Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:37:08 (2850)


[12:37]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, þá var fyrirvari okkar sem skipum minni hlutann í heilbr.- og trn. einmitt sá sem hún lýsti mjög vel að hér er verið að tryggja raunverulega eftir á. Það var sett reglugerð sem ekki átti sér lagastoð og nú er verið að tryggja að sú reglugerð fái

þá lagastoð sem þarf.
    Í þessu frv. um breytingu á lögum um brunatryggingar koma fram ýmsar breytingar, kannski ekki stórvægilegar en þær sem eru boðaðar hér eru til bóta að því leytinu til að nú verður landskrá fasteigna sett á laggirnar sem ég tel vera mjög mikilvægt, en það fylgir sá böggull skammrifi að um leið er verið að boða hér nýja skattlagningu á húseigendur sem er í heildina um 30--40 millj. kr. Fyrir hvern húseiganda mun þetta gjald vera svona í kringum 250--300 kr. á ári og á að innheimtast á hverju ári. Í staðinn verður ekki tekið gjald fyrir vottorð sem fólk þarf að fá vegna fasteignamatsins en þetta umsýslugjald er nýtt og nú mun Fasteignamat ríkisins að öllu jöfnu eins og stendur í frv. annast fyrstu virðingu fasteigna.
    Það er önnur nýbreytni í frv. varðandi 2. gr. Hún lýtur að því að hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji vátryggjandi brunabótamats húseignar greinilega hærra en markaðsverð húseigna, þá er vátryggjanda heimilt að miða bótafjárhæð við markaðsverð viðkomandi húseignar. Okkur fannst í nefndinni að þetta væri of ákveðið svona og þess vegna liggur fyrir brtt. um að það sé hægt að vísa málinu til gerðardóms. Um það náðist samkomulag sem ég tel vera til bóta.
    Hingað til hefur það verið þannig að brenni húseign t.d. á afskekktum stað þar sem lítið fæst fyrir eignina hefur ekki verið mikið svigrúm fyrir eigandann að fá að byggja annars staðar. Annaðhvort byggir hann á þessum stað og fær þá greitt eins og kostar að byggja upp á nýtt eða ekki neitt. En með þessu frv. ef að lögum verður getur eigandi og vátryggjandi ákveðið að byggja ekki á þeim stað sem húsið var á og fær þá viðkomandi greitt markaðsverð mínus 15% og getur þá byggt á þeim stað sem hann telur hagkvæmast. Í þessu eru því líka vissar bætur fyrir þá sem tryggja.
    Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það eru ekki aðrar breytingar boðaðar í frv.