Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 10:50:56 (2788)


[10:50]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. frsm. fyrir að hreyfa þessu máli hér. Það liggur fyrir að hæstv. samgrh. hefur heimild til þess að opna flugleiðir upp í 15% og það var 10% um síðustu áramót þannig að hann hefur heimild núna til þess að hafa opnar flugleiðir um 25% af farþegafjölda eða flutningsgetu. Það liggur einnig fyrir og það hefur verið rætt hér einmitt í sambandi við Sauðárkrók og Siglufjörð að þjónustan er ekki nógu góð á Sauðárkróki. Ég get nefnt fleiri dæmi um það og bara úr mínu kjördæmi t.d. Patreksfjörð sem er þjónað jafnvel með millilendingum við Ísafjörð. En aftur á móti á þeim tíma þegar verið var að vinna meira við Patreksfjarðarflugvöll, þá þjónaði Íslandsflug Patreksfirði og fór þá auðvitað miklu fleiri ferðir og jafnframt var miklu meiri sætanýting og farþegafjöldinn jókst held ég um helming við það að Íslandsflug þjónaði þessari leið. Þetta er því líka spurning um hvaða þjónustu á að halda uppi við þessa staði og er það rétt á þessum tímum þegar hæstv. samgrh. og hæstv. ríkisstjórn virðast vera að opna alla skapaða hluti upp á gátt þá skuli vera ríghaldið í þetta einkaleyfi Flugleiða alveg fram að þeim tíma sem það á að falla niður. Það er heimild fyrir því að liðka þetta núna og ég held að hæstv. samgrh. ætti að beita sér fyrir því að gera það og koma þannig til móts við óskir um þá þjónustu sem fólkið er að biðja um.