldum o.s.frv., skattprósentan hækkuð og það er alveg ótvírætt að skattbyrðin liggur orðið mjög þungt á heimilunum í landinu. Það er ekki nokkur vafi. Það heyrir maður alls staðar, að sú aðgerð sem þurfi að grípa til sé að létta skattbyrði af heimilunum, en því miður er ekki farin sú leið hér. Hér er afar fátt sem kemur heimilunum til góða.
    Ég vil aðeins koma inn á þessa fullyrðingu hæstv. fjmrh. frá því í morgun um launamuninn, um að launamunur hér á landi sé aðeins 2,7-faldur þegar allt hefur verið dregið frá. Mér finnst þetta alveg ótrúlegar tölur og mun óska eftir frekari upplýsingum um þetta í efh.- og viðskn. Ég veit ekki hvar þetta hefur komið fram, hvort þetta kom fram í því sem Þjóðhagsstofnun sendi frá sér um tekjur 1992 og 1993, held ég. Þetta eru alveg ótrúlegar tölur þegar maður veit að launamunur, heildarmunur á launum hér á landi er allt að tuttugufaldur. En þegar teknir eru svona hópar þá gefa meðaltölin ákveðna mynd. Og þetta eru mjög ótrúlegar tölur í ljósi þess hve mörg heimili eiga í vandræðum og í ljósi þess, eins og ég hef nefnt áður í þessum umræðum, að á tveimur síðustu árum hefur félagsleg aðstoð Reykjavíkurborgar tvöfaldast. Félagsleg aðstoð hefur tvöfaldast á tveimur árum og mun nema á þessu ári um 530 millj. kr. Þetta segir okkur auðvitað það hversu margir eiga í miklum erfiðleikum. Launin eru allt of lág og það hefur eins og við vitum dregið úr yfirvinnu og margir eiga við atvinnuleysi að stríða.
    Áður en ég fer í einstakar greinar frv. þá vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. fjmrh. hvað þetta skattadæmi kostar í heild. Hvað er verið að veita mikið út úr ríkissjóði? Við erum ekki eingöngu með þetta frv. hér, við erum líka með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, við erum með frv. um barnaskattinn. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur þessar tölur við höndina, en fyrir mér er það alls ekki ljóst hvað er verið að auka hallann mikið með þessum ráðstöfunum. Síðan eru auðvitað eftir ýmsar ákvarðanir í fjárln. og þar ýmis óleyst dæmi þannig að heildartalan er alls ekki ljós. En sem innlegg í þessa umræðu vildi ég gjarnan að hæstv. fjmrh. upplýsti okkur um það hver talan er á þessu augnabliki. Hvað kostar þetta og fyrir hvern er verið að gera þessar ráðstafanir? Það er stóra spurningin.
    Ég vil að sjálfsögðu minnast á það að sú atvinnusköpun sem ríkisstjórnin ætlar að standa fyrir og hefur boðað fyrir lifandis löngu, einkum í vegagerð, er af hinu góða og ég tel það vera hlutverk og skyldu ríkisvaldsins að standa fyrir atvinnusköpun á erfiðum tímum. En auðvitað er áhyggjuefni að ekki er leitað leiða til þess að ná í tekjur á móti. Bensínskatturinn mun væntanlega skila um 300 milljónum á næsta ári en það er ekkert sem kemur á móti öllum þessum auknu útgjöldum og auðvitað er verið að auka hallann og skuldirnar, það er verið að velta yfir til framtíðar auknum vanda.
    Ég ætla þá að víkja að sjálfu frv. Þar eru ýmis atriði sem vert er að velta fyrir sér og ég ætla ekki að vera að fara hér ofan í einstaka smáliði. En ég nefni sérstaklega eitt atriði sem er í 2. gr. c-lið sem kemur að tvísköttun lífeyris. Í þeirri kynningu sem við fengum í hv. efh.- og viðskn. voru menn mikið að velta fyrir sér því aldurstakmarki sem hér er sett, þ.e. 70 ára aldrinum, og hvort það sé í rauninni réttlætanlegt gagnvart þeim hópum sem byrja að taka lífeyri áður. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það hafi verið skoðað að fólk fengi einfaldlega þessi 15% dregin frá greiddum lífeyri um leið og fólk byrjar að taka lífeyri. Þarna er um hópa eins og sjómenn að ræða, um opinbera starfsmenn sem eru á 95 ára reglunni. Hefur verið reiknað út hvað það mundi kosta? Þetta þurfum við að fá upplýst í hv. efh.- og viðskn. Eftir því sem fram kom á fundi efh.- og viðskn. munar tvísköttunin ríkissjóð um 200--300 millj. kr., þ.e. þetta er 200--300 millj. kr. tekjumissir, en það væri mjög forvitnilegt að fá að vita hvort menn hafi skoðað þann möguleika og reiknað út hvað það mundi þýða að allir þeir sem taka lífeyri fengju að beita þessari reglu.
