Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:33:47 (2849)


[12:33]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. formanni heilbr.- og trn. þá ritar minni hluti nefndarinnar undir þetta nál með fyrirvara og fyrirvari okkar byggist fyrst og fremst á því að það kom fram í þeim viðræðum sem við áttum við þá aðila sem komu á fund nefndarinnar að reglugerð sem sett hefði verið m.a. vegna umsýslugjaldsins hefði ekki haft lagastoð og frv. væri flutt m.a. til þess að taka af öll tvímæli þess efnis. Það komu fram miklar gagnrýnisraddir á að verið væri að setja reglugerðir sem ekki ættu sér ábyrga stoð í lögum og eðlilega. Minni hluti eða stjórnarandstaðan í hv. heilbr.- og trn. hefur tekið undir þessa gagnrýni og fyrirvari okkar byggist fyrst og fremst á því.
    Að öðru leyti erum við sammála frv. eins og fram kemur í nefndarálitinu og töldum að það væru komnar fram fullnægjandi skýringar á t.d. umsýslugjaldinu þar sem Fasteignamati ríkisins er heimilt að taka svokallað umsýslugjald eins og kveðið er á í 1. gr. frv. en þá mun stofnunin hætta að innheimta gjöld vegna afhendingar vottorða eins og viðgengist hefur. Umsýslugjaldið á að dekka allan þann kostnað sem neytendur hafa fram undir þetta þurft að greiða við afhendingu ýmissa vottorða sem farið hefur verið fram á hjá Fasteignamati ríkisins. Eins og kemur fram í nefndarálitinu höfum við lagt áherslu á að framangreint atriði er forsenda fyrir álagningu umsýslugjaldsins og forsenda þess að við föllumst á það. En ég vil ítreka þau vinnubrögð sem voru viðhöfð hjá ráðuneyti, ekki af hálfu hv. heilbr.- og trn. heldur ráðuneytis sem setti reglugerð sem átti að byggja á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, en það kom mjög skýrt fram hjá flestum þeim sem komu á fund nefndarinnar að þessi reglugerð hefði ekki átt stoð í lögum þrátt fyrir að annað kæmi fram frá heilbr.- og trmrn. Það að ráðuneytið taldi nauðsyn á að flytja þetta frv. staðfestir að þarna var um afar veika lagastoð að ræða sem reglugerðin byggði á.