Stjórnarskipunarlög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 17:00:49 (2901)



[17:00]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég ákvað að biðja um orðið fyrst og fremst vegna þess að mér hefur verið þetta mál nokkuð hugleikið lengi en ekki vegna þess að ég hefði neinar athugasemdir að gera við það sem þeir hv. þingmenn hafa sagt sem hér hafa talað og get ég í meginatriðum tekið undir það sem fram kom í þeirra máli, ekki síst í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. og þeirra útskýringa sem hann hafði hér uppi.
    Það sem ég vil aðeins drepa á eru örfá atriði og þá fyrst að ég vildi gjarnan halda því til haga vegna þess að það hefur ekki verið nefnt hér til þessa að ein myndarlegasta atlagan að endurskoðun stjórnarskrárinnar sem ég tel að hafi verið unnin er sú endurskoðun sem birtist í starfi stjórnarskrárnefndar þeirrar sem var undir forustu Gunnars heitins Thoroddsens, fyrrv. hæstv. forsrh., sem birtist Alþingi í skýrslu sem lögð var fyrir 1983 í ársbyrjun að mig minnir og mér finnst engin ástæða til þess að slá striki yfir. Mér finnst nauðsynlegt að halda því til haga sem vel er gert. Þar var afskaplega vel á málum haldið og myndarlega og það er satt að segja ekki þannig að það sé ástæða til að vera sérstaklega stoltur yfir þessari sögu allri síðan því þar var verulegt tilhlaup gert til þess að endurskoða stjórnarskrána með mjög myndarlegum og afgerandi hætti.
    Í annan stað vil ég nefna það og vil biðja hv. nefnd sem fær þetta til meðferðar að íhuga eitt atriði sem er satt að segja óskylt þessu máli og ég hef velt fyrir mér og hafði ég rætt það aðeins við hv. 2. þm. Norðurl. v. að flytja um það sjálfstætt frv. en það lýtur að ákvæðum stjórnarskrárinnar um yfirskoðunarmenn ríkisreiknings. Það segir í stjórnarskránni að þeir skuli kosnir til eins árs í senn eða á hverju þingi. Ég held að þetta séu úrelt ákvæði og það sé eðlilegra að kveða á um það að með ríkisreikninginn fari eftir ákvæðum í sérstökum lögum og að þetta mál sé einfaldlega flutt inn í almenn lög, lögin um Ríkisendurskoðun t.d. og að einhverju leyti lögin um þingsköp Alþingis, þar sem kveðið verði á um það með hvaða hætti farið verði með ríkisreikninginn í þessari virðulegu stofnun, hvort sem það er á vegum forsætisnefndar eða fagnefnda eða sérstakrar nefndar sem mundi fjalla um það mál og gæti þá e.t.v. líka fjallað um stjórnarskrármál þegar þau koma upp á hverjum tíma því að það líður aldrei svo þing að ekki sé flutt tillaga um breytingar á stjórnarskránni þó að þær nái yfirleitt ekki fram að ganga nema í örfáum tilvikum.

Ég vil því nefna hvort ekki er hugsanlegt að hv. sérnefnd um stjórnarskrármálið fjalli um þetta atriði varðandi yfirskoðunarmenn ríkisreiknings því að eins og þetta ákvæði er núna þá þjónar það ekki tilgangi að mínu mati og ég teldi líka að það væri skynsamlegt að leyfa því að fljóta með í svona endurskoðun. Ég tel að þetta ákvæði hafi gleymst við stjórnarskrárendurskoðanir undanfarinna ára, jafnvel áratuga, en ekki það að menn hafi með ráðnum hug ákveðið að halda þessu ákvæði inni óbreyttu. Þetta vildi ég hér nefna í öðru lagi.
    Í þriðja lagi langar mig svo til að fara yfir nokkrar greinar í frv. og lýsa skoðun minni á þeim og ég vil sérstaklega nefna hér 9. gr. varðandi breytingu á 71. gr. þar sem tekið er með sérstökum hætti á málum er lúta að misbeitingu valds á heimilum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði að það skuli koma fram í lagafrv. og koma fram í greinargerð frv. og koma fram með þeim hætti sem það gerði áðan í framsöguræðu hv. 8. þm. Reykv. Ég tel mikilvægt að taka undir það að ég tel að þau ákvæði séu til fyrirmyndar og í raun og veru skipti miklu meira máli en menn kannski í fljótu bragði átta sig á þegar allt kemur til alls.