    Síðan vil ég taka undir d-liðinn í 2. gr. þar sem verið er að fresta eða hætta við að sinni að lækka afsláttinn vegna hlutafjárkaupa. Auðvitað orkar tvímælis hvort veita á afslátt og það er augljóst mál að sumir nota þetta til þess að lækka skattana sína frekar en til að ýta undir kaup á hlutabréfum. En það er staðreynd að það þarf að ýta undir fjárfestingu í atvinnulífinu og þessi leið er hvorki betri né verri en aðrar.
    Það að leigutekjur verði að hluta til skattfrjálsar tengist því að koma á húsaleigubótum og á að verða til þess að hvetja eigendur íbúða til þess að leigja íbúðir sem þeir eiga og nota ekki sjálfir. Ég held að þetta sé til bóta en auðvitað verður að koma í ljós hvað þetta þýðir. Það eru ákveðnar áhyggjur af því að húsaleigubæturnar verði til þess að hækka húsaleigu en þetta atriði ætti að koma þarna aðeins á móti en auðvitað er ekki gott að átta sig á því hvað þetta þýðir þegar fram í sækir.
    Í frv. er að finna ýmsar tæknilegar breytingar og breytingar sem skipta máli, eins og hvernig má nýta rekstrartap þar sem er verið að þrengja hjá fyrirtækjum sem hafa mátt nýta sér það og hefur að margra dómi verið farið heldur frjálslega með.
    Þá kem ég aftur að Búsetamálinu og þeim breytingum sem verið er að gera á vaxtabótunum. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að hér er um ýmis tæknileg atriði að ræða sem við verðum að fara ofan í í hv. efh.- og viðskn. og erfitt er að átta sig á út frá þeim greinum hér hvað þýða. En auðvitað þarf að skoða málefni Búseta mjög vandlega og ekki er hægt að horfa fram hjá því að þar innan dyra er fólk í miklum greiðsluerfiðleikum, sérstaklega þeir sem hafa keypt sér íbúðir í almennri kaupleigu og eiga mjög erfitt með að standa þar skil. Ég heyri á forráðamönnum Búseta að þar eru komnar upp miklar áhyggjur yfir stöðunni. En hvort sú leið er fær sem þeir leggja til, þ.e. að greint verði á milli þeirra sem búa í félagslegri kaupleigu og hinna sem búa í almennri kaupleigu og annar hópurinn falli undir húsaleigubætur, hinn undir vaxtabætur, það verðum við einfaldlega skoða og ég óttast að sá tími sem við höfum til stefnu sé býsna stuttur.
    Í greininni er einnig vikið að skuldajöfnun milli ýmissa bóta, þ.e. ef menn skulda meðlög eða skatta sé heimilt að gera bætur upptækar upp í þessar skuldir. Ég get nú ekki annað en sagt það, virðulegi forseti, að mér finnst að karlmenn, sem eru feður barna, sem þeir hafa ýmist eignast í lausaleik eða fráskildir karlmenn séu ekki of góðir til að borga með börnum sínum. Ég skil ekki þá vorkunnsemi, sem kemur alltaf upp þegar meðlagsgreiðslur koma til umræðu, þá rís hver þingmaðurinn upp á fætur öðrum fullur samúðar. Menn verða einfaldlega að vera ábyrgir gerða sinna. (Gripið fram í.) Nei, ég er ekki að tala um

hæstv. fjmrh. enda er hann að leggja það til að það verði heimilt að taka t.d. barnabætur upp í meðlagsskuldir og við vitum það að þetta er mikið vandræðamál, það eru gríðarlegar meðlagsskuldir. ( Gripið fram í: Það er ekki skulda . . .   ) Þetta er víst hérna inni í frumvarpinu. ( Fjmrh.: Nei, það er misskilningur.) Nú, fjmrh. heldur því fram að ég sé að misskilja greinina en þeir gerðu okkur nú grein fyrir þessu í gær. ( Fjmrh.: Nei, það kemur væntanlega tillaga . . .  ) Nei, hæstv. fjmrh., það segir í 7. gr. þar sem er verið að tala um barnabótaaukann: ,,Barnabótaauki skal ákveðinn með álagningu, sbr. X. kafla, og greiðist þá til framfæranda barns að teknu tilliti til skuldajöfnunar skv. 10. mgr.`` Þótt útfærslan á þessu sé ekki hér þá er þetta hér með komið inn í þessi lög og meiningin er að fara þessa leið og ég er að lýsa yfir stuðningi við það. Mér finnst að ástæða sé til þess að taka nokkuð hart á því ef menn greiða ekki meðlög. Því fylgir mikil ábyrgð að eiga börn og mönnum ber skylda til þess að framfæra börn sín og engin ástæða er til þess að vera með einhverja vorkunnsemi.
