Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:06:50 (2879)


[15:06]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í tilefni af því að samkvæmt áætlun, sem nýlega var dreift í þingflokkunum um afgreiðslu mála fyrir jólahlé, er gert ráð fyrir að ljúka þingstörfum á miðvikudag, meira að segja fyrri hluta miðvikudags, og að fjáraukalög 1994 og fjárlög fyrir árið 1995 ættu að vera til 3. umr. á morgun, þriðjudag. Mér sýnist nokkuð ljóst, virðulegi forseti, eins og mál standa í augnablikinu að erfitt verði að koma því við. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að fjárln. hefur ekki lokið störfum sínum. Að vísu er boðaður fundur þar síðar í dag og þar á enn eftir að fjalla um ákveðna þætti gjaldahliðar fjárlaganna fyrir utan að við höfum lítið fengið enn að sjá um þær breytingar sem hugsanlegar eru og hljóta reyndar að verða á tekjuhliðinni. Gjaldahliðin hefur oftast nær verið klár fyrr en örfáum klukkustundum áður en 3. umr. á að hefjast og er þó búið að láta liggja að því að þar kunni að verða um breytingar að ræða sem skipta hundruðum millj. ef ekki milljörðum kr. Ég hygg að það skipti milljörðum kr. sem þegar liggur fyrir að gjaldahliðin muni breytast.

    Þetta vinnulag getur ekki flýtt fyrir þingstörfum, virðulegi forseti, og verður varla sakast við stjórnarandstöðuna um það hvernig mál ganga hér fram. Það eru ekki stór ágreiningsmál uppi sem hafa haldið þinginu gangandi fram á nætur eins og stundum áður fyrir jól, þvert á móti. Þingfundir hafa verið óvenjustuttir og lítið um að vera í þingsölum og því miður held ég að það hafi fremur lítið verið líka um að vera í nefndunum sem þyrftu að vinna af fullum krafti, bæði fjárln. og efh.- og viðskn. Að minnsta kosti hefur það ekki mætt mjög á okkur stjórnarandstæðingum og við höfum ekki tafið fyrir þinghaldi. Ég held að fyrst og fremst sé um að ræða ráðleysi og ósamkomulag stjórnarflokkanna sjálfra og þeirra sem eiga að leiða vinnuna í gegnum Alþingi af þeirra hálfu. Ég spyr því, virðulegi forseti: Er líklegt að þessi áætlun geti staðist? Ég leyfi mér að setja fram mínar efasemdir um að það gangi upp.