Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:40:29 (2776)


[17:40]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég á frekar von á því að maður muni kannski styðja þetta frv. en ég verð að segja það að ég geri það ekki með neinni sérstakri ánægju. Ég tel að það þurfi að taka öðruvísi á þessu en gert er með þessu frv. Það er verið að viðurkenna það að persónuafsláttur barna og unglinga verði 6.250 kr. á mánuði. Það er allt og sumt. Ég er einn af þeim sem held því fram að persónuafsláttur fjölskyldna þurfi að koma til. Það þurfi að viðurkenna þörf fjölskyldnanna fyrir tekjur og þess vegna ættu auðvitað foreldrar eða forráðamenn barna að hafa leyfi til að nýta sér persónuafslátt þeirra í fjölskyldunni sem ekki hafa tekjur. Þannig ætti að vera hægt að tryggja fjölskyldum tekjur. Við getum bara séð það að eins og þetta hefur verið í framkvæmdinni þá er aðili sem er svo tekjulágur að hann borgar enga skatta og á kannski börn sem eru að reyna að hafa einhverjar tekjur til að vinna sér inn fyrir vasapeningum þá hafa börnin þurft að borga af þessum krónum skatt til ríkisins. Það er auðvitað í hæsta máta óeðlilegt og þetta skref er þó til bóta það sem það er. Vegna þess að ég sé ekki að það verði önnur skref tekin á næstunni þá held ég að það sé rétt að þessi breyting nái fram að ganga.
    En ég tek undir að aðdragandi málsins er mjög sérkennilegur og hæstv. fjmrh. hefur nátturlega orðið fyrir verulegum skakkaföllum í meðferð þessa máls. Hann hljóp til, sem var einsdæmi hér í hv. Alþingi, og fór með mál sitt fram utan dagskrár hér til að vekja athygli á því að nú yrði að fara að innheimta skatt af börnum sem fyrirrennari hans hefði svikist um að skattleggja. En hann var hinn kotrosknasti og taldi sig hafa gefið einhver fyrirmæli um að það skyldi ekki elta uppi blaðsölubörn með skattheimtu. Ég verð nú að segja það alveg eins og er þó hæstv. fjmrh. hafi sagt það að engin fyrirmæli hafi verið gefin um að innheimta ekki skatta af blaðsölubörnum þá verður mér á að spyrja: Hver bar þá ábyrgð á því að þetta skyldi ekki verða innheimt? Er einhver í embættismannakerfinu sem treystir sér til að taka á sig þá ábyrgð að ekki hafi verið fylgt eftir þessum lögum? Ég hef ekki trú á því. Ég held þvert á móti að það hljóti að vera þannig að þetta hafi verið rætt meðal embættismanna og í ráðuneytinu hvernig að þessum hlutum væri staðið því það var búið að kæra svona mál og ræða það í ráðuneytinu þannig að einhverjir aðilar í ráðuneytinu hljóta að hafa borið ábyrgð á því að þetta mál var látið liggja.
    Mér finnst síðan, hæstv. forseti, bölvað að það skuli hafa dottið svona botninn úr umræðunni um það mál sem var hér til umræðu á undan því að ég teldi að samkvæmt venju þá fengju menn tækifæri til að hlusta á útskýringar hæstv. fjmrh. og það mundi þá gefa tilefni til þess að gera athugasemdir og umræðan mundi þá lengjast og hefjast aftur því það er ýmislegt sem ég held að hefði getað skýrst betur.
    Ég hafði t.d. haft í huga að bera upp spurningu til hæstv. fjmrh. eftir að ég væri búinn að heyra hvaða útskýringar hann gæfi á þeim spurningum sem til hans voru upp bornar í umræðunni áðan. En þetta þýðir að umræðan við aðra umræðu hlýtur að lengjast. Það þýðir líka að möguleikar á að ræða um breytingar á þessu frv. verða nú ekki miklir. Það finnst mér miður.
    Um skattastefnu þessarar ríkisstjórnar vil ég segja það úr því að hæstv. ráðherra er nú farinn að gera tilraunir til þess, eins og hann hefur reyndar áður gert, að halda því fram að ríkisstjórnin hafi lækkað skatta í landinu að það er auðvitað hið mesta öfugmæli. Hún hefur hækkað skatta í landinu, það er ekki

vafi. Því að skattbyrði einstaklinganna í landinu hefur ekkert lækkað í heildina séð. Þeir hafa breyst, það eru aðrir skattar sem eru innheimtir. Það er t.d. hærri skattur á húshitun. Ég nefni það bara sem dæmi og ætla ekkert að fara út í að nefna hér mörg dæmi. Ég held að skatturinn á húshitun sé út af fyrir sig ágætasta dæmi um skattastefnu þessarar ríkisstjórnar sem setti það í sitt plagg, hvítu bókina, að það ætti að greiða niður húshitun og lækka kostnað af húshitun á landsbyggðinni. Niðurstaðan er núll. Það hefur ekkert lækkað kostnaður fólks af húshitun á landsbyggðinni frá því þessi ríkisstjórn tók við á frá árinu 1991 til að verða 1995, nákvæmlega ekki neitt. En ráðherrarnir hæla sér af því að hafa hækkað framlögin um 80% og skyldi einhverjum þakkað það. Það var settur 14% virðisaukaskattur á húshitun og ríkissjóður tekur inn tekjur að húshitun í landinu að upphæð sem ég hef ekki hér milli handanna en ég veit að virðisaukaskattur bara af hitaveitunum, og þá er ég ekki að tala um virðisaukaskatt af rafkyntu svæðunum, er a.m.k. 750 millj. kr. á ári. Einhver hundruð milljóna bætast síðan við í tekjum sem ríkið fær af sölu raforku til húshitunar og öllum raforkugeiranum. Þannig hefur sú aðgerð ríkisstjórnarinnar að setja virðisaukaskatt á húshitun í landinu gefið ríkissjóði áreiðanlega helmingi hærri upphæð á ári en sett er í niðurgreiðslur á húskyndingu. Þetta er nú afrekið í því að jafna húshitunarkostnað í landinu og hluti af skattastefnu hæstv. ríkisstjórnar. En ég held að úr því að svona fór og þessi umræða lognaðist út af með þessum sviplega hætti, hæstv. forseti, þá sé kannski ekki mikið við því að gera enda flestir þingmenn horfnir á braut, þeir hafa ekki talið ástæðu til þess að sitja yfir þessum barnaskap sem hér er verið að leggja til að verði lögleiddur. Ég satt að segja get svo sem ekki áfellst menn fyrir það að vilja ekki sitja yfir honum. En ég tel að það hefði verið töluvert til bóta ef við hefðum nú fengið að klára umræðuna í dag.