Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 15:26:24 (2892)

[15:26]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru formenn eða fulltrúar allra þingflokka á Alþingi. Ég vil þegar í upphafi máls míns þakka þeim hv. þingmönnum, sem málið flytja, fyrir ánægjulega og góða samvinnu um þetta mál, svo og öðrum sem að því hafa komið á undirbúningstíma þess. Sú samvinna hefur öll verið með miklum ágætum. Er það raunar sérstakt fagnaðarefni að þingflokkar á Alþingi skuli hafa náð samstöðu um þetta frv. sem ég tel að sé án efa langmerkasta mál þessa þings.
    Í frv. þessu er fjallað um grundvallarréttindi, þau réttindi sem talin eru helgust hverjum borgara landsins og sem við viljum tryggja ofar almennri löggjöf með því að binda í stjórnarskipunarlög. Þetta eru grundvallarréttindi á borð við trúfrelsi, jafnræði allra þegna fyrir lögunum, skilyrði frelsissviptingar og mörk refsinga, rétt manna til að fá úrlausn mála sinna fyrir dómstólum, friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, friðhelgi eignarréttarins, skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi, félagafrelsi, atvinnufrelsi og félagsleg réttindi ýmiss konar. Einnig sérstök ákvæði um réttarvernd barna, bann gegn afturvirkum lögum, bæði skattalögum og refsilögum og ákvæði um stöðu sveitarfélaga.
    Með því að setja í stjórnarskrá ákvæði sem vernda mannréttindi eru þjóðir að taka ákvarðanir um að veita þessum réttindum sérstaklega ríka vernd. Verndin felst fyrst og fremst í því að ekki er unnt að afnema hana með venjulegum lögum. Til þess þarf breytingar á stjórnarskrá sem jafnan eru þyngri í vöfum en venjulegar lagabreytingar.
    Með mannréttindaákvæðum eru leidd í lög almenn ákvæði, sem m.a. virka sem leiðarvísir eða, ef menn vilja heldur, grundvöllur undir almenna löggjöf. Kostur slíkra almennra ákvæða er m.a. sá að þar sjá menn allan skóginn í stað þess að einblína á einstök tré í skóginum. Þegar við t.d. verndum tjáningarfrelsi með almennri reglu erum við jafnt að vernda frelsi til að tjá vinsælar og óvinsælar skoðanir. Ef ekki er í gildi almenn regla sem verndar tjáningarfrelsi er hætt við að frelsinu yrði úthlutað í hlutfalli við vinsældir þess málsstaðar sem til stendur að tjá. Má segja að grundvöllur réttarríkisins hvíli á þessu, þ.e. að fyrir sé mælt um réttindi manna með almennum reglum en ekki með úthlutun réttinda hverju sinni. Þegar grundvallarréttindin eiga í hlut viljum við veita þeim sérstaklega ríka vernd með stjórnarskrárákvæðum sem ekki verður breytt jafnauðveldlega og almennum lögum.
    Ástæða er til að leggja ríka áherslu á að ákvæðin í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar eru ekki síður þýðingarmikil fyrir stjórnskipun ríkisins en þau ákvæði stjórnarskrár, sem fjalla um skipulag og starfsemi helstu valdastofnana þess, sem fara með löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Fyrirkomulagið í stjórnskipun okkar er að við felum ákveðnum valdastofnunum meðferð ríkisvaldsins en segjum um leið að þessar stofnanir megi ekki skerða þau grundvallarréttindi sem við veitum sérstaka vernd með mannréttindaákvæðum. Það kemur síðan í hlut dómstóla að túlka þessi ákvæði þegar á þau reynir í dómsmálum og þá að kveða á um efni þeirrar verndar sem þau veita borgurunum í einstökum tilvikum. Við þetta starf dómstólanna mega þeir að sjálfsögðu hvergi bogna undan þrýstingi sem kann að stafa frá öðrum valdastofnunum þjóðfélagsins heldur ber þeim að tryggja borgurum hiklaust verndina sem að er stefnt með mannréttindaákvæðunum. Það er því brýnt verkefni á hverjum tíma að leitast við að tryggja í verki þá sjálfstæðu stöðu dómstólanna sem að er stefnt í V. kafla stjórnarskrárinnar. Er raunar að finna reglu í 8. gr. þessa frv. sem ætlað er að stuðla að hinu sama.
    Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur verið á döfinni lengi og raunar allar götur síðan lýðveldið var stofnað á Þingvöllum árið 1944. Þegar leið að því að minnast skyldi 50 ára afmælis lýveldis á Íslandi kom upp sú hugmynd að vel færi á því að Alþingi samþykkti nýja stjórnarskrá af því tilefni á hátíðarfundi sínum á Þingvöllum. Það varð að ráði sl. vor að einbeita sér fremur að því að endurskoða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar af þessu tilefni. Þess vegna tók núverandi stjórnarskrárnefnd undir forustu hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, að vinna að því og sendi stjórnarskrárnefndin þingflokkunum drög að nýjum mannréttindaákvæðum 5. apríl sl. Niðurstaða þess máls varð sú ályktun sem Alþingi gerði á hátíðarfundinum 17. júní sl. á Þingvöllum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar, í tilefni 50 ára afmælis lýðveldis á Íslandi, að stefna beri að því að ljúka endurskoðun VII. kafla stjórnarskrárinnar, nr. 33 17. júní 1944, með síðari breytingum, fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar.
    Miðað verði m.a. að því að færa ákvæði kaflans til samræmis við þá alþjóðlegu sáttmála um mannréttindi sem Ísland hefur gerst aðili að. Við endurskoðunina verði höfð hliðsjón af tillögum stjórnarskrárnefndar frá 5. apríl 1994.``
    Eins og fram kemur í þessum ályktunartexta er lögð áhersla á að mannréttindaákvæðin verði endurskoðuð með hliðsjón af alþjóðlegum sáttmálum um mannréttindi sem Ísland á aðild að. Þar er fyrst og fremst um að ræða mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamninginn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, svo og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og enn fremur má nefna félagsmálasáttmála Evrópu.
    Eftir þingfundinn á Þingvöllum ákváðu formenn þingflokka að fá virta lögfræðinga sem hafa sérþekkingu á stjórnskipunarrétti og mannréttindum til að vinna að málinu með hliðsjón af tillögum stjórnarskrárnefndar. Enn fremur var þörf á því að bæta við tillögur stjórnarskrárnefndar nýjum ákvæðum um aðra þætti í VII. kaflanum en þá sem fjalla um mannréttindi en þar er m.a. um að ræða ákvæði um skipan skattamála, um málefni sveitarfélaga og ríkisborgararétt. Loks kom til athugunar að taka trúfrelsisákvæði VI. kafla til athugunar enda eru þau af sama meiði og mannréttindaákvæðin í VII. kafla.
    Frv. sem hér liggur fyrir er í stórum dráttum og efnislega sambærilegt við tillögur stjórnarskrárnefndarinnar að því er mannréttindaákvæðin varðar. Þær hafa þó tekið ýmsum breytingum og eru ítarlegri og ná til fleiri atriða heldur en tillögur stjórnarskrárnefndarinnar gerðu.
    Sú niðurstaða sem fengist hefur í málið er í góðri sátt milli þingflokka að langmestu leyti. Þó eru að sjálfsögðu nokkur atriði sem taka þarf til nánari athugunar í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar. Það var mat okkar formanna þingflokka að til mikils væri að vinna að koma frv. fram áður en Alþingi fer í jólahlé og vísa því til nefndar til þess að það fengi nokkra umfjöllun þar og úti í þjóðfélaginu áður en það yrði tekið til endanlegrar afgreiðslu, væntanlega í febrúar.
    Greinargerð með frv. þessu er vönduð og ítarleg. Er því ekki þörf á því að fara í þessari framsöguræðu mjög nákvæmlega yfir einstök efnisatriði frv. heldur vil ég vísa til bæði hinnar almennu greinargerðar svo og athugasemda við einstakar greinar.
    Ég mun þó í stuttu máli fara yfir helstu atriði frv. en við endurskoðunina hafa verið höfð að leiðarljósi einkum þrjú atriði: Í fyrsta lagi að styrkja og samræma ákvæðin í kaflanum þannig að þau gegni betur því hlutverki sem þeim er ætlað, þ.e. að vera vörn almennings í samskiptum við þá sem fara með ríkisvald.
    Í öðru lagi að reyna að færa ýmis ákvæði til nútímalegra horfs. Þetta er jafnframt mikilvægt atriði vegna þess að landsmenn eiga að geta lesið út úr stjórnarskránni auðskiljanlegan texta sem stendur þeim nærri, ekki texta sem er til marks um tíðaranda síðustu aldar. Eins og kunnugt er eru núverandi mannréttindaákvæði að stofni til frá 1874 og mörg hver býsna framandi að orðalagi og orðavali.
