Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:56:35 (2855)


[12:56]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil aftur ítreka það að hér er verið að tala um undantekningarreglu í þeim tilfellum sem tjónþoli óskar sjálfur eftir því að ekki verði byggt upp hús á sama stað eftir brunatjón heldur óskar eftir því að fá andvirði eignar sinnar greitt út. Samkvæmt þeim upplýsingum er nefndinni bárust frá tryggingafélögunum þá er hér um að ræða fá tilfelli á ári eða tvö til þrjú. Í langflestum tilfellum er hús byggt upp og sá kostnaður er greiddur af tryggingafélaginu og þar er ekki um neinn ágreining að ræða.
    Þá vil ég einnig vekja athygli aftur á gerðardómsákvæðum er við gerum brtt. um til þess að tryggja enn betur rétt tjónþolans í þessu sambandi. Rísi ágreiningur um bótafjárhæð skal málinu skotið til gerðardóms sem ráðherra setur nánari ákvæði um í reglugerð skv. 5. gr. laganna. Þannig hljóðar brtt. Ef tjónþolinn telur sig órétti beittan, m.a. með tilliti til þess að hann fái ekki raunvirði eignarinnar greitt út og m.a. með tilliti til þess að hann hafi verið að greiða of hátt iðgjald samkvæmt brunabótamati um langt skeið, þá kunna það að vera efni að mati tjónþolans til þess að gera ágreining við viðkomandi tryggingafélag og vísa málinu til gerðardóms.