Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 13:01:05 (2857)


[13:01]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Í 1. gr., a-lið, þessa frv. segir:
    ,,Á eftir 3. mgr. komi ný málsgrein sem verður 4. mgr. svohljóðandi:
    Með reglugerð er heimilt að ákveða að húseigendur greiði árlegt umsýslugjald af brunabótamati húseignar til Fasteignamats ríkisins. Viðkomandi vátryggingafélag innheimtir þetta gjald og skilar til Fasteignamatsins. Umsýslugjald þetta skal aldrei vera hærra en 0,03‰ (prómill) af brunabótamati húseignar.``
    Ég spyr: Er hér um nýjan skatt að ræða á húseigendur í landinu? Fasteignamatið metur fasteignir, jarðir og hlunnindi til fasteignamats og eigendur greiða það til viðkomandi sveitarfélags. Þarf endilega að bæta ofan á það að þeir sem greiða þessa skatta eigi að greiða til Fasteignamatsins? Er ekki fyrst og fremst verið að meta þetta í þágu þeirra sem fá þessar tekjur? Erum við ekki alltaf að tala um að vera ekki að koma alltaf með nýja skatta eða ný gjöld? Það er verið að reyna að halda niðri verðlagi eins og hægt er og hefur tekist með miklum ágætum, að við erum í staðinn fyrir að vera eitt mesta verðbólguþjóðfélag heims að verða með þeim allra lægstu og því held ég að Alþingi verði að halda vöku sinni að standa ekki að því að leggja nýjar kvaðir á einstaklingana.
    Við skulum líka muna eftir því að það er ekki allur atvinnurekstur sem stendur með blóma og fasteignir atvinnufyrirtækjanna eru miklar. Heimilin standa ekki allt of vel að vígi og hér eru fluttar svo að segja daglega hjartnæmar ræður um stöðu heimilanna og það þurfi að bæta úr henni. Verðum við ekki að hafa það inni í myndinni, þó að þetta sé ekki hár eða mikill skattur, að hlaupa ekki alltaf til hvað sem kemur frá einhverju kerfisfólki utan úr bæ?
    Svo vil ég koma inn á það sem hér hefur verið gert að umræðuefni og það með fullum rétti að í frv. segir að 2. mgr. 3. gr. verði svohljóðandi: ,,Vátryggjanda er heimilt að veita undanþágu frá byggingarskyldu að höfðu samráði við skipulagsyfirvöld gegn því skilyrði að 15% dragist frá bótafjárhæðinni.``
    Ég spyr: Ef við tryggjum innbú þá ráðum við sjálf og tryggingafélagið skoðar það ef það telur upphæðina of háa eða of lága. Ef hún er of lág þá bendir það yfirleitt viðskiptamanni sínum á að þetta sé lágt metið hjá honum. Ef innbúið brennur, ef bíllinn brennur eða vélar sem eru tryggðar og áhöld verða fyrir brunatjóni þá eru tjónbætur greiddar eftir vátryggingaskírteini. Engin skilyrði eru um að ef þau eru í einhverju sérstöku húsi eða á einhverjum sérstökum stað þá sé skylt að draga 15% frá. Ég segi fyrir mitt leyti að ef einstaklingur eða félag eða hver sem er greiðir iðgjald af ákveðinni vátryggingafjárhæð þá get ég ekki séð að það réttlæti þennan frádrátt þó þetta hafi verið með nokkuð líku sniði lengi í lögum. Það á að vera algerlega á valdi þess sem verður fyrir brunatjóninu hvort hann ætlar að byggja aftur eða ekki. Ef hann ætlar ekki að byggja aftur þá á stóri bróðir ekki að geta sagt: Ef þú ekki byggir aftur þá tökum við af þér 15%. En hins vegar á sú skylda að hvíla á viðkomandi að hann verður að jafna brunarústir við jörðu og ganga þannig frá lóðinni ef hann fær fullt vátryggingamat að viðkomandi skipulagsyfirvöld í viðkomandi sveitarfélagi hafi ekkert út á það að setja.
    Það eiga ekki að vera svona frádráttarákvæði finnst mér eins og er eingöngu varðandi húseignir þegar það er hvergi annars staðar. Ég er ekkert að gagnrýna nefndina en mér finnst að þessi mál fái ekki nægilegan tíma. Það er svo mikið sem hvílir á þessum nefndum þannig að fólk sem er í þeim fær ekki nægilegan umhugsunartíma til að leggja niður fyrir sér hvað er rétt og hvað er rangt, hvað þarf að bæta og hvað þarf ekki að bæta. Þess vegna vil ég vara við þessu fyrir mitt leyti.