Lífræn landbúnaðarframleiðsla

60. fundur
Föstudaginn 16. desember 1994, kl. 13:11:13 (2819)


[13:11]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér, með leyfi forseta, fyrir tveimur málum sem styðst við þau rök að þessi mál eru innbyrðis tengd. Hið fyrra er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum. Seinna málið er frv. til laga um breytingu á lögum nr. 14/1979, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd þrjá alþjóðasamninga um varnir gegn mengun sjávar af völdum olíu, lögum nr. 20/1986, um Siglingamálastofnun ríkisins, og lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar.

    Fyrra frv. sem ég mæli fyrir um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, var samið í umhvrn. og tengist breytingum sem urðu á yfirstjórn hollustuháttamála er þau færðust frá heilbrrn. til umhvrn. frá og með 1. júní sl., breyttri yfirstjórn Hollustuverndar ríkisins og flutningi á starfsemi mengunardeildar Siglingamálastofnunar ríkisins yfir til Hollustuverndar ríkisins.
    Með breytingum á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. lög nr. 54/1994, er öðluðust gildi 1. júní sl., var yfirstjórn hollustuháttamála og heilbrigðiseftirlits færð frá heilbrrn. til umhvrn. Þegar stofnað var til sérstaks umhvrn. árið 1990 voru mengunarvarnir á landi samkvæmt hollustuháttalögum fluttar yfir til umhvrn. og þar með sú starfsemi sem Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga önnuðust á því sviði. Frá þeim tíma og til 1. júní sl. var yfirstjórn mála samkvæmt lögum þannig skipt milli tveggja ráðuneyta, annars vegar heilbrrn., þegar um er að ræða heilbrigðiseftirlit og matvælaeftirlit, og hins vegar umhvrn. þegar um var að ræða mengunarvarnir.
    Starfsemi Hollustuverndar ríkisins var skipt með sama hætti. Þar sem þessi mál voru öll í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna í framkvæmd og Holustuverndar ríkisins var sú ákvörðun tekin með lögum nr. 54/1994, og áður eru nefnd, að fela umhvrn. yfirstjórn þeirra í stað þess að skipta forræðinu milli tveggja ráðuneyta enda slík skipting óæskileg verði hjá því komist. Með þeirri breytingu sem átti sér stað 1. júní sl. er málaflokkurinn því óskiptur undir yfirstjórn umhvrn. Þótt tekin væri ákvörðun að flytja yfirstjórn málaflokksins var lögunum að öðru leyti ekki breytt og er því nauðsynlegt að breyta þeim nú, m.a. til þess að laga lögin að breyttri yfirstjórn.
    Í desember 1991 skipaði heilbr.- og trmrn. í samráði við umhvrn. nefnd sem falið var að gera tillögur að endurskoðuðum lögum og skilaði nefndin áliti í janúar 1993 í búningi lagafrv. Þar sem þá höfðu komið fram þau sjónarmið að æskilegt væri að sameina yfirstjórn málaflokksins í einu ráðuneyti var ákveðið að bíða með framlagningu frv. og það er því fyrst nú að tekin er afstaða til tillagna nefndarinnar að breyttum lögum.
    Í frv. nefndarinnar voru gerðar tillögur um viðamiklar breytingar á lögunum sem ekki er þó talin ástæða til að leggja fram að svo stöddu nema hvað snertir stjórn og starfsemi Hollustuverndar ríkisins auk ýmiss konar lagfæringa í ljósi fenginnar reynslu.
    Helstu breytingar varðandi stjórn og starfsemi Hollustuverndar ríkisins eru þær að lagt er til að fækkað verði í stjórn stofnunarinnar úr sjö í þrjá og að umhvrh. skipi stjórnina í samræmi við breytta yfirstjórn. Breytingin er gerð með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengin er af störfum þriggja manna framkvæmdastjórnar sem í reynd hefur farið með stjórn stofnunarinnar í samræmi við 3. tölul. 14. gr. gildandi laga. Þannig hefur rekstur stofnunarinnar verið að mestu í höndum framkvæmdastjórnar og framkvæmdastjóra og hafa þannig skapast nánari tengsl milli stjórnar og stofnunar auk þess sem einfaldara og árangursríkara er að starfa á grundvelli stjórnskipulags sem ekki er of stórt í sniðum.
