Hlutafélög

63. fundur
Mánudaginn 19. desember 1994, kl. 21:32:32 (2916)



[21:32]
     Frsm. efh.- og viðskn. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil benda á eitt í sambandi við röksemdafærslu hv. þm. sem kom fram áðan. Hún benti á að skattrannsóknarstjóri hefði oft og tíðum valið þá leið að senda málin til yfirskattanefndar og fá þar úrskurð. Það er væntanlega alveg rétt en ég bendi á í þessu sambandi að m.a. skattrannsóknarstjóri hefur bent á nauðsyn þess að til væru heimildir í lögum til þess að stöðva aðila sem hefðu beitt gjaldþroti ítrekað og refsivert. Skattrannsóknarstjóri, sem ábyrgur embættismaður og sem hefur lýst vilja sínum til þess að ná yfir þessi mál, getur í hvert það skipti þegar uppi er grunur um það að viðkomandi aðili hafi beitt gjaldþroti á þann hátt sem menn vilja koma við vísað málinu til dómstóla. Að mínu mati hafa þeir aðilar sem eru að fjalla um þessi mál á hverjum tíma betri leið til þess að stöðva þá aðila sem við erum væntanlega öll sömul sammála um að þurfi að stöðva en var með upprunalegu tillögunni. Mér dettur ekki í hug að ætla þeim hv. þm. sem leggja þessa brtt. fram neitt annað en að leita að bestu leið til þess að geta stöðvað rekstur þessara aðila.