Afgreiðsla þingmála fyrir jólahlé

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:15:08 (2884)



[15:15]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að sú áætlun sem gerð var um þinglok fyrir jól var gerð þegar öll þingmál lágu fyrir þannig að þá var öllum ljóst hve snemma eða hve seint þingmálin komu fram í þinginu. Því miður hefur áætlunin ekki gengið eftir af ýmsum ástæðum og ég tek sérstaklega fram að ekki er hægt að kenna stjórnarandstöðunni um það með neinum hætti. Ég tel að stjórnarandstaðan hafi gert sitt til þess að greiða fyrir málum og ég vona satt að segja að í dag á fundi forseta með þingflokksformönnum takist þingflokksformönnunum að ná nýju samkomulagi um afgreiðslu mála fyrir jólahlé. Ég treysti á það að allir aðilar reyni sitt besta til þess að hægt sé að koma fram nauðsynlegum málum fyrir jólaleyfi.
    Varðandi það mál sem hér var sérstaklega nefnt af hálfu síðasta hv. ræðumanns tek ég fram að bæði heilbrrh. og fjmrh. hafa farið yfir þetta mál og sameiginleg niðurstaða liggur fyrir. Misskilningur olli því að málið fór með þessum hætti frá heilbrn. til efh.- og viðskn. en nú hefur sá misskilningur verið leiðréttur þannig að þau bréfaskipti sem annars vegar fóru frá hv. heilbr.- og trn. til efh.- og viðskn. og hins vegar frá fjmrh. til sömu nefndar ættu ekki að þurfa að tefja störf í hv. efh.- og viðskn.
    Hæstv. forseti. Ég vona að þetta skýri málið og treysti því að hægt verði að komast að niðurstöðu um framhald þingsins fram að jólaleyfi.