Flugsamgöngur til Sauðárkróks og Siglufjarðar

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 10:59:48 (2792)


[10:59]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði nú satt að segja vænst þess að hæstv. samgrh. gæfi úr þessum ræðustól fyrirheit um það sem ég fór fram á og finnst full sanngirni í að heimamenn, þeir sem þjónustunnar njóta, verði einnig kallaðir til þegar þær umræður fara fram sem ég vænti að samgrh. beiti sér fyrir að verði teknar upp. Hann getur ekki einu sinni fallist á slíkt. Þegar samgrh. kemur hér upp til þess að gorta af framkvæmdum við flugvelli og segir svo að það sé eitt að gera á Sauðárkróki, að lengja flugbrautina. Hvers lags málflutningur er þetta? Ég er með afrit af ummælum formanns flugráðs, sem hann viðhafði í útvarpinu fyrir örfáum dögum, og með leyfi, hæstv. forseti, langar mig til þess að lesa það upp. Formaður flugráðs, Hilmar Baldursson, ágætismaður, segir: ,,Upp á vantar Sauðárkrókur 30 millj. og Húsavík 10 millj.`` Þá er búið að tala um Egilsstaði.
    Það eru bílastæði og lóð á Húsavík. Bundið slitlag sem verður skorið niður á Sauðárkróki, þ.e. fyrirhugað var að fara í 1.600 metra bundið slitlag á Sauðárkróki. Það verður farið niður í 1.200 metra og ýmsar frágangsframkvæmdir verða skildar eftir og bílastæði og lóð á Sauðárkróksflugvelli verða sömuleiðis skilin eftir. Hvers lags málflutningur er þetta, hæstv. ráðherra? Auðvitað er verið að skera stórlega niður framkvæmdafé til þessa flugvallar og það byggist m.a. á því hversu Sauðárkróki hefur verið illa sinnt. Sætanýting hefur hrapað vegna þess. Hvað halda menn að sú breyting Flugleiða kosti að fljúga mestan part og nánast ætíð síðdegis? Íbúar þessa svæðis eru komnir til Reykjavíkur að kvöldi til þess að reka erindi daginn eftir og fara beinustu leið inn á hótel. Hvað er sá aukakostnaður mikill? Auðvitað rýrnar sætanýtingin við þetta, hæstv. ráðherra, Halldór Blöndal.