Samningur um breytingar á tilteknum samningum EFTA-ríkjanna

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 17:50:21 (2906)



[17:50]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi var það náttúrlega aldeilis ekki ljóst þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var samþykktur á Alþingi að þær breytingar þyrfti að gera sem hér er verið að gera. Það átti sitthvað eftir að gerast áður en það lægi ljóst fyrir, svo sem eins og þjóðaratkvæðagreiðsla í þremur löndum. Það er því ekki hægt að segja það að þegar EES-samningurinn hafði verið afgreiddur á Alþingi hafi legið ljóst fyrir að þessar breytingar þyrfti að gera. Það lá ljóst fyrir að einhverjar breytingar þyrfti að gera en það var að sjálfsögðu ekki hægt að gera þær breytingar fyrr en það lá ljóst fyrir hvers eðlis þær breytingar þyrftu að vera.
    Í öðru lagi er, eins og fram kemur í greinargerðinni, sjálfri, skipan þingmannanefndarinnar gerð samkvæmt 95. gr. EES-samningsins og samkvæmt bókun 36 við þennan samning er ákveðið að nefndin skuli skipuð 66 þingmönnum. Þetta er samningur sem við höfum gert. Og þegar falla burtu þau önnur ríki sem hafa verið með okkur í það að skipa þessa þingmenn þá kemur það einfaldlega þannig út að við verðum þá að taka á okkur þeirra skipun til viðbótar við það sem við höfum skipað hingað til. Það segir sig sjálft að þarna er verið að reyna að komast hjá því að þurfa að gera einhverjar breytingar á EES-samningnum sem þyrfti þá að fara fyrir 15 þjóðþing til staðfestingar. Hætt er við því að það yrði erfitt verk að gera það fyrir Íslendinga og Norðmenn eina þannig að við eigum ekki annars úrkosta að mínu viti en framkvæma þetta svona.
    Í þriðja lagi hefur hv. þm. Jón Helgason spurt um kostnað. Það er rétt. Það kemur ekki fram í tillögunni hver kostnaður hlýst af þessari aðgerð einni út af fyrir sig en það er alveg ljóst að það að fækkað hafi í EFTA-hópnum niður í tvö ríki, e.t.v. þrjú ef Liechtenstein bætist við, þá mun kostnaðurinn af framkvæmd EES-samningsins hækka allverulega, bæði beinn kostnaður, svo sem kostnaður af þeim stofnunum sem eru starfræktar samkvæmt EES-samningnum og lenda nú á tveimur eða þremur ríkjum þó svo að starfslið sé skorið niður. Það mun að sjálfsögðu hækka kostnað Íslendinga. Auk þess mun ýmis óbeinn kostnaður Íslendinga hækka því að til þess að geta fullnægt EES-samningnum þá verðum við að sjálfsögðu að fylgjast vel með því sem er að gerast hjá Evrópusambandinu og undirbúa okkur undir það að standa við okkar hluta samningsins. Nú getum við ekki lengur fengið aðstoð annarra ríkja við að afla þeirra upplýsinga. Við verðum að afla þeirra sjálf og við verðum að vinna alla þá vinnu sem þarf í sambandi við þessa samninga sjálf með aðstoð Norðmanna einna. Það mun örugglega kalla á mjög hækkuð útgjöld til alþjóðlegrar starfsemi eða fjölþjóðlegrar starfsemi okkar Íslendinga. Að mínu viti eru menn að tala um eitthvað á annað hundrað millj. kr., gæti ég trúað á ári, sem þyrfti a.m.k. framan af að gera ráð fyrir að við þyrftum að taka á okkur af kostnaði í því sambandi. Það er einfaldlega svo að fyrst við völdum þá leið sem við höfum valið þá verðum við að borga það sem hún kostar. Hins vegar liggur það ekki enn fyrir, en hefði verið betra að það hefði gert það, hversu mikið útgjöld okkar muni aukast af því tilefni og ég tek undir það með hv. þm. að það hefði verið gott að vita það en við erum bara ekki í færum um að meta það nákvæmlega á þessari stundu hversu mikið sá kostnaður muni vaxa en hann muni vaxa allverulega.
    Um orðalagið í greinargerðinni þangað til eða ef. Ég held að það skipti kannski ekki meginmáli og sé svona smekksatriði hvernig menn orða þetta. Mergurinn málsins er að það gerist ekkert í þessu efni nema Liechtenstein taki ákvörðun um það að gerast aðili að EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu. Ef það gerist ekki sem er ákvörðun þeirra sjálfra þá skiptir ósköp litlu máli hvort í greinargerð með till. til þál. hér uppi á Íslandi stendur þangað til eða ef.