Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 16:47:48 (2900)


[16:47]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að fagna því að komið er fram frv. um breytingar á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og þar með framfylgt þeirri ályktun Alþingis frá 17. júní sl. að ljúka endurskoðun á VII. kafla stjórnarskrárinnar á þessu þingi. Frv. er að vísu seint fram komið þannig að lítill tími gefst til umfjöllunar um það ef ljúka á þingi nú í febrúarmánuði nk. En það er alveg ljóst af ákvæðum þessa frv. að það er mikið fagnaðarefni að tekið er á ýmsum mikilvægum og brýnum þáttum í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sem fyrir löngu var orðið tímabært að taka á.
    Það er mjög mikilvægt, eins og hér hefur reyndar fram komið, að ýmsum aðilum í þjóðfélaginu gefist kostur á að tjá sig um ákvæði þessa mikilvæga frv. og gefa álit á því en vonandi tekst það á þeim tíma sem eftir lifir af þinginu. Ég hef ekki átt þess kost að koma að undirbúningi þessa máls og er að sjá þessar tillögur núna í fyrsta sinn eftir umfjöllun formanna þingflokkanna um málið og umræður í þingflokkunum. Ég vil því bíða með að tjá mig í heild efnislega um einstök ákvæði þessa frv. þar til við 2.

umr. en mun koma þeirri ósk á framfæri að ég fái aðild sem áheyrnarfulltrúi að þeirri nefnd sem fær þetta mikilvæga mál til skoðunar og umfjöllunar. Ég vil þó nefna örfá atriði við þessa umræðu. Ég tel mjög mikilvægt, eins og reyndar bent er á í greinargerð með frv., að við endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar sé höfð hliðsjón af þeim alþjóðlegu sáttmálum til verndar mannréttindum sem Íslendingar hafa gerst aðilar að og má þar nefna alþjóðlega mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna, svo sem alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samning um réttindi barna, samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samning um afnám kynþáttamisréttis og samning um bann við misþyrmingu fólks og mannréttindasáttmála Evrópu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ég hef ekki haft tök á að bera saman þessa alþjóðlegu sáttmála til verndar mannréttindum sem við erum aðilar að við þessi ákvæði frv. en ég tel mjög mikilvægt að bæði mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og löggjöf verði aðlöguð að þeim sáttmálum.
    Ég vil líka taka undir það sem reyndar kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v. að ég hefði viljað sjá fleiri ákvæði í þessu frv. til stjórnskipunarlaga og get tekið undir ýmislegt sem hann nefndi en vil þó sérstaklega taka undir að það hefði verið rétt að fella undir þessi mannréttindaákvæði aukinn rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu í mikilvægum málum eins og nefndin frá 1982 gerði reyndar tillögu um.
    Á þeim stutta tíma sem ég hef haft til þess að skoða þetta frv. þá sýnist mér að sum af þessum atriðum þurfi nánari skoðunar við og mér finnst það reyndar hafa komið fram hjá flm. sjálfum að það þurfi að skoða ýmis ákvæði nánar, t.d. í 3. gr. frv. sem ég tel mjög mikilvæga. Mér finnst reyndar sum ákvæðin mjög opin og segja lítið en ég vil þó taka fram að ég tel mjög til bóta hve ítarlegar lögskýringar fylgja með hverri grein fyrir sig til að átta sig á hvað að baki býr í knöppum lagatextanum sjálfum sem ég tel í sumum tilvikum mjög ófullnægjandi. Ég vil aðeins fjalla um tvær eða þrjár greinar þessa frv. við þessa umræðu og ég nefni 3. gr. Þar er um eitt mikilvægasta ákvæði þessa frv. að ræða sem, og get tekið undir það með síðasta hv. ræðumanni, að ég tel verulega skorta á að hún sé fullnægjandi eða nægilega skýr.
