Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 12:58:53 (2856)


[12:58]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. formaður heilbr.- og trn. segir að brtt. sé til bóta. Það má vel vera að sú brtt. sé aðeins til bóta sem er komin fram en ég vil samt ítreka að ég tel 2. gr. frv. mjög ósanngjarna. Mér finnst ekki hægt að sætta sig við það að brenni hús eða farist af öðrum ástæðum og fólk eigi að fá það bætt samkvæmt brunabótamati sem það hefur borgað sín tryggingaiðgjöld af alla sína tíð þá fái það ekki bætt samkvæmt þeim ákvæðum sem það hafði verið tryggt fyrir. Það er búið að borga nákvæmlega það sama hvort sem það býr á Þórshöfn eða Kópaskeri eða hvar það býr eins og ef það byggi í Reykjavík. Iðgjaldið fer ekki eftir mati á því hvar fólkið býr. Hvort það ætlar síðan að byggja upp aftur á sama stað eða annars staðar á ekki að skipta máli, það á ekki að hegna fólki á einn eða neinn hátt fyrir það.
    Mér er sagt að hér hafi það einnig komið til tals að samhliða hús geti verið þar sem annar aðilinn hafi lent í bruna og ætli síðan að byggja upp á öðrum stað. Sá sem býr við hliðina á ætlar að selja og flytja líka á sama staðinn. Þeir fá sitt hvort verðið fyrir húseignina. Annar selur kannski langt undir brunabótamati en hinn sem lendir í því að hús hans brennur ætti að fá að mínu mati fullt verð fyrir sína húseign eins og hann hefur tryggt hana. Það má segja að það sé óréttlæti í gangi gagnvart þeim sem er að selja sína húseign en við bætum ekkert það óréttlæti með því að koma á enn þá meira óréttlæti í sambandi við greiðslu á tryggingafé vegna brunabóta.