Evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:23:38 (2845)


[12:23]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nú ekki alveg 100% nákvæmt hjá formanni að undir þetta skrifi allir fyrirvaralaust. Ég kaus að undirrita nefndarálitið með fyrirvara. Það er í sjálfu sér ekki vegna þess að ég sé efnislega andvígur neinum einstökum ákvæðum frv. en hér er verið að lögfesta tiltekna reglugerð Evrópusambandsins, nr. 2137 frá 1985, ef einhver hefur áhuga á því. Ég taldi ástæðu til að hafa fyrirvara almennt séð á þeirri tengingu inn í íslenska löggjöf sem í þessu felst samkvæmt þeirri venju sem við alþýðubandalagsmenn höfum fylgt í tengslum við afgreiðslu á málum af þessu tagi.
    Í öðru lagi varpaði ég fram þeirri spurningu í nefndarstarfinu hvort ástæða væri til að tengja eða binda þessi ákvæði sérstaklega við Evrópu og hvort ekki væri þá í reynd jafngilt eða eðlilegra að setja hér einfaldlega löggjöf um fjárhagsleg hagsmunafélög sem gætu þá átt við í samskiptum við aðra en aðila að Evrópusambandinu eða Evrópska efnahagssvæðinu. Það kann vel að vera að það sé í raun eðlilegast að lögfesta þetta með þessum hætti og með þessu heiti, þ.e. að þýða beint yfir á íslenskuna heiti ákvæðanna eins og þau eru í hinum evrópska rétti og heita þar evrópsk fjárhagsleg hagsmunafélög, jafnfallega eins og það nú hljómar en í sjálfu sér er ég almennt séð þeirrar skoðunar að þegar við erum að taka upp í okkar löggjöf ákvæði, þá eigum við að láta það ráða hvort þau séu í eðli sínu efnislega skynsamleg eða ekki og ef þau eru það, ef við teljum þau vera til bóta og skynsamlega löggjöf í sjálfu sér, þá sé eðlilegt að lögfesta hana sem almenna reglu en ekki bara að því marki sem við erum skuldbundin til þess gagnvart öðrum aðilum að Evrópska efnahagssvæðinu. Fyrirvari minn sem sagt lýtur aðallega að þessum tengslum málsins við íslenska löggjöf.