Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 15:54:53 (2759)


[15:54]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil endurtaka að við teljum að það sé nauðsynlegt að skapa hér samstarfsvettvang stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins um leiðir til kjarajöfnunar. Að það sé ástæða til þess að þeir taki þátt í því við þessar aðstæður. M.a. vegna þess að það eru kosningar hér í vor. En ríkisstjórnin getur ekkert gengið út frá því að við þessar aðstæður sé stjórnarandstaðan tilbúin til að fara inn í slíkt starf á þeirra forsendum. Ef ríkisstjórnin er tilbúin til að ræða þær forsendur við okkur og komast þá að sameiginlegri niðurstöðu um þær þá erum við tilbúnir til að taka þátt í því starfi. En ég vona að hæstv. fjmrh. skilji það, sem mér fannst hann nú ekki skilja, að það er ekki eðlilegt að við þessar aðstæður séu forsendurnar ákveðnar af tveimur stjórnmálaflokkum án þess að tala um þær við hina. Þannig skapa menn ekki neina samstöðu. Það er ekkert annað en sýndarmennska. Það er ekkert annað en að reyna að fela ágreining milli stjórnarflokkanna. Og við höfum engan áhuga á því að gerast einhver söltunarstöð fyrir Alþfl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Þeir vilja setja þetta mál í salt vegna þess að þeir koma sér ekki saman um það og það er staðreynd að ríkisstjórnin var næstum því sprungin á þessu. En ef það er hugmyndin að skapa breiða samstöðu um málið þá er a.m.k. nauðsynlegt að ræða það áður.