    Í þriðja lagi var haft að leiðarljósi, eins og áréttað hefur verið, að taka mið af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem íslenska ríkið hefur gengist undir gagnvart alþjóðlegum mannréttindasáttmálum.
    Uppbygging frv. er sú að í stað greinanna í VII. kafla koma jafnmargar nýjar greinar og enn fremur er tveimur greinum VI. kafla breytt þannig að skipulag stjórnarskrárinnar, ef svo má að orði komast, raskast ekki.
    Ég legg áherslu á að það þótti ekki ráðlegt að reyna að taka upp í stjórnarskrána með tæmandi hætti og í ítarlegu máli öll réttindi sem fram koma í alþjóðasáttmálum, enda getur það leitt til hættu á að gagnályktað yrði af ákvæðunum. Þess í stað er ráðgert í frv. að bæta við ákveðnum mikilvægum grundvallarréttindum og er þá leitast við að skrá og skilgreina öll óskráð réttindi sem óumdeilanlega hafa verið og eru áfram talin sjálfsagðar undirstöðureglur í allri íslenskri stjórnskipan þótt nokkrum slíkum réttindum sé bætt við. Að þessu leyti er þannig haldið við stefnu núgildandi mannréttindaákvæða sem einkennast af knöppum og kjarnyrtum stíl á framsetningu grundvallarreglna. Allri nánari útfærslu er sleppt en ætlast er til að hún birtist í almennri löggjöf sem byggð er á þessum grundvallarreglum.
    Í mörgum tilvikum þar sem lagt er til að bæta við nýjum mannréttindaákvæðum eru fyrir ákvæði í almennri löggjöf þar sem þessi réttindi eru vernduð. Það þykir þó vera tryggara í ljósi mikilvægis þeirra að orða kjarna þeirra sérstaklega í stjórnarskipunarlögum ásamt öðrum grundvallarréttindum. Í nokkrum tilvikum hefur þó jafnframt verið tilefni til að skilgreina ítarlega réttindi sem þegar njóta stjórnarskrárverndar.
    Ég mun nú, virðulegi forseti, rekja helstu breytingar frv.
    Í 1. og 2. gr. þess eru gerðar tillögur um orðalagsbreytingar á núgildandi 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar sem eru í VI. kafla hennar. Hér er ekki um efnislegar breytingar að ræða heldur rýmkað orðalag því til áréttingar að þótt hér sé kristin þjóðkirkja í landinu þá hafi menn frelsi til að iðka aðra trú. Í 2. gr. vaknar það álitamál hvort maður utan trúfélaga skuli greiða gjöld til Háskóla Íslands eða hugsanlega annarrar menningar- eða líknarstarfsemi. Tel ég eðlilegt að þingnefndin velti því atriði betur fyrir sér.
    Í 3. gr. eru tillögur um nýja 65. gr. Í henni er sett fram almenna jafnræðisreglan þar sem kveðið er á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum. Þessi regla hefur að sjálfsögðu verið talin til óskráðra undirstöðuréttinda í íslenskri stjórnskipan en það er mikilvægt að festa hana í stjórnarskránni. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að með lögfestingu þessarar reglu er núgildandi 78. gr. stjórnarskrárinnar ofaukið en þar er kveðið á um að sérréttindi sem bundin eru við aðal, nafnbætur og lögtign megi ekki taka í lög. Er gengið út frá því að almenna jafnræðisreglan í 3. gr. feli tvímælalaust í sér sömu reglu.
    Í 4. gr. eru nokkur nýmæli í tillögu um nýja 66. gr. stjórnarskrárinnar. Þar eru í 1. mgr. reglur um skilyrði fyrir því maður missi íslenskan ríkisborgararétt og einnig sett fram reglan um að útlendingi verði aðeins veittur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum. Ákvæði 2. og 3. mgr. 66. gr. eru um hvernig mönnum verður neitað að koma til og frá landinu svo og um brottvísun úr landi en einnig um almennt ferðafrelsi og frelsi til að ráða dvalarstað sínum innan lands sem ekki hafa áður verið bundin í stjórnarskrá.
    Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á því að samkvæmt greininni á Alþingi val um það hvort sú skipan sem verið hefur á veitingu ríkisborgararéttar verði til frambúðar, þ.e. að sá réttur verði veittur tilteknum einstaklingum með lögum einu sinni til tvisvar sinnum á hverju þingi eða að veiting ríkisborgararéttar verði færð yfir til framkvæmdarvaldsins. Í því tilviki yrði að setja í lög nákvæmar reglur um það

hvenær útlendingur ætti rétt á ríkisborgararétti. Að mörgu leyti væri sú leið til bóta að mínu mati og væri það þá stjórnvaldsákvörðun á grundvelli skýrra lagaskilyrða hver hlyti ríkisborgararétt og hver ekki.
    Í 5. gr. frv. er fjallað um nýja 67. gr. og reglur sem varða frelsissviptingu. Meginefni þessarar greinar hefur fram að þessu komið fram í ákvæðum laga um meðferð opinberra mála. Eins og áður var tekið fram er ástæða til að árétta mikilvægi þessara reglna um réttarstöðu frelsissviptra manna með því að stjórnarskrárbinda þær. Núgildandi reglur um rétt handtekins manns er að finna í 65. gr. stjórnarskrárinnar en það er nýmæli í 5. gr. frv. að í fyrsta lagi að mælt er fyrir um að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Í öðru lagi kemur skýrlega fram í 2. mgr. að hver sá sem er sviptur frelsi eigi rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Í 3. mgr. koma fram reglur sem eru sambærilegar við 65. gr. núgildandi stjórnarskrár en er lítils háttar breytt að orðalagi. Í 4. mgr. er svo skýrlega kveðið á um rétt manns sem hefur verið sviptur frelsi af öðrum ástæðum en vegna gruns um refsiverða háttsemi, til að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má.
    Loks er fjallað um rétt manns til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju. Allt eru þetta mjög mikilvæg réttindi sem rétt er að binda traustlega í stjórnarskrá.
    Í 6. gr. frv. er tillaga um að sú grundvallarregla verði tekin upp að engan megi beita ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og að engum verði gert að leysa af hendi nauðungarvinnu. Sambærileg regla er ekki í núgildandi stjórnarskrárákvæðum. Þótt þessi regla hafi fram til þessa verið álitin sjálfsögð, þá þykir tryggara að hún komi hér fram í stjórnarskrártexta með skýrum hætti.
    Í 7. gr. er gerð tillaga um efni nýrrar 69. gr. Í greininni er mælt fyrir um bann við afturvirkni refsilaga og bann við að heimila í lögum dauðarefsingu. Bann við afturvirkni refsilaga er reyndar í almennum hegningarlögum, en rétt þykir að binda þetta grundvallaratriði í stjórnarskrá. Fortakslaust bann við dauðarefsingum þykir eðlilegt og í samræmi við íslenska réttarvitund enda var heimild til dauðarefsinga numin úr lögum þegar árið 1928 og hafði þá ekki verið beitt í marga áratugi.
    Í 8. gr. er fjallað um efni nýrrar 70. gr. en þar er fjallað um lágmarksskilyrði þess að maður geti talist njóta réttlátrar málsmeðferðar í einkamálum og opinberum málum fyrir dómstólum. Regla af þessu tagi er ekki í gildandi stjórnarskrárákvæðum en atriðin sem eru talin í þessari grein koma öll með einum eða öðrum hætti fram í gildandi réttarfarslöggjöf.
    Í 9. gr. frv. eru reglur um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í núgildandi ákvæðum stjórnarskrárinnar er aðeins mælt fyrir um friðhelgi einkalífs. Þrátt fyrir þetta leiðir ákvæði 9. gr. ekki til teljandi efnisbreytinga ef tekið er tillit til viðurkenndra óskráðra grunnreglna samhliða núverandi 66. gr. Ákvæðin í 9. gr. eru þó að ýmsu leyti ítarlegri um friðhelgi heimilisins en núgildandi reglur eru, t.d. um hvers konar þvingunaraðgerða megi grípa til eftir dómsúrkurði eða sérstakri lagaheimild.
    Ég vil geta þess í þessu sambandi að það kom mjög til umræðu við undirbúning frv. að nauðsynlegt væri að tryggja með einhverjum hætti að reglur um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu væru ekki notaðar sem skálkaskjól fyrir ofbeldisverk inni á heimilum. Flutningsmenn telja mikilvægt að það sé tryggt að ekki sé unnt að misnota hin mikilvægu réttindi í þessari grein til þess að fremja í skjóli þeirra ofbeldisverk á heimilum, t.d. á börnum. Það er skýringin á þeim ákvæðum sem fram koma í lokamálsgrein 9. gr. og eru vissulega undantekning frá mikilvægri reglu.