    Ég nefni í fyrsta lagi að ég sakna þess að í þessu ákvæði sem kveður á um jafnan rétt allra fyrir lögum án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, uppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags og ætternis skuli ekki einnig vera tiltekin fötlun í upptalningunni, eins og sumir hafa reyndar komið inn á, og jafnvel aldur og sumir hafa einnig nefnt búsetu. Þetta eru atriði sem mér finnst að þurfi að skoða frekar.
    Þeir sem hér hafa tjáð sig telja að um skiptar skoðanir sé að ræða hjá samtökum fatlaðra um þetta efni hvort yfirleitt þurfi að taka þetta sérstaklega fram í stjórnarskránni. Ég hef ekki heyrt annað en samtök fatlaðra séu þessu mjög hlynnt og ég er reydnar með ályktun frá fulltrúaráðsfundi Landssamtakanna Þroskahjálpar sem var haldinn í septembermánuði sl. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í ályktuninni um mannréttindi er skorað á Alþingi að tryggja með afgerandi hætti mannréttindi fatlaðra til jafns við aðra þegar mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar verða endurskoðuð.``
    Það má vera, eins og hér hefur komið fram, að um þetta séu skiptar skoðanir en ég fyrir mitt leyti tel mjög mikilvægt að þetta komi inn. Þó að tiltekin séu í 3. gr. orðin ,,stöðu að öðru leyti`` og tekið fram í skýringum við greinina að undir það geti fallið bæði heilsufar og líkamlegt ástand þá eru þó atriðin sem helst er lögð áhersla á tekin fram í upptalningunni. Ég tel að jafnrétti fatlaðra á við ófatlaða í þjóðfélaginu eins og kostur er sé grundvallaratriði sem ég tel tvímælalaust að eigi einnig að vera tryggt í stjórnarskránni með eigi minni rökum en önnur þau tilvik sem sérstaklega eru tiltekin í 3. gr. frv.
    Þá vil ég koma að ákvæðum um jafnrétti kynjanna sem ég tel vægast sagt mjög rýr og tel að það þurfi mun meira vægi í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar en hér er lagt til. Við þekkjum það vel að þrátt fyrir að lög eftir lög hafi verið sett á umliðnum áratugum um jafnrétti kynjanna þá eru jafnréttislögin langt frá því að vera virt og í rauninni þverbrotin í gegnum árin. Því tel ég mikilvægt að tryggja með afgerandi og öruggari hætti en hér er gert þau grundvallarmannréttindi sem eru jafnrétti kynjanna. Í frv. stendur einungis að allir skuli jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis. Hvað segir þetta? Ég býst við að flestir geti sagt að jafnrétti kynjanna sé bærilega tryggt í lögum en það sem á skortir er að því sé fylgt í framkvæmd. Ákvæði í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eru miklu markvissari en þar segir í 3. gr.:
    ,,Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum takast á hendur að ábyrgjast jöfn réttindi til handa körlum og konum til þess að njóta allra þeirra borgaralegu og stjórnmálalegu réttinda sem sett eru fram í samningi þessum.``
    Reyndar má líka benda á samninginn um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem við erum aðilar að. Með tilliti til þeirra ákvæða sem þar koma fram þar sem m.a. er kveðið á um að setja grundvallarregluna um jafnrétti kvenna og karla í stjórnarskrána og það sé tryggt þá tel því ekki fullnægt með ákvæði eins og því birtist í 3. gr.
    Varðandi mannréttindasáttmála Evrópu sem við höfum lögbundið vantar skýr ákvæði um jafnrétti kynjanna. Að því er þó unnið að setja slík ákvæði inn í þann sáttmála en ákvæðin um það sem nú eru til umfjöllunar kveða á um að yfirvöld skuli grípa til aðgerða til að tryggja raunverulegt jafnrétti karla og kvenna og að réttur karla og kvenna til jafnréttis verði tryggður á öllum sviðum þjóðlífsins. Ég tel því að þetta ákvæði þurfi að fá ítarlega umfjöllun og vildi sjá þar breytingu sem kveði á um skyldu stjórnvalda til að ábyrgjast jöfn réttindi karla og kvenna sem bundin eru í íslenskum lögum og það komi skýrar fram en hér er gert að konur og karlar eigi jafnan rétt á öllum sviðum. Ég tel að þetta sé langt frá því að vera

fullnægjandi eins og það er sett í þessa grein frv. og vænti að það fái ítarlega skoðun og umfjöllun í nefnd.
