Fjáraukalög 1994

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 15:34:14 (2931)



[15:34]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir fjárlaganefndarmenn minni hlutans frábiðja mér þess að við höfum tekið þátt í samningum þessa plaggs og þar sem við höfum nú flest setið við að reyna að berja saman nefndarálit fyrir umræðu um fjárlög á komandi degi höfðum við ekki séð þetta nefndarálit fyrr en rétt núna enda er þetta nýlagt fram.
    Hér er auðvitað mál af þeirri stærð að það er fráleitt að halda hér áfram umræðu. Ég hygg að ástæða sé t.d. til þess að kalla hæstv. landbrh. til viðtals við þá menn sem hér tóku ákvörðun sem er satt að segja fjarri öllu lagi og hv. þm. geri athugasemd við og ég held, hæstv. forseti, að ekkert annað sé að gera en gera hér þinghlé og kalla formann og varaformann fjárln. til fundar við hæstv. landbrh. og hæstv. sjútvrh. því að hér er auðvitað mál af þeirri stærðargráðu að það þýðir ekkert að halda áfram umræðu bara til að halda áfram umræðu.
    Hæstv. forseti. Það væri auðvitað ástæða til að hafa langa umræðu um störf nefndarinnar vegna þess að ég held að það sé með hreinum ólíkindum og hafi aldrei gerst fyrr að nú hefur nefndinni verið skipt í tvö hólf, minni hluta og meiri hluta, og þeir eru færri fundirnir sem nefndin situr öll saman við afgreiðslu fjárlaga. Sl. sunnudag sátum við í minni hlutanum og biðum klukkutímum saman á meðan meiri hlutinn var á fundi, eflaust til að semja þennan texta sem við fáum svo ekki að sjá fyrr en hann er lagður hér fram í hv. þingdeild. Hér er auðvitað ógæfulega að farið og ekki von til þess að þingið nái neinu samkomulagi með svona vinnubrögðum og ég held að til þess að lægja öldurnar ætti hæstv. forseti að kalla til fundar við sig þá hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem þetta mál varðar og hæstv. forsrh. að sjálfsögðu og reyna að koma á einhverju samkomulagi áður en lengra verður haldið.