Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:28:09 (2775)


[17:28]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Forsaga þessa máls í Alþingi og stjórnkerfinu er að mínu mati afar sérstæð. Ég man varla eftir því þau ár sem ég hef setið á þingi að hafa orðið vitni að því að sjá tvo jafnreynda þingmenn, sem báðir hafa gegnt fjármálaráðherraembættum, hlaupa eins illa á sig í einu máli og einni umræðu og hæstv. núv. fjmrh. og hv. 8. þm. Reykn., Ólaf Ragnar Grímsson, þegar þetta mál var tekið upp að frumkvæði hæstv. fjmrh. utan dagskrár fyrir nokkrum vikum. Ég verð að segja að ég skildi hvorki upp né niður um hvað málið snerist þá. Eins og ég sagði í þeirri umræðu þá lá þetta mál kristaltært fyrir. Allar tekjur barna 16 ára og yngri eru samkvæmt lögum í dag skattskyldar, eiga að bera 4% til ríkisins og 2% til sveitarfélaga. Þetta lá allt fyrir. Og ég sagði þá í þeirri umræðu líka að ef menn ætluðu að gera einhverjar breytingar á þessu þá væri ekki hægt að gera það öðruvísi en vera með eitthvert frítekjumark sem gengi yfir alla línuna. Það var náttúrlega fáránlegt að vera að einangra þessa umræðu við tekjur af blaðsölu. Það hefur og komið á daginn að þetta var eina leiðin sem hægt var að fara í þessu.
    Ég tek undir með hv. þm. Finni Ingólfssyni að eins og þetta mál hefur þróast þá styð ég þetta frv. Það er svo aftur annað mál að mér finnst margt benda til þess að það hefði verið ástæða til að hafa þessi mál óbreytt og ég tel að það hafi ákveðið uppeldislegt gildi að börn 16 ára og yngri greiði lága prósentutölu af sínum tekjum í skatt til ríkisins.
    En eins og þetta mál hefur þróast og eins og þessi umræða fór öll úr böndunum þá er sjálfsagt eina leiðin til að afgreiða þetta mál í þessu formi. Því málið sneri þannig að meira að segja hæstv. forsrh. sem hæstv. fjmrh. kallaði --- hann talaði um suma hér áðan. Að sumir hefðu álitið að fjmrh. gæti ráðið þessu með tilskipunum. Það fór ekkert milli mála hverjir þessir sumir voru. ,,Sumir`` voru hæstv. forsrh. sem gaf út tilskipun í sjónvarpi þess efnis að hæstv. fjmrh. skyldi sjá til þess að blaðsölubörn yrðu ekki skattlögð. Vitnaði þar í hliðstæð ummæli fyrir 20 árum síðan frá Bjarna heitnum Benediktssyni en opinberaði um leið vankunnáttu sína því hæstv. forsrh. virðist ekki hafa vitað að frá því að Bjarni heitinn Benediktsson gaf út sína tilskipun þá hafði sú breyting orðið að á þeim tíma áttu samkvæmt lögum tekjur barna að leggjast við tekjur foreldra og skattleggjast sem slíkar. En eins og hér hefur komið fram þá hefur þessi 6%-regla verið í gildi frá 1980. Það er með ólíkindum hvað sumir sluppu vel frá þessari yfirlýsingu. Kannski að hluta til vegna þess að fjölmiðlar höfðu ekki áhuga á þessu því þáttur fjölmiðla og sérstaklega DV í þessu máli er afar sérstæður. Því blaði ferst nú að mínu mati ekki vel að vera með siðferðispredikanir eftir þá umfjöllun þar sem blaðinu var beitt dag eftir dag af fullum þunga í þágu þrengstu eiginhagsmuna blaðsins því blaðið hafði árum saman farið fram hjá lögum og reglum og ekki gefið þessar tekjur upp. Það gilti einu hvort það voru blaðsölubörn, fullorðnir eða umboðsaðilar. Þannig að að mínu mati var margt afar sérstakt í þessari umræðu og kannski sérstaklega þáttur þessa fjölmiðils. Morgunblaðið sá þó sóma sinn í því að fara ekki offari í málinu.
