Lífræn landbúnaðarframleiðsla

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 13:06:27 (2817)


[13:06]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Um það frv. sem þingmaðurinn gat um í lokin hef ég ekki annað að segja en að það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að það frv. verði lagt fram. Ég vil líka taka það sérstaklega fram að ég er með í athugun þær stofnanir sem falla undir mín ráðuneyti og hafa eftirlitsstörf með höndum, hvort ekki sé hægt að draga þar úr kostnaði.
    Út af hinni fyrirspurninni sem lýtur að vottunarstofum þá er gert ráð fyrir því að um einstaklinga eða fyrirtæki verði að ræða. Það er að vísu opnaður möguleiki fyrir því ef mönnum kann að sýnast svo síðar að rétt sé að fela stofnun í einhverjum einstökum tilvikum eftirlit eða ef það er áskilið e.t.v. í einhverjum löndum að opinber stofnun komi að málinu þá er sjálfsagt að halda þeim möguleika opnum. En hér er fyrst og fremst gert ráð fyrir því að þessi starfsemi verði í höndum faggiltra vottunarstofa og ég hygg að það sé til bóta ef þær yrðu fleiri en ein til þess að samkeppnin tryggi það að kostnaður sé í lágmarki og eins verðum við að halda þeim möguleika opnum að slíkar stofur starfi á mismunandi sviðum. Ég get tekið sem dæmi að mér finnst ekki óeðlilegt þó við Íslendingar stefnum að því að vera í forustu t.d. í sambandi við lífræna framleiðslu á eldisfiski, svo ég taki dæmi, og getum sett okkur þar staðla sem aðrar þjóðir hafa ekki treyst sér til.
    Það er gallinn við það að vera með staðlaða framleiðslu sem hlítir ströngum reglum að óhjákvæmilegt er að fylgja framleiðslunni eftir með því að einhver viðurkennir að rétt sé að staðið. Til þess eru vottunarstofurnar og það hefur einhvern kostnað í för með sér.