    Í 10. gr. frv. eru tekin upp óbreytt gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins en bætt er við nýrri málsgrein þar sem tekið er fram að með lögum megi takmarka rétt annarra en íslenskra ríkisborgara til að eignast fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Ég legg áherslu á í þessu sambandi að hér er einungis um almenna heimild að ræða, ekki fyrirmæli til löggjafans um að takmarka rétt annarra ríkisborgara til að eignast fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtækjum heldur ákvæði til að tryggja það að löggjafinn hefði til þess heimild ef það væri á annað borð talið æskilegt. Vitaskuld er löggjafinn bundinn af ýmsum alþjóðlegum samningum sem takmarka slíkt og nefni ég EES-samninginn í því sambandi. Rétt er að þingnefndin kanni til hlítar þau atriði sem hér gæti verið um að tefla með tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands.
    11. gr. frv. er á margan hátt dæmigerð fyrir þær breytingar sem nú er verið að gera á stjórnarskránni. Í núgildandi 72. gr. stjórnarskrárinnar segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar á prenti. Þó verði hann að ábyrgjast þær fyrir dómi en ritskoðanir eða aðrar tálmanir á prentfrelsi megi aldrei í lög leiða.
    Eins og öllum er kunnugt hefur mikil breyting orðið á sviði fjölmiðlunar frá því þessi ákvæði voru sett. Nauðsynlegt er að tryggja skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi á sem flestum sviðum. Þess vegna er í 11. gr. tillaga um að þessi grein stjórnarskrárinnar sem verður 73. gr. orðist með talsvert öðrum hætti en nú, þ.e. að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður eigi hins vegar rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða.
    Enn fremur er gert ráð fyrir undantekningarreglu sem að hluta til á stoð í öðrum ákvæðum stjórnarskrárinnar, þ.e. að þessum rétti megi setja skorður í þágu allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða til verndar heilsu eða siðgæði manna eða mannorðs annarra.
    Í 12. gr. er fjallað um efni nýrrar 74. gr. sem er ætlað að ná til félagafrelsis og fundafrelsis en þessi réttindi njóta verndar í núgildandi 73. og 74. gr. stjórnarskrárinnar. Ástæða er til að vekja sérstaka

athygli á því að hér er lagt til að svokallað neikvætt félagafrelsi verði nú bundið í stjórnarskrá. Hæstiréttur hafði á árinu 1988 komist að þeirri niðurstöðu að núgildandi ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar fæli slíkt ekki í sér. En eins og kunnugt er taldi Mannréttindadómstóll Evrópu þetta stangast á við mannréttindasáttmála Evrópu í dómi frá 1993. Því er nauðsynlegt að breyta þessari grein stjórnarskrárinnar m.a. til að tryggja samræmi að þessu leyti milli þessa sáttmála sem við eigum aðild að og höfum lögfest og stjórnarskrárákvæðanna.
    Ég vek athygli á því sem segir í 2. mgr. 12. gr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.``
    Félagaskyldu verður samkvæmt þessu eingöngu hægt að binda við félög sem hafa lögmæltu hlutverki að gegna í þágu almannahagsmuna eða félög sem til er stofnað vegna sameiginlegra réttinda manna sem mælt er fyrir um í lögum. Eru þar t.d. höfð í huga húsfélög, veiðifélög og annar sambærilegur félagsskapur.
    Því er við að bæta að þegar skylda til aðildar að félagi kann að verða lögð á menn skv. 2. mgr. 12. gr. frv. er vitaskuld þýðingarmikið að tryggt sé með lögum að félagið sinni eingöngu þeim verkefnum sem talin eru réttlæta félagsskylduna. Svo dæmi séu tekin þarf að tryggja að veiðifélög sinni aðeins verkefnum sem varða nýtingu þeirra veiðiréttinda sem eru grundvöllur félagsskyldunnar og húsfélag fjalli aðeins um málefni sem varða sameign í húsi. Þessum félögum má ekki vera heimilt að starfa á öðrum sviðum þar sem menn njóta félagafrelsis. Það fengi t.d. ekki staðist að húsfélag gerði ályktanir um stjórnmál. Í þessu samhengi þarf að hafa í huga að það er þýðingarmikill þáttur í félagafrelsi að geta sagt sig úr félagi ef félag vinnur að málefnum sem viðkomandi félagsmaður hvorki vill né þarf skv. lögum að taka þátt í. Sé rétturinn til úrsagnar tekinn af mönnum hlýtur það að fela í sér takmarkanir á því hvaða málefnum félag megi sinna. Orðalagi 2. mgr. 12. gr. frv. er ætlað að tryggja þetta.
