Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 10:55:17 (2790)


[10:55]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Það var út af fyrir sig allt rétt sem fram kom í máli hans áðan um stöðu málsins í heild og þá sérstaklega það sem hann sagði að allt áætlunarflug verður frjálst orðið árið 1997. En hér hafa fleiri en ég spurt að því hvort ekki sé nú tímabært að hefja undirbúning að þessari þróun með því að taka einhver skref í þá áttina nú þegar. Árin fram til 1997 eru mjög mikilvæg og ef flug á einstökum flugleiðum er látið drabbast niður á næstu árum þá getur orðið mjög erfitt að ná því aftur upp þegar kemur að árinu 1997.
    Ég spurði ráðherrann að því hvort ekki yrði um að ræða viðræður við Flugleiðir um þetta mál. Ég heyrði að hann nefndi það og boðaði viðræður við Íslandsflug en ég held að þetta verði að vera miklu víðtækari viðræður og Flugleiðir hljóti að koma inn í þá samningalotu. Og eins og hér var nefnt áðan af hv. 1. þm. Norðurl. v. þá hljóta heimamenn líka að fá að segja sitt um þetta mál.
    Ég vek á því athygli að í lögum um loftferðir frá 1964, í 2. mgr. 85. gr., er einmitt gert ráð fyrir því að ríkinu sé áskilin heimild til innlausnar á sérleiðum. Það er auðvitað þannig hugsað að ef aðstæður breytast sé það eðlilegt og sjálfsagt og ég hvet ráðherrann eindregið til að taka þetta mál föstum tökum og endurskoða það með opnu og jákvæðu hugarfari.