Útflutningur hrossa

65. fundur
Þriðjudaginn 20. desember 1994, kl. 17:04:20 (2949)


[17:04]
     Frsm. landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti landbn. á þskj. 424 um frv. til laga um útflutning hrossa á þskj. 235. Eins og ég hygg að þingheimur muni, þá var þetta frv. rætt á síðasta þingi og um það fjallað af landbn. og eftir þá umfjöllun var gerð nokkur breyting á frv. til samræmis við þær óskir sem komu fram hjá hinum ýmsu hagsmunaaðilum í hrossarækt.
    Eins og nál. gefur til kynna þá er einungis um það að ræða að nefndin geri brtt. við 7. gr. frv. og skýrir sú tillaga sig algjörlega sjálf, en þar er kveðið á um heimild landbrh. til að gefa út reglugerð við þessi lög og sérstaklega tekið til hvað þar á að leggja til grundvallar nú með skýrari hætti heldur en var í frv. sjálfu.
    Það kemur enn fremur fram í nál. hverjir komu til viðræðu við nefndina, en það voru þeir Sveinbjörn Eyjólfsson, sem er aðalsmiður þessa frv., og Agnar Norland og enn fremur barst greinargerð frá Páli Agnari Pálssyni, fyrrv. yfirdýralækni.
    Eins og fram kemur þá voru tveir nefndarmenn, hv. þm. Eggert Haukdal og hv. þm. Ragnar Arnalds, fjarverandi við afgreiðslu málsins en aðrir nefndarmenn skrifa nöfn sín undir þetta nál. án athugasemda.
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér, að lokinni þessari umræðu, að gera tillögu um að málinu verði vísað til 3. umr.