Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:19:10 (2774)


[17:19]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það er alltaf jafnmerkilegt að hlusta á umræður um skattamál, sérstaklega þegar hæstv. fjmrh. fer í stólinn og hefur upp sína þulu sem við höfum heyrt margoft um það að skattar hafi ekki hækkað á þessu kjörtímabili.
    Ég hef ekki fyrir framan mig neinn samanburð við fyrra kjörtímabil og það er auðvitað rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að kaupmáttur dróst saman á síðasta kjörtímabili. En málið er það að hann hefur bara haldið áfram að dragast saman á þessu kjörtímabili. Í spá Þjóðhagsstofnunar fyrir næsta ár er því spáð að kaupmáttur haldi áfram að dragast saman. Þannig að sá vandi sem við stöndum frammi fyrir er langvarandi samdráttur eins og hæstv. fjmrh. veit og skilur og viðurkennir. Langvarandi samdráttur. Það er talað um sjö ára samdráttartímabil. Þetta safnast auðvitað saman í sífellt erfiðari kjörum launafólks. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur alls ekki bætt þar um, alls ekki. Hún hefur hækkað skatthlutfallið, hún hefur komið á þjónustugjöldum sem þeir taka aldrei með. Þeir taka þjónustugjöldin aldrei inn í dæmið þegar þeir eru að bera saman skattaálögur á þessu kjörtímabili og því síðasta, hvað þá skólagjöld og annað sem fólk hefur orðið að taka á sig.
    Við verðum því að horfa á þessa þróun í heild og það skiptir engu máli hvort það var þessi ríkisstjórn eða sú síðasta sem dró kaupmáttinn saman einu prósentinu meira eða minna. Staðreyndin er sú að við stöndum frammi fyrir mjög erfiðu ástandi launafólks sem m.a. kemur fram í ólgu á vinnumarkaðnum og verkföllum sem nú standa yfir.
    Við stöndum frammi fyrir því að sveitarfélögin í landinu þurfa að veita sífellt meira fé til félagslegrar aðstoðar. Vanskil eru að aukast í húsbréfakerfinu, hjá félagslega húsnæðiskerfinu og í bönkunum og þetta er vandamál sem við þurfum að horfast í augu við. Ekki að vera í sífelldum samanburði um eitt eða hálft prósent meira eða minna, það er ekki málið, heldur það hvernig á að taka á þessum vanda og það er staðreynd sem hér kom fram hjá síðasta ræðumanni að Sjálfstfl. hefur ekki staðið við þau loforð sín að lækka skatta. Það er ósköp einfalt mál. Lái honum hver sem vill, það hefur ekki verið hér það ástand að það hafi boðið upp á skattalækkanir, ég verð nú bara að segja það. Hins vegar hefur ekki verið farin réttlát leið. Það hefur ekki verið réttlát sú leið að velta sköttum af fyrirtækjum yfir á almenning í landinu. En það voru að vísu flestir sem litu þannig á fyrir síðustu kosningar að það yrði unnt að hækka persónuafslátt og lækka skattleysismörk. Að mínum dómi þá hefði átt að gera það og fara þá leið að hækka skatta á hálaunafólki og að koma á fjármagnstekjuskatti sem þessi ríkisstjórn hefur frestað ár eftir ár og er enn að fresta. Þannig að menn verða nú bara að horfast í augu við þann veruleika.
    Hér er eitt frv. til umræðu sem að mínum dómi horfir nú frekar í réttlætisátt. Það var mikið upphlaup út af skattamálum barna á sínum tíma og fjmrh. fékk blóðugar skammir fyrir það að ætla að fara að framfylgja lögum. Í þeirri umræðu sagði ég og segi enn að það sem skiptir mestu máli er að allir sitji við sama borð, að það gildi sama reglan um öll börn. Ég benti einmitt á þessa leið í umræðunni að einfaldlega heimila það að börn og unglingar hafi tekjur upp að einhverju vissu marki. Hvort þessar 75 þús. kr., sem hér er stungið upp á, er rétt tala eða ekki, það er auðvitað erfitt að átta sig á því. Maður þarf að hafa eitthvert yfirlit um tekjuöflun barna og unglinga til að átta sig á því. Ég held að það hafi komið fram í umræðunni þá hverjar eru meðaltekjur barna undir 16 ára aldri. Það verður að segjast eins og er að tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum er eiginlega ótrúlega mikið. Ég hefði nú ekki ímyndað mér að þetta væri svona mikið, 30 millj. kr. áætla þeir hér í frv. Þetta er drjúgt og vekur auðvitað upp spurningar um vinnu barna.
    Ég get ekki alveg tekið undir það sjónarmið sem hér kom fram í umræðunni um daginn að þessi mikla vinna barna og unglinga hér sé eitthvert himneskt uppeldistæki sem beri að varðveita. Það hefur verið bent á það að við göngum of langt í því að leyfa það að börn vinni og þau byrja ótrúlega ung að vinna fyrir sér. Ég get nefnt að ég þekki dæmi þess frá þeim tíma þegar ég var kennari í framhaldsskóla að þá voru þess dæmi að foreldrar litu þannig á að 16 ára gömul börn ættu einfaldlega að vinna fyrir skólagöngu sinni vegna þess að þau höfðu unnið á sumrin frá því að þau komust á unglingsár og foreldrar höfðu einfaldlega það sjónarmið að krakkarnir ættu bara að vinna og þau ættu að vinna með skóla. Þetta fannst mér afar sérkennilegt að heyra en þetta eru gömul viðhorf. Það eru ríkjandi hér mjög gamaldags viðhorf gagnvart börnum á margan hátt og þeim er gert að taka meiri ábyrgð í okkar samfélagi en tíðkast yfirleitt annars staðar. Ég held að það væri ástæða til þess að skoða vel hvaða kröfur eru hreinlega gerðar til barna og unglinga þegar vinna á í hlut. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikill kostur á íslensku samfélagi að unglingar kynnist vinnumarkaðnum og ég held að við getum öll litið í eigin barm hvað það varðar, hvað maður öðlaðist dýrmæta reynslu við það að vinna í fiski eða í búðum og á hótelum og allt þetta sem maður var að gera á sumrin. En það verða auðvitað að vera þar ákveðin takmörk á.
    Mergurinn málsins er sá, virðulegur forseti, að ég styð þetta frv. Ég held að hér sé verið að fara

rétta leið. Ég held að þetta muni einfalda mjög vinnuna varðandi þetta þó ég sjái ekki reyndar alveg fyrir mér hvernig þetta gerist. Tökum sem dæmi útgáfufyrirtækin, við skulum segja dagblað, samt sem áður hlýtur að verða að gera þær kröfur að tekjur barna séu gefnar upp, eða hvað, hæstv. fjmrh.? Það hlýtur að þurfa að gera þessu öllu skil eins og lög gera ráð fyrir. Það hafa blöðin ekki gert.
    Þetta frv. kallar auðvitað á breytingar hjá þeim fyrirtækjum sem ráða börn og unglinga til starfa. En mergurinn málsins er sá að hér er verið að taka á þessum vanda og ég held að það sé réttlátt og það auðveldi framkvæmd þessa máls að leyfa þarna skattfrjálsar tekjur og við verðum bara að sjá hvernig þetta gefst.