Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:28:19 (2848)

[12:28]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, fyrir hönd hv. heilbr.- og trn.
    Nefndin lagði mikla vinnu í þetta mál og kallaði til sín á sinn fund fjölmarga aðila sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu. Ég vil sérstaklega gera grein fyrir breytingu er hv. nefnd var sammála um að leggja til við hv. Alþingi.
    Á eftir lokamálsl. 2. gr. komi nýr málsl. er orðist svo:
    ,,Rísi ágreiningur um bótafjárhæð skal málinu skotið til gerðardóms sem ráðherra setur nánari ákvæði um í reglugerð, sbr. 5. gr. laga þessara.``
    Þannig hljóðar brtt. Hér er lagt til að kveðið verði á um að ef vátryggjanda og vátryggingataka greini á um bótafjárhæð í þeim tilvikum sem vátryggjandi telur brunabótamat greinilega hærra en markaðsverð húseignar þá verði málinu skotið til gerðardóms. Á grundvelli 5. gr. laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, hefur heilbr.- og trmrh. sett reglugerð, nr. 484/1994, um lögboðna brunatryggingu húseigna. Kveðið er á um gerðardóm í 4. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Rísi ágreiningur um brunabótamat eða bótafjárhæð má skjóta málinu til gerðardóms. Gerðardómur skal skipaður tveimur mönnum sem héraðsdómur í umdæmi því sem húseign er í tilnefnir hverju sinni. Skal annar þeirra fullnægja skilyrðum til að gegna starfi héraðsdómara. Fyrir kostnað vegna gerðardóms skal greiða samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra vátryggingarmála setur. Kostnað við gerðardóm ber að jafnaði sá sem gerð gengur á móti.``
    Nefndin vill leggja áherslu á að regla 2. gr. frv. er undantekningarreglan og þau tilvik sem fallið gætu undir hana hafa að jafnaði verið 2--3 á ári samkvæmt upplýsingum frá Vátryggingafélagi Íslands. Reglur um brunatryggingar húseigna byggjast á þeirri meginreglu að eign sé endurbyggð og að húseigandi fái fullar bætur byggðar á brunabótamati. Undantekningarreglan kemur einungis til greina ef vátryggingataki ákveður að endurbyggja ekki heldur fá andvirði húseignar sinnar greitt. Nefndin telur hins vegar nauðsynlegt að í lögum sé regla sem heimilar frávirk frá brunabótamatsviðmiðun og bendir á að reglur um brunatryggingar húseigna hafi að ýmsu leyti sérstöðu innan vátryggingasviðsins. Í því sambandi má m.a. nefna að um er að ræða lögbundnar vátryggingar og grundvöllurinn, brunabótamatið, er metið af þriðja aðila. Þá bendir nefndin á að regla 2. gr. frv. er í samræmi við meginreglur vátryggingarsamningalaga, nr. 20/1954, sem fela í sér að vátryggður fái raunvirði hlutar bætt miðað við þann tíma sem tjón verður.
    Þá vill nefndin taka fram að með tilkomu umsýslugjalds Fasteignamats ríkisins, sem kveðið er á um í 1. gr. frv., mun stofnunin hætta að innheimta gjöld vegna afhendingar vottorða. Auk þess er stefnt að því að bæta þjónustu við viðskiptavini Fasteignamats ríkisins og endurbæta skráningarkerfi fasteigna. Nefndin leggur áherslu á að framangreind atriði eru forsenda fyrir álagningu umsýslugjaldsins.
    Talsverð umræða varð um það í nefndinni hvort orðin ,,að jafnaði`` í a-lið 1. gr. frv. ættu rétt á sér og fram kom það sjónarmið að orðalagið væri óskýrt. Nefndin leggur ekki til breytingu á ákvæðinu þar sem talið er nauðsynlegt að lögin geri ráð fyrir því svigrúmi þannig að unnt verði í vissum tilvikum að fela dómkvöddum matsmönnum að annast fyrstu virðingu. Á það ekki síst við í hinum dreifðu byggðum landsins. Á hinn bóginn telur nefndin rétt að meginreglan verði sú að Fasteignamat ríkisins annist fyrstu virðingu þannig að samræmd vinnubrögð mótist á þessu sviði.
    Ég vil taka það fram, hæstv. forseti, að undir þetta álit rita allir hv. þm. heilbr.- og trn., Gunnlaugur Stefánsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigríður A. Þórðardóttir, en eftirtaldir hv. þm. skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara: Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, hv. þm. Guðrún J. Halldórsdóttir og hv. þm. Finnur Ingólfsson.
    Hæstv. forseti. Að lokinni 2. umr. legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.