Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 10:46:05 (2786)


[10:46]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu og hún er þörf. Mér er það ljóst eins og sjálfsagt flestum hér inni að hér er um býsna snúið mál að ræða. Það liggur fyrir að tap Flugleiða er á innanlandsfluginu og ég hygg að það sé svo að þeir tapi á nánast öllum leiðum nema þeim fjórum höfuðleiðum sem eru Ísafjörður, Akureyri, Egilsstaðir og Vestmannaeyjar svo að okkur er ljóst að Flugleiðir hljóta að hugsa mjög grannt um það hvernig með þessi mál verður farið.
    Ég sé það einnig fyrir mér að umræður þurfa að fara fram og verða að fara fram um uppbyggingu flugflotans, hvernig þessum smærri flugleiðum verður þjónað. Það veldur mér áhyggjum að þjónustu hjá þessum sérleyfishöfum við fólk sem á þessum stöðum getur verið hagað á þann hátt að sætanýtingin falli mjög niður. Og það sem verst er að mér sýnist við lestur flugmálaáætlunar og þeirrar áætlunar sem

nú er á dagskrá í samgrn. í flugmálum vera orðin sú breyting á að menn séu þegar farnir að taka mark á þessu og miða framkvæmdafé til flugvalla við það hvernig sætanýting hefur fallið vegna þess hve þjónustu hefur hrakað við þessa staði. Það er alvara málsins. Umræður verða að fara fram um sérleyfið og þjónustuþáttinn og samgrn. verður að hafa forustu um að sú umræða fari fram. Og slík umræða má alls ekki einskorðast við eitthvert tveggja manna tal hæstv. samgrh. og forstjóra Flugleiða eða Íslandsflugs. Það er auðvitað algerlega út úr kortinu og það hlýtur að vera skýlaus krafa að þeir verði einnig kallaðir til viðræðu um þessi mál sem þurfa að búa við þjónustu þessara aðila. Það er fólkið á landsbyggðinni. Við hljótum að gera þá kröfu að það fái einnig að setjast að því borði þegar um flugrekstrarleyfin verður samið.