    Þar að auki ber að hafa í huga að þótt sú stjórn sem lög kveða á um og skipuð er sjö mönnum, þar af sex tilnefndum af hinum ýmsu hagsmunaaðilum, hafi verið æskileg þegar fyrstu lög um Hollustuvernd ríkisins tóku gildi 1. ágúst 1982 á það ekki lengur við þegar festa er komin á starfsemina. Gert er ráð fyrir því að í þriggja manna stjórn stofnunarinnar sitji tveir fulltrúar sem umhvrh. skipar án tilnefningar og einn tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga en stofnunin fer með yfirumsjón með heilbrigðis-, matvæla- og mengunareftirliti sem framkvæmdalega er þó í höndum sveitarfélaga, þ.e. heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa, með örfáum undantekningum þar sem Hollustuvernd ríkisins er falið beint eftirlit. Með þessu er í reynd verið að staðfesta fyrirkomulag sem meira og minna hefur verið við lýði frá síðustu heildarendurskoðun laganna frá 1988 og hefur gefist vel.
    Enn fremur er lagt til að í stað framkvæmdastjóra komi forstjóri. Gert er ráð fyrir að forstjóri annist framkvæmdastjórn stofnunarinnar í umboði stjórnar, móti starf fagsviða í samvinnu við forstöðumenn þeirra og taki ákvarðanir í veigamiklum málum samkvæmt stefnu stjórnar hennar í stað þess að annast aðeins rekstrarstjórn eins og er samkvæmt gildandi lögum.
    Enn fremur er lagt til að hin lögbundna skipting og skilgreining fagsviða hollustuverndar verði felld niður og að stjórn stofnunarinnar verði falið að ákveða skiptingu fagsviða og verksvið þeirra að fengnu samþykki ráðherra. Í dag eru lögboðin fjögur fagsvið innan stofnunarinnar sem ekki er lengur raunhæft því áherslur hafa breyst frá því sem áður var og kunna að breytast frekar á næstu árum. Því er einfaldast að ákvarðanir um fagsvið séu ólögbundnar enda hefur slíkt fyrirkomulag viðgengist hjá öðrum stofnunum og má þar nefna sem dæmi Vinnueftirlit ríkisins. Rétt er að geta þess að þegar Hollustuvernd ríkisins var stofnuð árið 1982 var hún byggð á stofnunum sem þá voru við lýði, þ.e. heilbrigðiseftirliti ríkisins, matvælarannsóknum ríkisins og geislavörnum ríkisins, auk þess sem bætt var við nýju sviði, mengunarvarnasviði. Síðar var lögunum breytt og geislavarnir teknar undan stofnuninni og settar undir sérstaka stofnun, Geislavarnir ríkisins, árið 1985 og árið 1988 var bætt við eiturefnasviði.
    Gerð er tillaga um að allt starfslið stofnunarinnar að forstjóra og forstöðumönnum frátöldum verði ráðið af forstjóra en ráðning er nú ýmist á vegum stjórnar, framkvæmdastjóra eða forstöðumanna. Enn fremur er gert ráð fyrir því að stjórn stofnunarinnar ráði forstöðumenn einstakra fagsviða eftir því sem fagsvið verða ákveðin. Gert er ráð fyrir venjulegu ráðningarformi en ekki eins og í dag, sex ára ráðherraskipan. Gert er ráð fyrir því að ráðherra skipi forstjóra til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum stjórnar og er

það í samræmi við gildandi lög um framkvæmdastjóra stofnunarinnar.
    Enn fremur eru lagðar til breytingar á ýmsum greinum laganna eða að þær verði felldar niður og byggist það á fenginni reynslu liðinna ára eða að um óþarfa sé að ræða. Sem dæmi um slíkt má nefna að lagt er til að ákvæði um að rekið skuli bókasafn við Hollustuvernd ríkisins verði fellt niður enda um sjálfsagðan hlut að ræða.
    Sama er að segja um skyldur Hollustuverndar ríkisins vegna upplýsinga og tilkynninga til fjölmiðla en ekki þykir ástæða til að hafa slíkt í lögum þar sem starfsmenn Hollustuverndar ríkisins falla undir lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Einnig er lagt til að fellt verði niður ákvæði sem kveður á um að eftirlit sveitarfélaga skuli starfrækt frá heilsugæslustöð sé hún á sama stað og eftirlitsmenn hafa aðsetur. Þetta helgaðist m.a. af því að áður ráku sveitarfélögin heilsugæsluna en í dag er hún í höndum ríkisins auk þess sem ekki er sama ástæða til að tengja þennan málaflokk starfsemi heilsugæslunnar því gæta þarf fleiri atriða og til starfa á vegum heilbrigðiseftirlitsins hafa m.a. komið tæknimenntaðir menn.