    Í öðru lagi langaði mig hér til að gera að umtalsefni sérstaklega 11. gr., þ.e. prentfrelsis- og tjáningarfrelsisgreinina. Og ég vil þakka fyrir greinargerðina, bæði greinina sjálfa og svo greinargerðina um þann texta. Ég verð að segja það um greinargerðina að ég kann vel að meta nákvæma greinargerð í svona máli. Ég tel að það hefði komið til greina að vera hér með nokkuð lengri ræðutíma til þess að menn hefðu getað farið mjög rækilega yfir þessa greinargerð vegna þess að í henni koma mjög víða fram skoðanir og ábendingar. Ég hef ekki rekist á neitt sem ég er ósammála í sjálfu sér en mér finnst greinargerðin vera til fyrirmyndar og hún vera með þeim hætti að hún hefði verðskuldað ítarlega umræðu í þessari virðulegu stofnun.
    Að því er varðar 11. gr. er verið að útvíkka hugtakið prentfrelsi sem er bara einn angi af tjáningarfrelsinu og í 11. gr., væntanlegri 73. gr., er verið að taka á tjáningarfrelsi í heild og ég tel að það sé fagnaðarefni hvernig á þessu máli er tekið.
    Spurningin er þá sú, hæstv. forseti, hvað um þær reglur og þær greinar í lögum sem gilda um þessi mál? Standast þær í öllum tilvikum ákvæði þessarar greinar? Hefur það verið kannað sérstaklega hvort ákvæði hegningarlaga, t.d. um meiðyrði, t.d. um aðdróttanir að opinberum starfsmönnum, t.d. 108. gr. hegningarlaganna standist eftir að þetta væri orðið stjórnarskrárákvæði sem talað er um í þessari grein? Ég vil fara fram á það við hv. þingnefnd að það verði kannað hvort það er öruggt að þessi ákvæði, sem hér eru á ferðinni, eru ekki á þann veg að þau kalli óhjákvæmilega á endurskoðun þeirra ákvæða hegningarlaga sem lúta að tjáningarfrelsi og takmörkun á tjáningarfrelsi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því sem fram kemur hér í greinargerðinni að þær takmarkanir á tjáningarfrelsi sem gera má samkvæmt textanum eru með þeim hætti að þær má aldrei gera nema þær séu í þágu skilgreindra markmiða. Það má gera það í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins. Það má gera það til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra. Og það er nákvæmlega farið yfir það í greinargerð frv. hvernig þessa texta beri að skilja og ég tel út af fyrir sig að það séu ágætar útskýringar þó að ég hefði gjarnan í þessu tilviki viljað fá aðeins ítarlegri útskýringar á þessu með hliðsjón af þeim ákvæðum hegningarlaganna sem lúta að tjáningarfrelsinu. Þetta var sem sagt það þriðja. Ég vildi biðja hv. þingnefnd um að skoða þetta atriði sérstaklega.
    Enn fremur vil ég í þessum þætti ræðu minnar víkja aðeins að 12. gr., þ.e. verðandi 74. gr. og ég vil gera útskýringar hv. 3. þm. Norðurl. v. í þeim efnum algerlega að mínum varðandi stéttarfélög og stöðu þeirra og orða það þannig. Ég tel ekki að greinin eins og hún er mundi breyta á neinn hátt stöðu stéttarfélaganna frá því sem hún er nú. Og ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta liggi fyrir eins og það er reyndar útskýrt mjög rækilega í greinargerð með frv. hér einkum á bls. 39, en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. mgr. 12. gr. er lagt til að ákvæðið um rétt manna til að standa utan félaga verði sett fram með þeim hætti að í byrjun sé mælt fyrir um þá meginreglu að engan megi skylda til aðildar að félagi, en í kjölfarið verði nefndar tvenns konar undantekningar frá meginreglunni. