Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:10:06 (2881)



[15:10]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að menn átti sig á hversu óvenjulegar aðstæður er við að glíma í þinginu og þær stafa af nokkrum ástæðum. Það hefur komið fram að stjfrv. voru mjög seint fram komin að þessu sinni sem varða skattamál o.fl. Í öðru lagi er áberandi að ágreiningur milli ráðherra hefur tafið störf þingnefnda undanfarna sólarhringa og jafnvel bréfaskriftir milli ráðherra um einstök deilumál eru harla fátíðir atburðir en um slíkt eru dæmi. Í þriðja lagi eru ýmsar upplýsingar afar seint fram komnar eins og nýjar þjóðhagsforsendur og það hefur tafið að efh.- og viðskn. gæti látið frá sér fara álit á tekjuhlið fjárlagafrv. að nýjar þjóðhagsforsendur hafa fyrst verið að birtast síðustu sólarhringa. Þess vegna er mín skoðun, hæstv. forseti, og ég vil beina því til hæstv. forseta þegar fundir fara fram um þessi mál hér á eftir að menn taki það til alvarlegrar skoðunar að málefnum verði forgangsraðað hér í afgreiðslu þingsins næstu sólarhringana. Ég held að það sé augljóst mál að ekki er tími til að afgreiða fyrir jólahlé og í raun og veru ekki fyrir áramót annað en það sem óhjákvæmilegt er vegna fjárlaga og álagningargjalda um næstu áramót. Og það ber að taka það til skoðunar að fresta afgreiðslu á öðrum frumvörpum sem ekki eru beinlínis nauðsynleg eða hægt er að geyma fram í janúar. Þar eiga við ýmis frestunarákvæði og breytingaákvæði, t.d. í svonefndum bandormi. Þar á við lánsfjárlög og fleiri slík mál sem tæknilega er gerlegt að fresta og hefur reyndar oft áður verið gert við sambærilegar aðstæður. Ég hvet því hæstv. forseta til þess að taka af raunsæi upp skoðun á því að málum verði forgangsraðað með þessum hætti og reynt að ljúka afgreiðslu á því sem nauðsynlegt er að afgreiða fyrir jól eða áramót en hinu frestað.