Lífræn landbúnaðarframleiðsla

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 12:59:18 (2816)


[12:59]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. og tel gott og virðingarvert að það skuli koma fram. Það þarf örugglega að vinna að því á öllum vígstöðvum að Íslendingar geti tekið þátt í framleiðslu þeirra búvara sem eru seldar undir merkjum lífræns landbúnaðar. Ég tel reyndar að það sé mikil spurning hvernig eigi að skilgreina lífrænan landbúnað. Mér finnst að það megi ekki vera allt heilagt í því að ekki megi nota nein tilbúin efni heldur tel ég að einhvers konar skilgreiningar þyrftu að verða til þar sem það hefði verið rannsakað til hlítar hvaða efni hefðu engin óæskileg áhrif á lífkeðjuna og menn þyrftu þess vegna ekki að neita sér um að nota þau hjálparefni sem ekki hafa nema jákvæð áhrif á framleiðsluna. Það er út af fyrir sig hægt að segja það að við sumar aðstæður er nánast útilokað að framleiða landbúnaðarvörur öðruvísi en notuð séu bæði efni til að verjast sníkjudýrum og öðrum þvílíkum hlutum. Þess vegna held ég að það verði seint hægt að setja í gang einhvern landbúnað sem getur staðið undir nafni og framleitt vöru sem mögulegt er að selja ef menn mega ekki nota þá þekkingu og tækni sem fyrir hendi er nema að mjög litlu leyti. Þarna verður að stíga mjög varlega til jarðar og draga línurnar með mikilli kostgæfni og velta þessum hlutum fyrir sér. Ég held þó að lyf og eiturefni sem sannað er að hafa áhrif á lífkeðjuna og eru til óþurftar þurfi auðvitað að vera útilokuð frá notkun í lífrænum landbúnaði. En ég hvet mjög til þess að það verði ekki slegið af í því að reyna að rannsaka hvaða möguleika er hins vegar hægt að nýta sér og hvaða tækni er ástæðulaust að neita sér um í þessu efni.
    En það var líka eitt sem mig langaði að ræða hér. Það er eftirlitsþátturinn sem er m.a. fjallað um í 3. gr. frv. Þar er greinilega gert ráð fyrir því að nota svipaðar aðferðir við eftirlit með framleiðslunni og búið er að setja upp í fiskiðnaðinum. Því miður hefur breytingin sem hefur þar orðið með skoðunarstofunum orðið til þess að framleiðendur þurfa að borga miklu hærri fjárhæðir fyrir eftirlitið. Ég ætla satt að segja að vona að menn beri gæfu til þess að standa öðruvísi að þessu gagnvart landbúnaðinum því þar þurfa menn virkilega að halda utan um pyngjuna og passa upp á að hlutirnir kosti ekki meira en nauðsynlegt er. Það væri hið versta slys ef þessi halarófuhagræðing sem varð í eftirlitinu með sjávarafurðum flæddi yfir í landbúnaðinum líka. Ég hef svo sem engin ráð að gefa hvernig megi koma í veg fyrir það ef hér verður farið að eins og lagt er til, að öllum verði heimilt að stofna þessar eftirlitsstofnanir sem talað er um í frv. Þær eru kallaðar vottunarstofur. Í 3. gr. er talað um að einstaklingum, sjálfstæðum stofnunum og sjálfstæðum stofum sé heimilt að stofna vottunarstofur. Reyndar kemur það síðan fram í umsögn um 3. gr. að þar er eingöngu talað um einstaklinga og fyrirtæki en í sjálfri lagagreininni er talað um stofnanir líka. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers konar stofnanir þarna er verið að tala um? Eru það ekki opinberar stofnanir sem er átt við í 3. gr.? Er haft í huga að hugsanlega verði það ein stofnun sem sjái um þetta sem verði þá opinber stofnun?
    Ég ímynda mér að besta aðferðin við eftirlitið sé sú að einungis einn aðili hefði eftirlit með þessum hlutum og það yrði ekki farið út í það að auka kostnaðinn með því að það væru fleiri aðilar sem stæðu í því að sjá um þetta eftirlit.
    Að öðru leyti ætla ég ekki að gera athugasemdir við frv. Ég tel að þetta sé út af fyrir sig mjög þarft mál og gott og gott að það er komið hér fram en ég óska eftir því að hv. nefnd taki á þessu til að reyna að koma í veg fyrir þann aukna kostnað sem leiðir af því að ef fleiri aðilar verða til þess að bjóða upp á þetta eftirlit.
    Mig langar í leiðinni til þess að spyrja hæstv. ráðherra um frv. til laga um eftirlitsstarfsemi hins opinbera sem lagt var fram seinast á þinginu á síðasta vori. Mér skildist nú á þeim tíma að þá væri meiningin að reyna að samræma og skipuleggja þennan eftirlitsiðnað, sem sumir hafa leyft sér að kalla svo, sem hefur vaxið og dafnað undir forustu hæstv. ríkisstjórnar alveg sérstaklega. En þetta mál er að vísu á þeim lista sem hæstv. forsrh. kynnti í sinni stefnuræðu en það hefur ekki komið fram enn í þinginu og það er að líða að jólum og þinghald mjög stutt eftir áramótin þannig að ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvort það sé kannski ekki meiningin að það frv. komi til afgreiðslu í þinginu í vetur.