    Þá kemur röðin að stóreignaskattinum. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá fjmrn. greiddu 1.107 einstaklingar greiddu stóreignaskatt á síðasta ári. Annars vegar greiddu 649 einstaklingar skertan skatt og hins vegar greiddu 458 einstaklingar 0,75% skatt, þ.e. 458 einstaklingar sem hafa meira en 2 millj. kr. í árstekjur og eiga eignir yfir 10 millj. kr. Samkvæmt þessum sömu upplýsingum eru það rúmlega þúsund heimili þar sem um hjón er að ræða sem greiða þennan skatt, ýmist skertan eða 0,75% eignarskatt. Þarna er um dágóðan hóp að ræða sem á að létta af sköttum. Þegar maður horfir á tekjutenginguna held ég að menn ættu að fara sér hægt í þessum málum. Ég áskil mér allan rétt til þess að skoða þetta mál mjög rækilega og að við fáum betri sundurgreiningu á þessum tölum og reynum að átta okkur betur á því hvað er þarna um margar ekkjur að ræða, hvar er óréttlætið í skattlagningunni. Ég held nefnilega að með þeirri tekjutengingu, sem var sett inn á sínum tíma, sé ekki um svo mikið óréttlæti að ræða.
    Ég ætla að hlaupa yfir allnokkur atriði og koma að ákvæðum til bráðabirgða þar sem er einmitt um að ræða ýmis af loforðum ríkisstjórnarinnar úr hinni frægu yfirlýsingu. Þar er ýmislegt gott að finna eins og flýtifyrningarnar sem ég held að sé ágætis mál, þ.e. að reyna að ýta undir fjárfestingar í atvinnulífinu, ekki veitir nú af. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á það í því sambandi að náttúrlega hefur verið létt alveg gríðarlega miklum sköttum af fyrirtækjum í landinu. Það hefur verið meginstefna ríkisstjórnarinnar að létta sköttum af fyrirtækjum án þess t.d. að sveitarfélögunum hafi nú verið að fullu bætt það tekjutap, eins og Reykjavíkurborg svo dæmi sé tekið, sem hefur orðið fyrir gríðarlegu tekjutapi vegna þess að aðstöðugjaldið var lagt niður. Þarna er um skattlagningu að ræða og lækkun á sköttum algjörlega óháð afkomu fyrirtækjanna þannig að þetta hefur ekki síst komið til góða stórum fyrirtækjum sem skilað hafa miklum gróða. En þar kemur reyndar á móti að bætt afkoma fyrirtækjanna skilar síðan meiri skatttekjum inn í ríkissjóð eins og fjárlagafrv. ber með sér.
    Ég minntist áðan á svokallaðan hátekjuskatt og ég fagna því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi komist að samkomulagi um að halda honum áfram enda hefði það nú verið eins og köld vatnsgusa framan í launafólk í landinu að afnema hann, miðað við það að hér er ekki um neinar aðgerðir að ræða sem koma láglaunafólki til góða. En það er alveg með ólíkindum hvað þessi svokallaði hátekjuskattur skilar litlu. Það eru ekki nema 300 milljónir sem skatturinn skilar og segir okkur það að allur meginþorri launafólks er með tekjur á bilinu 70--80 þús. kr. og upp í 150--160 þús. kr. Og það er auðvitað sá stóri hópur sem borgar skatta í landinu.