    Ég vil aðeins víkja að 14. gr. frv. sem er mjög mikilvæg og kveður á um félagsleg réttindi. Þar er upp talið í hvaða tilvikum allir sem þess þurfi eigi rétt á aðstoð. Tilvik sem nefnd eru eru sjúkleiki, örorka, elli, atvinnuleysi og sambærileg tilvik. Hér virðist vera um tæmandi upptalningu að ræða ef undan er skilið að bætt er inn ákvæði þar sem stendur: ,,og sambærilegra atvika eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.`` Í núgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar er sérstakt ákvæði vegna þeirra sem ekki geta séð fyrir sér og sínum eins og það er orðað, en í skýringu um þessa grein í frv. er einmitt vitnað til þessa ákvæðis í 70. gr. stjórnarskrárinnar og sagt að ákvæði 14. gr. frv. svari að nokkru til núgildandi reglu í 70. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi grein frv. er vissulega ítarlegri því að það eru tilteknar hvers konar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að njóta aðstoðar og því er erfitt að sjá af hverju ákvæði um framfærsluaðstoð eru ekki með í upptalningunni eins og það birtist í frv. Mér finnst skýringin sem gefin er um þessa grein um margt mjög óljós og tel að með tilvikum sem sérstaklega eru upp talin eins og sjúkleiki, örorka, elli og atvinnuleysi eigi að bæta inn í framfærsluaðstoð eða framfærsluþörf eða hvaða orð menn vilja nota til þess að ná utan um þennan mikilvæga þátt málsins sem ég tel mjög slæmt að falli út og tel að þetta sé ákvæði sem þurfi að skoða mun betur.
    Í 14. gr. þar sem kveðið er á um aðstoð vegna sjúkleika, örorku o.s.frv. þá verður að segja að lokaorð greinarinnar gera þau nokkuð bitlaus og sama gildir um 2. mgr. um menntun því að hnýtt er aftan við það ,,eftir því sem er nánar ákveðið í lögum.`` Þannig er hægt að draga til baka aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli eða atvinnuleysis í almennum lögum. Miklu eðlilegra væri að segja að þetta skuli tryggt í lögum og þannig yrði greinin miklu markvissari ef fram kæmi að allir sem þess þurfa skuli eiga rétt á aðstoð vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis og þá framfærsluþarfar eins og ég nefndi og sambærilegra atvika og skal það tryggt í lögum. Skal það tryggt í lögum er miklu skýrara en eins og hér kemur fram ,,eftir því sem er nánar ákveðið í lögum.`` Og þetta á reyndar einnig við um 2. mgr. varðandi menntun.
    En ég tel ástæðu til þess að fagna sérstaklega ákvæðinu í 3. mgr. 14. gr. sem kveður á um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og er þessi grein mun afdráttarlausari og skýrari en hinar tvær málsgreinarnar varðandi menntun og félagslega aðstoð og ég tel að þetta sé með merkustum nýmælum í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta. Ég ætlaði að fara nokkuð inn á ákvæðin um félagafrelsi en það hefur verið gert skýrt með hvaða hætti það er hugsað hér og tel ekki ástæðu til þess að eyða tíma í það. Þetta verður væntanlega skoðað í nefnd og fjallað um þetta aftur við 2. umr. En eins og ég sagði í upphafi míns máls hefur mér ekki gefist nægur tími til að fara ítarlega yfir frv. þannig að ég mun geyma mér að fjalla um önnur ákvæði þar til við 2. umr. málsins en ég mun eins og ég sagði áður óska eftir að fá áheyrnaraðild að þeirri sérnefnd sem fjallar um þetta frv.