Tekjuskattur og eignarskattur

59. fundur
Fimmtudaginn 15. desember 1994, kl. 17:50:35 (2778)


[17:50]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það hafi komið alveg skýrt fram í mínu máli bæði að ég ætla að styðja þetta frv. og að þetta væri í sjálfu sér ekki nýtt að taka skatta af börnum og ungmennum. Auðvitað er þetta til bóta, ég sagði það líka áðan og get endurtekið það, það er til bóta að gera þetta svona en ég tel að það eigi að gera þessa hluti öðruvísi. Ég lýsti því hér áðan og ætla ekki að endurtaka það. En hins vegar vegna skattalækkunartalsins hjá hæstv. ráðherra þá held ég að það verði að muna eftir því að aðstöðugjaldið var lagt niður. Það var nú eitthvað í kringum 3--4 milljarða kr. sem þurfti að hækka útsvarið hjá sveitarfélögunum til að koma á móti þessu aðstöðugjaldi sem var lagt niður. Þannig að ef það er tekið með í dæmið þá er farið meira út heldur en hæstv. ráðherra var að tala um að hefði verið lækkað hjá ríkinu. Og hið opinbera sem heild hlýtur að koma út með verulega skattahækkun á þessu kjörtímabili. Það er vegna ákvarðana ríkisvaldsins. Það er engin spurning um að það er vegna ákvarðana ríkisvaldsins sem þessar álöguhækkanir hafa orðið. Mér finnst ekki ástæða til að þræta um þá hluti. Og ég geri ráð fyrir að það séu alveg réttar tölur sem hæstv. ráðherra var að nefna hér í sambandi við hækkun á sköttum í tíð fyrri stjórnar. En mér heyrðist nú í aðdraganda síðustu kosninga að a.m.k. sjálfstæðismenn þeir sem ég heyrði í hefðu talið að þar væri allt of langt gengið og það þyrfti nú að snúa við á þessari óheillabraut með skattahækkanir en almennar hækkanir álaga á þessu kjörtímabili eru greinilega verulega miklar og ég held að það þurfi ekki út af fyrir sig að þræta um þá hluti.