Listmenntun á háskólastigi

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 11:30:05 (2801)


[11:30]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að mér finnst frv. vera eins og gullmoli innan um allar tölurnar sem við erum að fjalla um þessa dagana, bæði í fjárlögum, fjáraukalögum og öðrum slíkum málum því hér er um gott mál að ræða að mínu mati og ég þakka hæstv. menntmrn. fyrir að koma með það fram. Aldrei þessu vant get ég glatt hann með því að ég var nánast sammála öllu sem hann sagði og finnst mér vera orðið nokkuð langt síðan svo hefur verið. En það er, eins og kom fram í máli hans, mikið atriði að breyta menntun á listsviði hér á landi og sú umræða hefur verið lengi í gangi. Ég fagna því sérstaklega núna að á síðustu stigum hefur þetta mál verið unnið í samvinnu við Bandalag íslenskra listamanna sem var skortur á á fyrri stigum undirbúningsins. Það hefur kannski nokkuð með það að gera að nú er málið komið í þann búning að mér sýnist að það sé orðið gott. En auðvitað þarf að vinna það í hv. menntmn. og leita umsagna og eflaust er þar eitthvað sem má bæta enn.
    Eins og kom fram eru lög um Myndlista- og handíðaskólann gömul og á þeim þurfti að taka og er sérstaklega ánægjulegt að það skuli vera gert einmitt í þessu formi. En ég geri mér líka vel grein fyrir því, hæstv. forseti, að björninn er ekki unninn þó svo þetta frv. komi fram og verði samþykkt sem lög vegna þess að eins og kom fram í máli hæstv. menntmrh. eru fjárveitingar háðar samþykktum fjárlaga hverju sinni. Eins þarf að leggja mikið fjármagn í húsið sem er við Laugarnesveg og er hugsað fyrir þessa starfsemi. Þó húsin í menningarlífinu skipti ekki öllu máli skipta þau að sjálfsögðu miklu máli og þessi starfsemi þarf að fara fram undir þeim kringumstæðum að húsnæðismál séu í lagi. Ég leyfi mér til þess að

vera örlítið kvikindisleg að nefna Þjóðarbókhlöðuna í þessu sambandi. Þar höfum við glæsilegt hús sem tekið var í notkun 1. des. en því miður eins og fjárlagafrv. lítur út í dag virðist þar ekki vera séð fyrir fjárveitingu til þeirrar stofnunar þannig að starfsemin geti farið fram með sóma. Þetta nefni ég í tengslum við þetta mál bara til þess að minna á að björninn er ekki alltaf unninn þó samþykkt séu lög frá Alþingi því það þarf fjárveitingar til rekstrar til að starfsemi geti farið fram með sóma. Það er aftur önnur ákvörðun sem er fyrst og fremst háð vilja ríkisstjórnar hverju sinni þótt það sé formlega séð hv. Alþingi sem samþykkir fjárlög.
    Ég lýsi ánægju með að málið hefur breyst nokkuð frá því skilagrein var dreift á síðasta ári. Mér fannst hún vera gölluð og gerði það að umtalsefni á hv. Alþingi og vildi hæstv. menntmrh. þá ekki viðurkenna að eitthvað hefði verið að en hann hefur greinilega tekið mið af því sem þar fór fram vegna þess að málið hefur breyst nokkuð. Mér finnst í sambandi við ráðningu rektors --- kannski er ég ekki búin að lesa málið nægilega vel en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því --- mér sýnist eins og það sé reiknað með í skipulagsskránni að það eigi að starfa dómnefnd varðandi stöður deildarforseta og finnst mér það mjög gott. En mér hefði fundist að það hefði átt að vera líka varðandi ráðningu rektors. Stjórnin kemur til með að ráða rektor eins og þetta lítur út hér. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvort það er svo að ekki sé hugmyndin að ráðning rektors fari fyrir umsögn dómnefndar. Ég held að það hefði verið rétt. Að öðru leyti, hæstv. forseti, tel ég ekki ástæðu til að vera með málalengingar um þetta ágæta mál og tel að það verði unnið að því eins og lög gera ráð fyrir af hv. menntmn.