Afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps

64. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 16:44:21 (2940)



[16:44]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Hv. 8. þm. Reykv. Geir H. Haarde sagði réttilega áðan að það yrði gert hlé á fundi kl. 6 vegna þess að þá yrði að vera framhaldsfundur í efh.- og viðskn. Efh.- og viðskn. fundaði frá klukkan 8.15 í morgun og fram í hádegi og fjallaði um skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Okkur var ætlaður tími fram til kl. 3 í dag og það svona lá í loftinu að það væri ætlun ríkisstjórnarmeirihlutans að taka þetta mál út í morgun en eins og með allt of mörg mál, sem hér eru fram lögð, þá kom það í ljós að á málinu voru ansi margir agnúar og stjórnarmeirihlutinn sat síðan á fundum í nefndinni allan lungann úr miðju dagsins til þess að því er okkur er sagt að koma saman um brtt. við það mál svo að það er alveg sama hvar á er litið. Í gær biðum við allan daginn eftir því að stjórnarliðarnir kæmu sér saman um brtt. við frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í dag bíðum við eftir því að stjórnarliðarnir komi sér saman um brtt. við skattafrumvörpin og það er ekki einu sinni hægt að ræða fjáraukalögin meðan beðið er eftir því vegna þess að það er allt upp í loft orðið innbyrðis í öðrum stjórnarflokknum. Þetta eru náttúrlega þannig vinnubrögð og þannig aðstæður að við hljótum að spyrja forsvarsmenn stjórnarflokkanna hvort það séu yfir höfuð líkur á að þeir komi sér saman um nokkurn skapaðan hlut til afgreiðslu fyrir jól og hvort framgangur mála eigi að vera sá að við eigum að taka hérna fyrir nokkur lítil samkomulagsmál og síðan förum við bara heim. Það væri auðvitað það langsamlega besta að við færum heim og gæfum stjórnarflokkunum jólin, kærleikshátíðina, til þess að komast að því hvort þeir séu í ríkisstjórn saman yfir höfuð, hvort þeir ætli sér yfir höfuð að klára þetta kjörtímabil því að miðað við þessar aðstæður sem nú eru uppi þá liggur ekkert annað fyrir en að rjúfa þing og boða til kosninga því að það er tilgangslaust og þetta er í raun orðinn skrípaleikur og andhverfa þingræðisins hvernig hér er unnið á Alþingi þessa dagana.