Fjáraukalög 1994

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 15:36:44 (2932)



[15:36]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Hér eru mál komin í mikið óefni og verð ég að taka undir það með hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni sem er nú elsti og reyndasti þingmaðurinn að það er furðulegt ef forseti verður ekki við þeirri beiðni að fresta fundinum og fara yfir málið. Ég hef hvað eftir annað gagnrýnt þessa fjárln. í haust, bæði við fjárlagaumræðu og fjáraukalagaumræðu. Mér hafa fundist þau vinnubrögð sem sú hv. nefnd hefur ástundað undarleg og hér kemur staðfesting á því að þau eru ærið undarleg. Þeim vinnubrögðum fylgir því miður svolítill hroki eins og kemur hér fram í vinnuskjalinu. ( JónK: Meira en svolítill.) Já, meira en svolítill, segir hv. þm., þannig að þingið er í hættu ef forseti verður ekki við því að fresta svona fundi.
    Svo finnst mér alveg furðulegur hlutur að textinn hafi ekki verið borinn undir hv. þm. Egil Jónsson, 3. þm. Austurl., sem mér finnst mjög eðlilegt að sé gert í Sjálfstfl. Svo miklu þykist hann ráða alla vega stundum. Og hann segir það eins og hv. þm. Matthías Bjarnason að þetta sé markleysa og ég tek undir það með þessum reyndu þingmönnum að þinginu verður ekki boðið upp á þetta, hæstv. forseti, og mér finnst ástæðulaust hjá forseta að láta umræðuna buna áfram. Einhvern tíma hlýtur hæstv. forseti að verða að rjúfa og menn koma saman í þeim valdastofnunum þar sem oft á að taka á svona ágreiningsmálum sem eru þingflokkarnir. Ég skora því á hæstv. forseta að ljúka þessari hlægilegu umræðu svo menn komist heim í sína þingflokka til að taka þessa fjárlaganefndarmenn meiri hlutans á beinið því að þeir eru að verða meira en skrýtnir í sínum vinnubrögðum hvort sem það stafar af svefnleysi eða öðru. Ég hef ekki hugmynd um það.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að þinginu verði ekki boðið upp á þessa meðferð hér heldur verði fundi frestað.