Hlutafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 11:37:18 (2836)


[11:37]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegur forseti. Þau mál sem eru á dagskrá þessa fundar og eru komin til 2. umr. frá efh.- og viðskn. eru öll mikil að vöxtum, þ.e. fjögur þeirra, frumvörpin um bókhald, ársreikninga, hlutafélög og einkahlutafélög. Hér er loksins verið að afgreiða langþráðar breytingar á ýmist mjög gömlum lögum eða lagabálkum sem voru farnir að kalla á miklar breytingar.
    Vegna þeirrar umræðu sem fór fram milli hv. 10. þm. Reykv. og formanns efh.- og viðskn., þá er rétt að taka það fram að í þessari viku komu á fund nefndarinnar fulltrúar þeirrar nefndar sem hafði verið að fara í gegnum viðurlög við ýmsum skattalagabrotum, bókhaldsbrotum og fleiru slíku. Þeir kynntu fyrir okkur allviðamiklar breytingar sem nefndin hafði unnið og við stóðum einfaldlega frammi fyrir því að annaðhvort yrði að fresta afgreiðslu þessara stóru frv. eða láta þennan viðurlagakafla bíða. Við ákváðum að fara þá leið að halda þeim viðurlögum sem nú þegar er að finna í gildandi lögum og í þeim breytingum sem hér er verið að gera en að fara í það strax eftir áramót að kanna og fara í gegnum þær breytingar sem nefndin leggur til. Þær eru einfaldlega svo viðamiklar að það hefði ekki verið forsvaranlegt að taka þær inn í brtt. við frv. án þess að þær hefðu fengið einhverja umfjöllun úti í samfélaginu, án þess að okkur hefði gefist kostur á að kalla til ýmsa þá aðila sem málið snertir.
    Virðulegur forseti. Aðalerindi mitt í þennan ræðustól okkar er að gera grein fyrir fyrirvara sem ég hef við frv. um hlutafélög en hann varðar 54. gr. Það er það atriði sem nefndin ræddi einna mest og vafðist mjög fyrir okkur og minn fyrirvari snýr að því að ég er ekki alveg sátt við þá breytingu sem er verið að leggja til frá frv. Ég held að breytingin nái ekki alveg þeirri hugsun sem er í frv. sem er sú að koma í veg fyrir að menn leiki þann leik að fara í gjaldþrot aftur og aftur. Það er nú svo að það þarf ekki að vera lögbrot þar að baki. Hugmyndin með tillögunni eins og hún er í frv. var sú að setja skilyrði. Ef menn hefðu lent í gjaldþrotum þá yrðu menn að bíða í þrjú ár frá uppkvaðningu síðasta gjaldþrotaúrskurðar áður en þeir gætu gerst stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar í öðru fyrirtæki. En það varð samkomulag með fyrirvara um að fara aðra leið og þrengja hæfnisskilyrðin en ég held samt sem áður að þetta sé atriði sem þurfi að skoða og við verðum þá bara að sjá hvernig þetta ákvæði reynist. En ég óttast að eins og það er nú orðið þá nái það ekki þeim tilgangi sem ætlunin var í upphaflegu frv.
    Að öðru leyti eru eins og hv. þm. sjá margar brtt. við frv. Ýmist eru þær til samræmingar eða þetta eru ýmsar tæknilegar breytingar. Það hefur verið lögð mikil vinna í þessi frv. bæði af hálfu nefndarinnar og þeirra sérfræðinga sem við höfum haft okkur til aðstoðar. Þetta eru, eins og ég nefndi í upphafi, langþráðar breytingar, þetta eru langþráð lög sem hér er verið að samþykkja og þau eru til mikilla bóta.