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins yrði heimildin til undantekninga í báðum tilvikum háð þeim skilyrðum að um hana yrði að vera mælt í lögum og skyldan til félagsaðildar yrði að vera nauðsynleg til að viðkomandi félag gæti sinnt hlutverki sem því væri ákveðið með lögum. Að fullnægðum þessum almennu skilyrðum mætti annars vegar skylda mann til aðildar að félagi vegna almannahagsmuna. Viðmiðunin um almannahagsmuni getur óneitanlega virst vera nokkuð teygjanleg. Ástæða er þó til að taka sérstaklega fram að ætlast er til að litið verði á þetta hugtak sem nokkurs konar samnefnara hér fyrir þau atriði sem eru talin upp í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og geta heimilað að vikið verði frá meginreglu þeirrar greinar um félagafrelsi. Hins vegar er ráðgert að skylda til félagsaðildar geti að fullnægðum fyrrnefndum skilyrðum verið felld á menn vegna réttinda annarra. Með þessu er einkum haft í huga að við ákveðnar aðstæður geta tengsl á milli hagsmuna manna orðið svo náin að nauðsynlegt þyki að leggja skyldu á þá til að virða hagsmuni hvor eða hver annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni. Dæmi um þetta má m.a. finna þegar litið er til húsfélaga og veiðifélaga þar sem eigendum fasteignar eða veiðiréttar er gert að standa að sameiginlegu félagi vegna þeirra nánu tengsla sem eru á milli hagsmuna þeirra. Er niðurlagsorðum 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins einmitt beint að aðstæðum eins og þessum.``

    Þessu vildi ég halda hér til haga af minni hálfu við þessa umræðu, hæstv. forseti. En ég vil sérstaklega endurtaka þetta varðandi 108. gr. hegningarlaganna vegna þess að nýlega hefur verið gefið út nefndarálit um það mál.
    Fyrir tveimur árum eða svo, held ég, flutti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir frv. til laga um að fella niður 108. gr. hegningarlaganna. Og niðurstaðan varð sú að allshn. eða meiri hluti allshn. lagði til, ef ég man rétt, að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinar eða alla vega tók ríkisstjórnin málið upp. Dómsmrh. skipaði nefnd til þess að fjalla um þetta mál sérstaklega og nefndin var undir forustu Ragnhildar Helgadóttur, fyrrv. alþm. og ráðherra. Þessi nefnd hefur nú komist að niðurstöðu um það hvort þessa grein þarf að fella út vegna dómsins í máli Þorgeirs Þorgeirssonar sem féll í Mannréttindadómstóli Evrópu og upp var kveðinn 25. júní 1992. Og spurningin sem þessi nefnd stóð frammi fyrir er sú: Þarf að fella niður 108. gr. vegna dómsins yfir Þorgeiri Þorgeirssyni? Svar nefndarinar er þannig að hún skilar ekki neinu heildaráliti. Nefndin svarar í raun og veru engu. Þar eru skiptar skoðanir um málið. En einn nefndarmaður, Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, kemst að þessari niðurstöðu, með leyfi forseta:
    ,,Því er lagt til að 108. gr. almennra hegningarlaga í heild verði afnumin með þeim rökum að hún sé til þess fallin að takmarka frelsi borgaranna til að tjá sig um málefni sem geta varðað almenning mjög miklu. Hún samræmist ekki þeirri grundvallarreglu að allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd. Þrátt fyrir afnám greinarinnar sé löggæslumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum við framkvæmd starfa sinna veitt næg lagavernd.``
    Hér er í raun og veru uppi grundvallargreiningur í landinu um mjög mikilvægt, lögfræðilegt atriði, þ.e. hvort þessi grein stenst aðild okkar að mannréttindasáttmálanum eða ekki. Og ég held að það sé mjög nauðsynlegt um leið og við afgreiðum breytingar á stjórnarskránni og mannréttindakafla stjórnarskrárinnar að við eyðum óvissu, ef kostur er, að því er þetta atriði varðar. Ég fer fram á það að hv. þingnefnd skoði þetta mál sérstaklega en sú nefnd sem ég talaði um hefur nú nýlega skilað áliti með bréfi sem sent var til hæstv. dómsmrh. fyrir nokkrum dögum og þetta nefndarálit hefur verið sent hygg ég Alþingi til skoðunar með bréfi sem er dags. í dómsmrn. 9. des. 1994. Þetta ákvæði varðandi 108. gr. hegningarlaganna tel ég að þurfi að fjalla um sérstaklega.