    Þannig kemur þetta mál nú fyrir frá mínum bæjardyrum séð. Og eins og ég sagði í upphafi míns máls þá styð ég það að þetta verði afgreitt þó svo að ég hefði séð fyrir því full rök að þetta hefði verið látið liggja óhreift. En forsaga málsins er sjálfsagt þannig. Það eru margir búnir að taka stórt upp í sig, m.a. hæstv. forsrh., og ég býst við að hæstv. fjmrh. vilji hlífa honum við rassskelli í málinu. Það að leggja á þessa lágu skattprósentutölu sem væri þá á allar tekjur barna hefur væntanlega átt að þjóna þeim tilgangi að gera þetta kerfi einfalt. Það væri lág skattprósentutala sem gengi yfir alla línuna. Það var í sjálfu sér ekkert í þessu sem kemur þeim á óvart, alla vega úti um land, sem hafa staðið fyrir einhverjum rekstri og staðið fyrir því að draga samviskusamlega þennan 6% skatt af tekjum barna.
    Hæstv. fjmrh. var síðan hér með eilítinn talnaleik um skattastefnu þessarar ríkisstjórnar. Það má margt segja um hana og það hef ég gert fyrr í dag. Staðreyndir málsins eru náttúrlega þær að þegar þessi ríkisstjórn tók við þá var skattahlutfall í staðgreiðslu 39,79% en er nú 41,84%. Hæstv. fjmrh. sagði að það væri fyrst og fremst hækkun á útsvarinu. Það er að nokkru leyti rétt en breytingin á skatthlutfalli í staðgreiðslu, þ.e. tekjuskatturinn, er það að það hefur farið úr 32,8% upp í 33,15% þannig að það hefur vissulega orðið hækkun þar líka.
    En það sem er alvarlegast í skattastefnu núv. ríkisstjórnar er að framkvæmdin hefur einkennst af því eins og ég sagði hér í dag að plokka fleiri og fleiri göt á þá flík. Síðan er tveim árum seinna komið með bót til að setja yfir gatið svo ég taki nú bara dæmið um breytinguna á afslætti vegna hlutafjárkaupa þar sem nú er verið að koma til þess að laga það gat sem sett var á fyrir tveim árum síðan. Það er þetta

sem er það alvarlega. Og það er búið að hræra svoleiðis í vaxtabótum og barnabótunum án nokkurra markmiða að við erum komin með það eins og ég sagði hér í dag að jaðarskattar á til þess að gera lágar tekjur, alls ekki háar tekjur, eru komnir upp í 70%. Þetta er hrein ávísun á svarta atvinnustarfsemi. Þannig mætti telja fleiri þætti í skattastefnu þessarar ríkisstjórnar. Á þessa flík er búið að rífa gat eftir gat og í sumum tilfellum settar á bætur aftur og í einhverjum tilfellum bót á bót ofan. Ég endurtek því og ítreka það sem ég sagði í ræðu minni í dag að það hlýtur að vera verkefni nýrrar ríkisstjórnar að fara yfir skattastefnuna alveg frá grunni með það að markmiði að koma á skattakerfi sem sé til þess að gera einfalt og skilvirkt en þjóni samt tekjujafnandi hlutverki en það verði ekki haldið áfram þá leið að koma með breytingar að því er manni finnst stundum aðeins breytinganna vegna án þess að nokkur markviss stefna sé á því. Skýrt dæmi um það er samkomulag stjórnarflokkanna frá síðustu viku um afnám hins svokallaða ekknaskatts. Sú aðgerð ein og sér og ekki í samhengi við aðrar breytingar á skattlagningu eignatekna er algjörlega út úr kortinu. Við framsóknarmenn bentum á það á síðasta ári að það væri eðlilegt að gera þetta í tengslum við það að breikka eignarskattsstofninn, taka fjármagnseignirnar inn, hækka frítekjumarkið á hjón um eina milljón og afnema ekknaskattinn. Þá væri orðið um að ræða heildstæða aðgerð sem getur staðið sem slík og þar sem einn liður styður við annan en ekki eins og nú er gert að afnema eingöngu hærra þrepið og ekkert komi annað í staðinn.
    Virðulegur forseti. Ég hef farið nokkrum orðum um þetta frv. sem liggur fyrir. Sömuleiðis nokkrum almennum orðum um skattastefnu þessarar ríkisstjórnar sem, eins og menn sjálfsagt skilja á mínum orðum, mér finnst ekki burðug.
    En það vakti athygli þegar þessi mál voru lögð fram að þetta mál um skatt af tekjum barna var lagt fram sem sérstakt frv., ekki með öðrum breytingum á skattkerfinu sem hér voru lagðar til. Ekki veit ég hvernig á að túlka þetta, hvort það ber að túlka þetta þannig að fjmrh. sé ekkert ósárt um þótt þetta litla mál liggi eftir þegar verið er að afgreiða skattamálin að öðru leyti.