Fjáraukalög 1994

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 15:25:36 (2926)



[15:25]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að ég undrast vinnubrögð meiri hluta hv. fjárln. Inn á borðið til okkar berst skýringartexti við brtt. um Byggðastofnun núna þegar fundurinn er að byrja. Þar með er búið að ákveða án samráðs við minni hlutann að fjárln. sé orðin einhvers konar yfirstjórn yfir Byggðastofnun án þess að það sé rætt í nefndinni, án þess að það sé látið svo lítið að spyrja minni hlutann að því einu sinni. Hvers lags vinnubrögð eru þetta? Ég er ekki undir það búinn að vera einhvers konar yfirstjórn Byggðastofnunar og kæri mig ekkert um það hlutverk. ( Gripið fram í: Það væri nú góð yfirstjórn.) Ja, ég gæti alveg tekið það hlutverk að mér ef mér væri falið það formlega. Hins vegar vil ég ekki vera bendlaður við svona svona samkrull og svona vinnubrögð. Ég mun taka þessi vinnubrögð frekar fyrir á eftir þegar þessari umræðu miðar fram en ég verð að segja að þetta er alveg forkastanlegt. Ég held að það ætti að gera hlé á fundinum þannig að fjárlaganefndarmönnum gefist tækifæri til að skoða málið svolítið betur og lesa þennan texta a.m.k.