    Í 13. gr. frv. er fjallað um atvinnufrelsi. Tillaga er gerð um nokkuð breytt orðalag frá gildandi stjórnarskrárákvæðum en réttindin sem ætlað er að vernda eru augljóslega þau sömu og áður. Við er bætt mikilsverðu nýmæli um að rétti manna varðandi vinnu og orlof skuli skipað með lögum. Er með þessu gert ráð fyrir að auka við fyrirmæli stjórnarskrárinnar um efnahagsleg og félagsleg réttindi en eins og öllum er kunnugt eru í lögum margvísleg ákvæði um þessi atriði þannig að ekki er víst að þau hafi neinar efnisbreytingar í för með sér.
    Í 14. gr. er mælt fyrir um félagsleg réttindi sem svara að nokkru leyti til þeirra reglna sem nú eru í 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar og ég hef áður minnst á. Í 3. mgr. vek ég sérstaka athygli á ákvæðum um að tryggja skuli börnum í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Þetta tel ég vera mikilsvert nýmæli í frv.
    Í 15. gr. frv. er gerð tillaga um nýja 77. gr. þar sem er fjallað um skattamálefni. Í greininni er tekið af skarið með ákveðnum hætti um að löggjafinn megi ekki framselja til stjórnvalda ákvörðun um hvort skattur verði lagður á, honum breytt eða hann afnuminn. Mikilsvert atriði er einnig bann við afturvirkni skattalaga. Í síðari mgr. segir svo með leyfi forseta:
    ,,Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.``
    Þannig yrði komið í veg fyrir að unnt væri t.d. að breikka skattstofn, hækka hann eða leggja á önnur gjöld eftir álagningu ellegar leggja á einhvers konar nýjar álögur með afturvirkum hætti. Afturvirk ívilnun eða skattalækkun yrði hins vegar að sjálfsögðu heimil.
    Loks er í 16. gr. fyrirmæli um rétt sveitarfélaga til að ráða sjálf málefnum sínum. Hér er ekki um efnisbreytingu að ræða en tekið sérstaklega fram að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum. Rétt er að þingnefndin kanni sérstaklega hvort þessi ákvæði ættu að vera ítarlegri.
    Að lokum vil ég taka fram að með frv. er ráðgert að tvö núgildandi ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar verði felld niður. Annars vegar áðurnefnt ákvæði í 78. gr. um að sérréttindi bundin við aðal, nafnbætur og lögtign megi aldrei í lög leiða. Hef ég þegar útskýrt það atriði. Hins vegar er um það að ræða að fella niður 75. gr. um skyldu sérhvers vopnfærs manns að taka sjálfur þátt í vörn landsins eftir því sem nánar kunni að verða fyrir mælt með lögum. Telja verður að ákvæði þetta hafi tæpast raunhæft gildi. Ég legg þó mikla áherslu á að ekki má draga þá ályktun af brottfalli þessarar greinar að varnarskyldu verði ekki við komið um ókomna framtíð. Slíkri skyldu verður að sjálfsögðu unnt að koma á með almennum lögum eftir sem áður ef þær aðstæður sköpuðust að slíkt yrði talið nauðsynlegt. Ekki er talin þörf á að mæla fyrir í stjórnarskrá um þessa skyldu manna.
    Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér finnst nokkur eftirsjá af báðum þessum gömlu ákvæðum. Ég tel rétt að þingnefndin hugi nánar að báðum þessum greinum og kanni hvort þeim megi koma fyrir með góðu móti í textanum.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú í stórum dráttum gert grein fyrir efni þessa frv. og skal ekki lengja mál mitt enda er greinargerð með því, eins og ég hef þegar sagt, mjög vönduð og ítarleg. Ég vil að síðustu enn á ný þakka samstarfsmönnum mínum, formönnum hinna þingflokkanna, fyrir mjög ánægjulegt samstarf um þetta mál, svo og öðrum þeim sem unnið hafa fyrir þennan hóp. Loks vil ég þakka stjórnarskrárnefndinni sem vissulega lagði mikið til þess máls sem hér er mælt fyrir.

    Að svo mæltu legg ég til, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og þeirrar sérnefndar um stjórnarskrármál sem kosin hefur verið.