Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:16:12 (2772)


[17:16]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skil vel að hv. þm. vilji ekki ræða samanburðinn á skattreikningi þessarar ríkisstjórnar og þeirrar sem áður sat. En ég vil gjarnan taka þátt í þessari umræðu sem hv. þm. bryddar á núna. Það hefur nefnilega verið gerður ítarlegur samanburður á fylgni þjóðartekna annars vegar og kaupmætti ráðstöfunartekna hins vegar á þessum tveimur tímabilum. Það kemur í ljós að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækkaði verulega miklu meira frá 1988--1991 heldur en þjóðartekjurnar. Hins vegar hefur verið góð fylgni milli þjóðartekna og ráðstöfunartekna frá 1991 til dagsins í dag. Og það sem meira er er að á þessu ári, frá janúar til nóvember, sýna staðgreiðsluskil að það hefur orðið kaupmáttaraukning, með öðrum orðum, laun hafa hækkað umfram verðlag á þessu tímabili og þetta verður að sjálfsögðu skýrt betur á næstunni. Þetta þýðir að batnandi efnahagur íslensku þjóðarinnar kemur m.a. fram í því að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur verið að aukast á yfirstandandi ári. Það er þess vegna, virðulegur forseti, sem sjálfstæðismenn og þeir sem styðja þessa ríkisstjórn geta borið höfuðið hátt þegar um er að ræða samanburð á milli tveggja ríkisstjórna, þessarar sem nú situr og hinnar sem starfaði hér fyrir rúmum þremur árum og þar á undan. Þess vegna getum við óhræddir gengið til kjósenda og sagt: Berið þið saman okkar störf og störf hinna, við þolum þann samanburð mjög vel.