    Virðulegi forseti. Það hefur gefist afar skammur tími til þess að fara yfir frv. Eins og oft þegar farið er að kafa ofan í skattamálin kemur í ljós að ekki er allt sem sýnist. En þetta árið, fjórða ár hæstv. fjmrh. í sætinu í fjármálaráðuneytinu, er allt í einu söðlað um og nú er farið að veita stanslaust út úr ríkissjóði. ( Gripið fram í: Góðir menn.) Já, góði ráðherrann, góði jólasveinninn sem veitir út úr ríkissjóði. En þar er sá hængur á að verið er að ausa peningum í þá sem eiga nóg fyrir. Það er ekki mikið réttlæti eða kjarajöfnun sem í þessu felst. Ég segi það enn og aftur að þetta er nokkuð merkilegur ferill þegar horft er á þessi fjögur ár í ríkisstjórninni. Hæstv. fjmrh. hófst handa með miklum niðurskurði. Hann kom á þjónustugjöldum og skólagjöldum. Hann lækkaði skattprósentuna, hann skerti barnabætur og vaxtabætur og hann hefur aukið skattheimtu, hann hefur aukið álögur á launafólk í landinu.
    En nú bregður svo við að dæminu er að því leyti snúið við að í stað þess að reyna nú að sýna aðhald, þá er greinileg slökun á ferðinni og það mátti sjá strax í fjárlagafrv. að þar var lítil tilraun gerð til þess að halda utan um ríkisútgjöldin. Það er auðvitað ekki annað hægt í þessu samhengi en benda á þennan skollaleik sem hér fer fram ár eftir ár, þar sem það eru settar einhverjar tölur í fjárlagafrv. sem við bendum á að standist engan veginn og svo er auðvitað komið með lánsfjárlög og aukafjárlög þar sem þarf að ná þessum peningum inn sem aldrei var hægt að spara. Það var aldrei nokkur leið að spara þetta fé með þeim aðferðum sem ríkisstjórnin beitti. Það þarf ekki annað en skoða heilbrigðiskerfið og tölurnar sem þar er að finna þar sem enn einu sinni stöndum við frammi fyrir þessari hringavitleysu. Það kemur m.a. fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það á að sameina Borgarspítalann og Landakot og í það á að setja 250 millj. plús 100 millj. í launahækkanir meðan okkur berst neyðaróp frá Borgarspítalanum sem segir að það vanti 372 millj. til þess að geta haldið óbreyttum rekstri á næsta ári og að þessi sameining Borgarspítala og Landakots kosti tugi milljóna ef ekki hundruð milljóna. Þannig að hér er ósköp einfaldlega enn einu sinni verið að leika sama skollaleikinn. Nú á að kaupa sér frest fram yfir kosningar, en ég er ansi hrædd um að eftir þær stöndum við frammi fyrir mjög alvarlegum dæmum. Og ég get svo sannarlega tekið undir það sem fram kom í ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar á mánudagskvöldið, þar sem hann fór yfir skuldir ríkisins og þá gríðarlegu skuldaaukningu sem hér hefur orðið á undanförnum 6--7 árum. Það er hægt að fara nokkuð langt aftur í tímann, en skuldir íslenska ríkisins eru orðnar mjög miklar á sama tíma og við stöndum frammi fyrir því að það er erfitt að finna leiðir til tekjuöflunar. Og það er auðvitað bara af því að það eru að koma kosningar sem ríkisstjórnin er svona brött í því að spá efnahagsbata. Auðvitað hefur orðið bati hjá fyrirtækjunum sem hefur verið létt af sköttum. Auðvitað er bati þar. En batinn er ekki hjá sveitarfélögunum, hann er ekki hjá heimilunum og það er ekki hægt að sjá annað en þessir spádómar um efnahagsbata séu því miður byggðir á sandi. Því miður er mikil hætta á því að hann sé byggður á sandi vegna þess hve lítið þarf út af að bregða. Þá er ég að vísa til Smuguveiðanna, til loðnuaflans, þessara happdrættisvinninga sem við höfum svo ótrúlega oft fengið inn í okkar þjóðarbú en er auðvitað ekki hægt að setja traust sitt á. Allt þetta dæmi er því afar ótraust og þar af leiðandi finnst mér orðið um ábyrgðarleysi að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar, að vera að veita peningum til stóreignafólks, létta af stóreignafólki, en gera ekkert fyrir þá sem verst standa. Ég vona að fólk muni þetta þegar það kemur að kjörborðinu og það launi ríkisstjórninni lambið gráa.