Brunatryggingar

62. fundur
Laugardaginn 17. desember 1994, kl. 13:07:53 (2858)


[13:07]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Spurningin um það hvort hér sé um nýjan skatt að ræða þá er það rétt að þetta gjald það er 25 kr. á hverja milljón í brunabótamati og á að gefa Fasteignamati ríkisins tekjur upp á 35--40 millj. Við getum verið að tala um fjárhæðir á meðalíbúð upp á 250 kr. Á móti kemur að Fasteignamat ríkisins hefur tilkynnt hv. heilbr.- og trn. að hún muni leggja niður gjaldtöku fyrir ýmis vottorð er Fasteignamatið gefur út og einnig reyna að bæta þjónustuna eins og kostur er.
    Í sambandi við hugleiðingar hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar um að þessi skattur muni kannski leggjast á atvinnureksturinn og þá í sjávarútvegi þar sem víða er við erfiðleika að etja þá leituðum við álits hjá Samtökum fiskvinnslustöðva og fulltrúi þeirra kom m.a. á fund nefndarinnar og skilaði einnig skriflegu erindi til nefndarinnar um þetta efni. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samtök fiskvinnslustöðva gera ekki athugasemdir við frv. að öðru leyti en því að lagt er til að 2. mgr. 3. gr. falli brott en hún hljóðar þannig . . .  `` o.s.frv. Svo segir m.a. í þessu áliti: ,,Þar sem mat hefur farið fram á viðkomandi húseign og það verið samþykkt af báðum aðilum og iðgjald verið greitt miðað við matsupphæðina er sú málsmeðferð sem hér er gert ráð fyrir óeðlileg og óþörf.``
    Þeir gera með öðrum orðum athugasemd m.a. við síðustu málsgrein 2. gr. en ekki við gjaldtökuna sjálfa og fella sig við hana. Ég ætla ekki að ræða frekar um þá hlið málsins, síðustu málsgrein 2. gr., það hef ég gert og tel að við það sé ekki frekar að bæta.