Hlutafélög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 21:19:08 (2912)



[21:19]
     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil einungis staðfesta það sem hv. formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson, segir hér. Mikil umræða var um það í nefndinni hvar ætti að draga markalínuna að þessu leyti. Niðurstaðan varð sú að ekki ætti að refsa mönnum nema þeir hefðu gert eitthvað af sér sem væri refsivert. Það liggur fyrir að gjaldþrot eru ekki refsiverð. Síðan geta mál, sem koma fyrir yfirskattanefnd, verið þess eðlis að þau tengjast ekkert endilega gjaldþroti og því tel ég að það sé ekki eðlilegt að samþykkja eða taka inn þessa tillögu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Kristínu Ástgeirsdóttur heldur halda sig við það samkomulag sem náðist við meðferð málsins í nefndinni í aðalatriðum og að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir að teknu tilliti til þeirrar brtt. sem efh.- og viðskn. gerir.