Ársreikningar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:13:52 (2830)

[11:13]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 406 og brtt. á þskj. 407 um frv. til laga um ársreikninga. Ég vil í upphafi taka það fram að nefndin hefur að nokkru leyti litið á þetta frv. og frv. um bókhald, hlutafélög og einkahlutafélög sem eina heild og þau hafa nokkuð fylgst að í starfi nefndarinnar, í raun allt frá síðasta vetri þegar þau komu þar inn og það var unnið að þeim í sumar og síðan núna í haust.
    Það er skoðun nefndarinnar að sem heild marki þessi löggjöf tímamót varðandi þá umgjörð sem íslenskt atvinnulíf starfar eftir. Helsta breytingin verður sú að allt viðskiptaumhverfið verður gegnsærra og aðilar í atvinnulífinu geta gengið að mun betri og samræmdari uppýsingum um sína viðskiptaaðila. Þetta á að mati nefndarinnar að leiða til betra viðskiptasiðferðis og almennt til meira trausts á þeim sem standa í atvinnurekstri.
    Síðar þegar búið verður að lögfesta viðurlagakafla við bókhalds- og ársreikningslögin, sem væntanlega verður gert fljótlega upp úr áramótum, er það skoðun nefndarinnar að framkvæmdarvaldið og dómstólar séu komnir með öll þau tæki í hendurnar sem þarf til þess að hægt sé að hefja markvissa baráttu gegn auðgunarbrotum í viðskiptalífinu sem oft og tíðum hafa gengið undir nafninu hvítflibbabrot.
    En ef ég vík aðeins nánar að nefndarálitinu eins og það liggur fyrir þá er það undirritað fyrirvaralaust af öllum nefndarmönnum enda er hér um að ræða mál sem er mjög tæknilegs eðlis og ekki mörg pólitísk úrlausnarefni við vinnslu þess þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að lesa nefndarálitið eða brtt. frá orði til orðs en vitna til þskj. 406 og 407 og þar mun þetta fara inn í þingtíðindi.
    Ég tel ástæðu til við þessa framsögu að nefna sérstaklega eitt atriði, svokölluð verðbólgureikningsskil, sem hafa verið viðhöfð hér á landi, ef ég man rétt, frá því fyrir 1980. Þetta er í raun séríslenskt fyrirbæri og var sett á á sínum tíma til þess að aðlaga viðskiptaumhverfið þeirri miklu verðbólgu sem hér var. Í samþykktum Evrópska efnahagssvæðisins, sem þessi lagabreyting byggist að nokkru leyti á, er það meginregla að verðbólgureikningsskil séu ekki viðhöfð en það var ákveðið við setningu laganna hér að viðhalda þessu enda eru til þess heimildir í þeim samþykktum sem vísað er til. Nefndin ræddi þetta nokkuð á fundum sínum og það er skoðun nefndarinnar að þó að þessu sé ekki breytt nú við þessa lagabreytingu þá sé full ástæða til þess að í framhaldinu verði það skoðað hvort ekki væri æskilegt og eðlilegt að taka slíkt upp.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta nefndarálit á þessu stigi, var reyndar að fá hér í hendurnar uppprentun á brtt. þar sem hafði orðið víxlun í prentun og því verður dreift í réttu formi á borðin eftir augnablik.