    Í frv. er lögð til breyting vegna tilflutnings mengunardeildar Siglingamálastofnunar ríkisins yfir til Hollustuverndar ríkisins, en um það er samkomulag í ríkisstjórn. Þegar stofnað var til sérstaks umhvrn. 1990 var þessi starfsemi Siglingamálastofnunar sett undir umhvrn. þannig að stofnunin hefur síðan heyrt undir tvö ráðuneyti, annars vegar samgrn. og hins vegar umhvrn. Í samræmi við það sem áður segir um skiptingu Hollustuverndar ríkisins og reynslu af skiptingu stofnana milli ráðuneyta er hér lagt til að öllum mengunarvörnum verði sinnt af sömu aðilum og að verkefnið verði Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna þannig að ekki verði munur á því hvort um er að ræða mengunarvarnir á landi eða sjó.
    Lagt er til að eftirlit með mengunarvörnum á sjó verði í höndum Hollustuverndar ríkisins með sama hætti og stofnunin hefur beint eftirlit með starfsemi sem getur haft í för með sér meiri háttar mengun. Eftir því sem heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirliti sveitarfélaga vex fiskur um hrygg ætti að vera hægt að færa mengunarvarnir á sjó út til sveitarfélaganna með sama hætti og mengunarvarnir á landi. Þau atriði bíða heildarendurskoðunar laganna sem væntanlega fer fram innan fárra ára.
    Þótt ekki séu gerðar tillögur um breytingar á fyrirkomulagi og starfsemi heilbrigðiseftirlitsins í landinu að öðru leyti en áður greinir er lagt til að skipting heilbrigðisnefnda innan heilbrigðiseftirlitssvæða, sem eru 13 í landinu, verði ákveðin í reglugerð og fylgja drög að slíkri reglugerð með frv. á sérstöku skjali. Í ákvæði til bráðabirgða er hins vegar gert ráð fyrir því að núverandi skipan haldist óbreytt þar til reglugerð verður sett. Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst sú að sveitarfélögin hafa í auknum mæli sameinast á undanförnum árum og fyrirsjáanleg er enn frekari sameining. Slíkar breytingar og fækkanir sveitarfélaga leiða til þess að breyta þarf umdæmum með reglugerð og er því æskilegt að hafa skiptinguna ekki lögbundna þótt það hafi verið svo og verið nauðsynlegt þegar ný lög á þessu sviði öðluðust gildi 1. ágúst 1982 og teknar voru ákvarðanir um grundvallaratriði í framkvæmd heilbrigðiseftirlits í landinu. Með þessu sparast og mikill lagatexti og lögin styttast verulega. Reglugerð um skiptingu heilbrigðisnefnda og heilbrigðiseftirlitssvæði og aðild sveitarfélaga að heilbrigðisnefndum verður að sjálfsögðu sett að höfðu samráði við sveitarfélögin þegar þar að kemur.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til hv. umhvn. að lokinni 1. umr. og fer þess á leit að nefndin hraði störfum enda brýnt að frv. nái fram að ganga á yfirstandandi þingi.
    Að því er varðar seinna málið, frv. til laga um breytingar á eldri lögum um varnir gegn mengun sjávar o.fl., og ég mæli hér fyrir þá má segja að það sé hliðarfrv. með frv. til laga um breytingu á lögum nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem ég hef þegar mælt fyrir. Það tengist flutningi á starfsemi mengunarvarna Siglingamálastofnunar ríkisins yfir til Hollustuverndar ríkisins og að Siglingamálastofnun ríkisins annist eftirlit með mengunarvarnabúnaði skipa en samkomulag er um að Siglingamálastofnun ríkisins annist það eftirlit áfram enda aðrir ekki í stakk búnir að sinna því.
    Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta frv. en vísa til þess sem ég hef áður sagt varðandi frv. til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. umhvn. að lokinni þessari umræðu og að fjallað verði um það samtímis frv. til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.