    Ég vil einnig nefna það, hæstv. forseti, að þetta mál sem við erum með á sér þegar nokkurn aðdraganda í þessari virðulegu stofnun. Þó það komi fyrst til umræðu núna þá hefur það verið lengi hér til meðferðar með einum eða öðrum hætti. Ég leyfi mér að benda á till. til þál. á þinginu 1992 sem við fluttum, ég ásamt hv. þm. Jóni Helgasyni og Kristínu Einarsdóttur, um aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins þar sem við hvöttum til þess í greinargerð að ákvæði stjórnarskrárinnar önnur en kosningalagaákvæðin yrðu tekin til sérstakrar endurskoðunar í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins. Og í umræðum um þetta mál í þessari stofnun nefndum við sérstaklega mannréttindaákvæðin þar sem segir svo t.d. í framsöguræðu 1. flm., með leyfi forseta:
    ,,Að við göngum í það verk með myndarlegum hætti með fulltrúum frá öllum flokkum að endurskoða stjórnarskrána í heild, ekki síst mannréttindaákvæði hennar og að við í því skyni látum ekki nægja að setja niður stjórnarskrárnefnd eða framlengja umboð þeirra sem nú situr heldur ákveðum að halda sérstakt stjórnlagaþing sem tekur fyrir stjórnarskrána eina og ekkert annað og tekur ekki kosningalagaþáttinn.``
    Þetta nefni ég hér, virðulegi forseti, m.a. til þess að halda á lofti svo sem vert er afrekum flm. en líka til þess að vekja athygli á því að hugmyndin um stjórnlagaþing, sem mér sýnist vera hér á dagskránni stundum, það er ekki alveg nýtt að henni sé hreyft og reyndar minnir mig að hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, hafi mjög oft nefnt það mál og flutt um það tillögur í þessari virðulegu stofnun.
    Þegar við ræddum þetta mál á sínum tíma, þá tók til máls hv. 2. þm. Reykn., hæstv. forseti Alþingis, og tók undir hugmyndirnar um það að tekið yrði á þessum málum sem lúta að stjórnarskránni sérstaklega, þ.e. mannréttindaþættinum. Hv. þm. Páll Pétursson, 1. þm. Norðurl. v., komst þannig að orði:
    ,,Þrátt fyrir að mér finnist stjórnarskráin góð tel ég réttmætt að leggja nokkra vinnu í endurskoðun hennar eða athugun á því hverju þurfi að breyta. Þar vantar t.d. nútímaleg ákvæði um mannréttindi.``
    Og í ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur sem tók til máls um þetta sagði svo, með leyfi forseta:
    ,,Það verk hefur dregist allt of lengi [þ.e. að endurskoða stjórnarskrána] og þó að margt sé gott í hinni íslensku stjórnarskrá, þá er því ekki að leyna að í hana vantar ýmis mannréttindaákvæði sem betur mætti kveða á um.``
    Síðan tók til máls í þessari umræðu hæstv. þáv. viðskrh. Jón Sigurðsson sem talaði greinilega þar fyrir hönd Alþfl. og tók undir þær hugmyndir sem þarna voru uppi og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson komst þannig að orði að á þessu máli þyrfti að taka og það væri umhugsunarefni, sagði hæstv. forsrh. reyndar, hvort ekki væri rétt að kjósa nýja stjórnarskrárnefnd í tilefni af þessum umræðum. Af því varð ekki eins og kunnugt er en ég nefni þetta hér, hæstv. forseti, til að undirstrika það að um þetta mál, þ.e. þegar í upphafi árið 1992 fyrir liðlega tveimur árum, var gríðarlega góð samstaða í þessari stofnun.
    Og svo að lokum, hæstv. forseti, held ég að það sé alveg nauðsynlegt að farið verði í kynningarátak á þessu máli. Ég veit ekkert hvernig væri best að gera það en ég tel að það ætti að nota tímann í

það að fara í kynningarátak. Eini gallinn við það að fara í kynningarátak núna er sá að það er svo stutt til alþingiskosninga, að þeir sem færu í að kynna málið litu kannski út eins og frambjóðendur í leiðinni og það er galli við málið vegna þess að þetta er fyrst og fremst mál Alþingis, allra þeirra sem hér hafa setið og sitja á þessu kjörtímabili, en ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að fara í víðtækt kynningarátak og ég teldi alveg koma til greina að forsætisnefnd Alþingis ræddi það sérstaklega hvernig á að fara í þetta kynningarátak og það verði gert með skipulegum hætti, talað við fjölmiðla og beitt alls konar nútíma aðferðum sem til eru til þess að koma umræðum og hugmyndum á framfæri. Ég skora á hv. 1. flm. að beita sér fyrir því líka í starfi þeirrar nefndar sem mun fá málið til meðferðar.