Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:21:44 (2832)

[11:21]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég bendi á að nál. á þskj. 400 er um hlutafélag með síðari breytingum og frv. til laga um einkahlutafélög svo að þetta er sameiginlegt nál. fyrir bæði málin. Því fylgja síðan brtt. á þskj. 401 sem tengist hlutafélögunum og 402 sem tengist einkahlutafélögunum.
    Nefndin hefur fjallað um þetta mál á fundum sínum frá því í fyrravor. Þá var mælt fyrir þessum frv. að nýjum lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Nefndin fjallaði síðan um málið á fundum í sumar og síðan aftur í haust og fékk Jón Ögmund Þormóðsson, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneytinu, Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra og Jónas Fr. Jónsson, lögfræðing hjá Verslunarráði Íslands, á fundi til sín. Þá bárust nefndinni umsagnir um málin frá ASÍ, Árna Vilhjálmssyni prófessor, BHMR, Guðmundi Guðbjarnasyni, formanni nefndar er vann að frumvörpum til laga um bókhald og ársreikninga, Íslenskri verslun, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Samtökum iðnaðarins, Vinnumálasambandinu og loks mjög ítarleg umsögn frá Verslunarráði og VSÍ sameiginlega.
    Það er skemmst frá því að segja að nefndin lauk störfum sínum um málið í gær og undir nál. skrifa allir nefndarmenn en með fyrirvara skrifa Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir og Ingi Björn Albertsson.
    Hér hafa verið lagðar fram brtt. sem eru alls í 39 liðum. Megnið af þessum brtt. er tilkomið þannig að það var verið að samræma orðanotkun og hugtakanotkun á milli frv. um ársreikning og bókhald og félagalaganna. Þar er ekki um að ræða í raun efnisbreytingar heldur eingöngu samræmingu. Eins og ég nefndi í framsögu um lögin um ársreikninga þá hafa þessi mál fylgst að og við lítum á þau í raun sem eina heild.
    Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi ekki tekið það nógu skýrt fram í framsögu fyrir nál. um þau mál og vil fara örlítið fleiri orðum um viðurlagakaflana sem tengjast lögunum um ársreikninga og bókhald og ekki vannst tími til að vinna sem skyldi. Nefndin er tilbúin til þess strax að loknu jólaleyfi að flytja

þá kafla í frumvarpsformi og til þess að flýta fyrir framgangi þess máls. En nefndin treystir sér ekki til þess að taka það inn sem brtt. núna svo skömmu fyrir jól, m.a. vegna þess að þessum breytingum verða einnig að fylgja breytingar á hegningarlögum og frv. að þeirri breytingu var ekki komið fram í þinginu.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um eina brtt., þ.e. 10. liðinn, breyting við 54. gr. sem í vinnu nefndarinnar gekk undir vinnuheitinu gjaldþrotaákvæðið. Í frv. var ákvæði þess efnis að stjórnarmaður í félagi eða framkvæmdastjóri í hlutafélagi sem hefði tvisvar orðið gjaldþrota í hliðstæðum rekstri á tveimur árum hefði ekki heimild til þess að taka sæti í stjórn hlutafélags í hliðstæðum rekstri næstu þrjú ár á eftir. Nefndin var sammála þeirri hugsun sem á bak við þetta var sem er sú að reyna að stemma stigu við því að aðilar geti nánast notað gjaldþrot sem rekstrartæki og hlaupið frá sínum rekstri síendurtekið og stofnað ný félög.
    Nefndarmenn voru hins vegar ekki sammála um hvaða áhrif ákvæðið mundi hafa eins og það var sett fram í frv. og það var skoðun hluta nefndarmanna að eins og það var þar sett upp þá gæti það virkað þannig að það væri erfitt að fá hæfa einstaklinga til þess að taka að sér stjórnarstörf í félögum sem væru í erfiðum rekstri og það væru ekki æskilegar afleiðingar. Það var nefnt sem dæmi að menn gætu lent í því, til að mynda sveitarstjórnarmenn í minni plássum, að þurfa að taka að sér stjórnarsetu í tveim félögum sem tengdust útgerð og fiskvinnslu sem yrðu bæði gjaldþrota, þá væri viðkomandi einstaklingur útilokaður frá frekari stjórnarsetu á næstu árum í hliðstæðum félögum þó svo að allir væru sammála um að þar væri aðili sem gæti lagt mikið til málanna við endurreisn á atvinnulífi á viðkomandi stað.
    Það kom einnig fram í umfjöllun nefndarinnar að gjaldþrot sem slíkt er ekki refsivert. Löggjafinn og umhverfi atvinnulífsins gerir ráð fyrir gjaldþrotum og það tengist takmarkaðri ábyrgð í hlutafélögum þannig að niðurstaðan varð sú að við erum komin með brtt. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa hlotið dóm vegna atvinnurekstrar fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.``
    Sú leið sem nefndin fór var að herða hin almennu hæfnisskilyrði og það er skoðun nefndarmanna að með þessu eigi að vera hægt að stöðva einstaklinga sem hafa farið fram ógætilega varðandi sinn rekstur og að í nánast öllum tilfellum sem um slíkt sé að ræða þá sé um að ræða refsiverð athæfi sem tengist brotum á einhverjum þeim lögum sem hér eru nefnd.
    Það orkar nokkuð tvímælis að setja inn í þessa upptalningu lög um gjaldþrot vegna þess að í lögum um gjaldþrot eru engin refsiákvæði, þar er bara vísað til refsiákvæða í almennum hegningarlögum. Það var hins vegar skoðun meiri hluta nefndarmanna að æskilegt væri miðað við forsögu málsins og upphaflegu tillöguna, að laga um gjaldþrot væri einnig getið í þessari upptalningu til þess að minna á það að upphaflega hugsunin á bak við þetta ákvæði, þegar hún var sett inn í frv., var að koma í veg fyrir síendurtekin gjaldþrot.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa upp allar skýringarnar með brtt. eða nál. í heild. Ég vísa til þess í þskj. 400, 401 og 402.
    Ég vil að lokum geta þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og lýsir sig samþykka áliti þessu nema breytingum á þeim ákvæðum frv. er fjalla um réttindasviptingu vegna ítrekaðra gjaldþrota þar sem hún telur eðlilegra að upphaflega skilyrðið hefði staðið óbreytt.